Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2008

Ákvörðun tollverðs bifreiðar

22.1.2008

Í dag var hjá Tollstjóranum í Reykjavík (TSR) kveðinn upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R

 

I. Kæra

Með bréfi, dags. 12. nóv. 2007, hefur L, f.h. A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun TSR frá 12. sept. 2007 að tollverð ofangreindrar bifreiðar verði ekki byggt á reikningi. Bifreiðin, sem er af gerðinni Dodge Caravan, árg. 2007, með fast númer X, var flutt til landsins í sendingu nr. E CEA 14 08 7 US RIC W132 og tollafgreidd 17. september 2007.

Kærandi krefst þess að tollverð bifreiðarinnar verði ákvarðað á grundvelli kaupverðs skv. reikningi.

II. Málsmeðferð

Aðflutningsskýrslu vegna bifreiðarinnar, dags. 17. ágúst 2007, fylgdi ljósrit af reikningi frá 18. júlí 2007. Þar kemur fram að innflytjandi keypti bifreiðina af O á USD 13.000, en nefndur O er í stjórn innflytjanda skv. fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.

TSR krafði innflytjanda um frekari staðfestingu á reikningsverðinu með bréfi, dags. 3. sept. 2007, enda væri reikningsverðið, skv. upplýsingum embættisins, mun lægra en markaðsverð sambærilegra ökutækja í Bandaríkjunum. Að öðrum kosti gæti komið til þess að reikningnum yrði hafnað sem grundvelli tollverðs, sbr. 56. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og toll- meðferð vöru.

Með bréfi TSR, dags. 12. sept. 2007, var innflytjanda tilkynnt um að reikningnum hefði verið hafnað sem grundvelli tollverðs og, með skírskotun til Red Book, að fob-verð bifreiðarinnar hefði verið ákveðið USD 23.800.

III. Meginröksemdir kæranda

Í kæru er því haldið fram að tollyfirvöld hafi sönnunarbyrðina fyrir því að reikningur sé rangur ef þau hafna honum sem grundvelli tollverðs. Þá segir að rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun sé ábótavant og í því sambandi er m.a. vísað til 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Jafnframt segir að svo virðist sem hin kærða ákvörðun hafi ekki lagastoð. Borgararnir eigi að fá að njóta vafa sem kunni að vera uppi um að skilyrðum til að hafna reikningi sé fullnægt, enda um að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun. Ekki hafi verið tekið tillit til fyrirliggjandi gagna í málinu, m.a. hvað varðar tjón á bifreiðinni. Meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið gætt; ákvörðunin sé ólögmæt og ógildanleg og þess er krafist að tollverðið verði byggt á reikningnum.

IV. Niðurstöður

Fyrst skal þess getið að skoðunargerð var ekki gerð af hálfu tollgæslunnar við tollafgreiðslu bifreiðarinnar eins og bar að gera skv. fyrirmælum Ríkistollstjóraembættisins, sem enn eru í gildi, og varða tollafgreiðslu innfluttra notaðra ökutækja. Ef þeim fyrirmælum er ekki fylgt, getur verið örðugra en ella að meta sönnunargildi málsgagna og staðhæfinga í kærumáli sem þessu.

Tollstjóri getur hafnað reikningi sem grundvelli tollverðs ef réttmæt ástæða er til að véfengja trúverðugleika hans, sbr. 56. gr. og 3. mgr. 64. gr. fyrrnefndrar reglugerðar. Byggja ákvæðin á 2. mgr. 16. gr tollalaga. Getur það t.d. verið vísbending um ótrúverðugleika reikningsverðs ef það er verulega lægra en markaðsverð sambærilegrar vöru í viðskiptalandinu. Í tengslum við mat á því hvort réttmæt ástæða sé til að hafna reikningi, verða tollyfirvöld að gera hæfilegar og eðlilegar kröfur til sönnunarfærslu innflytjanda. Ber og að gæta þess að innflytjandi á að njóta þess við ákvörðun tollverðs ef hann hefur gert góð kaup.

