Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2010

Synjun endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutæki sem flutt hefur verið úr landi

14.5.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 2. febrúar 2010, hefur K, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 synjun Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutæki með fastnúmer X sem flutt var úr landi þann 30. október 2009 með sendingu nr. E DET 30 10 9 IS REY W135.

Kærandi krefst þess að ofangreind ákvörðun um synjun endurgreiðslu verði endurskoðuð og endurgreiðslan heimiluð.

II. Málsmeðferð

Kærandi sótti hjá embætti Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni X, sem er af gerðinni Volkswagen Golf, árgerð 2000, á þar til gerðu eyðublaði þann 29. október 2009. Umsóknin barst embættinu þann 30. október 2009. Bifreiðin var flutt úr landi þann 30. október 2009 með sendingu nr. E DET 30 10 9 IS REY. Með bréfi Tollstjóra, dags. 11. janúar 2010 var kæranda tilkynnt um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts, byggt á því að bifreiðin hafi ekki verið afskráð fyrir 31. desember 2009 og skilyrði fyrir endurgreiðslu því ekki til staðar. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni X var kærð með bréfi, dags. 2. febrúar 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um endurgreiðslu á því að skilyrði fyrir endurgreiðslu vörugjalda og virðisaukaskatts hafi verið uppfyllt. Bifreiðin hafi verið flutt utan og skráð í sænska bifreiðaskrá 29. janúar 2010 og hefur nú númerið R. Til staðfestingar leggur kærandi fram bréf og skráningarstaðfestingu frá umferðaryfirvöldum í Y. Númeraplötum hafi verið skilað til Umferðarstofu, sem afskráði bifreiðina þann 2. febrúar 2010.

IV. Niðurstöður

Með lögum nr. 140/2008 bættust ný ákvæði til bráðabirgða við lög um vörugjald af bifreiðum nr. 29/1993 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Ákvæðin tóku gildi þann 15. desember 2008. Samkvæmt þeim er heimilt að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af vélknúnum ökutækjum sem flutt eru úr landi. Heimild til endurgreiðslu gjaldanna gilti til og með 31. desember 2009 og annaðist Tollstjórinn í Reykjavík, nú Tollstjóri, endurgreiðsluna. Í reglugerð nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt eru úr landi er að finna nánari útfærslu á bráðabirgðaákvæðunum. Ágreiningur í fyrirliggjandi máli snýst um hvort skilyrði laganna til endurgreiðslu séu uppfyllt.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða er skilyrði endurgreiðslu að ökutækið hafi verið afskráð og flutt úr landi, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar Í 2. tl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að skilyrði fyrir endurgreiðslu sé að skráningarnúmer ökutækis skuli hafa verið afhent Umferðarstofu, ökutækið afskráð til nota hér á landi og fyrir liggi upplýsingar þar að lútandi við afgreiðslu umsóknar um endurgreiðslu hjá Tollstjóra. Reglan er því sú að bifreiðar skulu hafa verið afskráðar áður en þær voru sendar úr landi.

Í því máli sem hér liggur fyrir var bifreiðin flutt úr landi þann 30. október 2009. Með bréfi, dags. 10. janúar 2010, hafnaði embætti Tollstjóra umsókn kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalds. Bifreiðin var skráð hjá sænskum yfirvöldum þann 29. janúar 2010, eða þremur mánuðum eftir að hún hafði verið flutt úr landi. Bifreiðin var afskráð hjá Umferðarstofu þann 10. febrúar 2010. Skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða og ákvæðum reglugerðar nr. 1144/2008 voru því ekki uppfyllt.

Þar fyrir utan skal ökutækið skoðað af tollgæslunni fyrir útflutning samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Réttur til endurgreiðslu fellur niður ef ökutæki hefur ekki verið skoðað af tollgæslu fyrir útflutning sbr. 5. mgr. 1. gr. Með skoðuninni ganga starfsmenn embættisins m.a. úr skugga um að ástand ökutækis sé í samræmi við eðlilega notkun og aldur, auk þess að tryggja að bifreiðin fari í raun úr landi. Um er að ræða matskennda ákvörðun, þar sem embætti Tollstjóra metur ástand bifreiðarinnar.

Í fyrirliggjandi máli er um að ræða bifreið af