Í 17. gr. alþjóðlegs samnings um tollverð frá 1979, sem er fyrirmynd tollverðsreglna í fjölmörg- um löndum, m.a. hér á landi, segir: „Engin ákvæði þessa samnings skal skilja þannig að réttur tollyfirvalda verði takmarkaður eða véfengdur til að staðreyna sannleiksgildi eða áreiðanleika hvers konar yfirlýsingar, skjals eða skýrslu sem lagt hefur verið fram vegna ákvörðunar toll- verðs.“ (Samningur um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti (GATT) fylgdi frumvarpi því sem varð að tollalögum nr. 55/1987.)

Tollframkvæmd byggir á svonefndri „deklarasjónsreglu“, sbr. 22. gr. tollalaga og grunngildi sem m.a. búa að baki 17., 18., 20., 21, 27. og 34. gr. laganna, en hún felur m.a. í sér að inn- og útflytjendum ber, að eigin frumkvæði, að gera tollyfirvöldum grein fyrir viðkomandi vörum og á þann hátt og með þeim upplýsingum og gögnum sem áskilið er lögum samkvæmt, auk þess, eftir því sem við getur átt, að sýna fram á að fullnægt sé skilyrðum öðrum sem um tollafgreiðslu gilda, t.d. hvað varðar innflutningsleyfi eða upprunasönnun vegna fríverslunar. Upplýsingar um verðmæti vöru og annað sem máli skiptir við ákvörðun tollverðs, eru meðal atriða sem aðilar þurfa að standa tollyfirvöldum skil á.

Í bréfi TSR 12. sept. 2007 kom fram að innflytjandi hefði ekki svarað bréfinu frá 3. sama mánaðar. Í því bréfi hefði, eðli málsins samkvæmt, verið rétt að gefa innflytjanda ákveðinn og tilgreindan frest til andsvara, sbr. og 56. gr. fyrrnefndrar reglugerðar, þar sem kemur fram að viðkomandi skuli fá „hæfilegan“ frest til að nýta andmælaréttinn.

Umrædd bifreið mun hafa verið seld á uppboði hjá C í Bandaríkjunum 14. júní 2007 á USD 9.915, með kostnaði, og hafa þá verið tjónuð, m.a. dælduð á hlið og hjólabúnaður laskaður. Sala á uppboði lýtur nokkuð öðrum lögmálum en almenn sala sem getur haft áhrif á söluverðið. Til er reikningur að upphæð USD 1.900 vegna viðgerðar sem mun hafa verið framkvæmd eftir upp- boðið og áður en bifreiðin var flutt til landsins.

Hið umdeilda reikningsverð X, USD 13.000, er 45,38% undir viðmiðunarverði Red Book, USD 23.800. Athugun sýnir að hinn 15. nóvember 2007 var tollafgreidd sams konar bifreið og hér um ræðir. Reikningsverð hennar var USD 15.800, eða 33% undir viðmiðunarverði Red Book. Af tollskjölum verður ekki séð að sú bifreið hafi orðið fyrir tjóni eða verið seld á uppboði. Skoðunargerð tollgæslu liggur ekki fyrir vegna þeirrar bifreiðar.

Í hinni kærðu ákvörðun var fob-verð X ákveðið með skírskotun til Red Book, en það rit nota tollyfirvöld til viðmiðunar við mat á trúverðugleika reikninga vegna notaðra bifreiða sem fluttar eru inn frá Bandaríkjunum í samræmi við 64. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Tollverðið hefði átt að ákvarða skv. reiknireglu 66. gr. reglugerðarinnar, þar eð reikningi var hafnað og ekki talið unnt að beita 57.-61. gr. reglugerðarinnar, og e.t.v. hefði verið athugandi hvort skilyrði væru til að lækka tollverðið skv. 67. gr.

Að öllu athuguðu verða forsendur ekki taldar nægjanlega traustar til að hafna hinum umdeilda reikningi sem grundvelli tollverðs X, enda eru fyrirliggjandi upplýsingar og gögn í þessu kærumáli þess eðlis að þau geta skýrt hið lága kaupverð bifreiðarinnar. Tollverðið skal því byggt á reikningnum og ákvarðað í samræmi við meginregluna um viðskiptaverð vöru, sbr. 1. mgr. 14. gr. tollalaga og 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Hin kærða ákvörðun er úr gildi felld.

Tollverð X skal ákvarða á grundvelli reiknings.

Kæruréttur

 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum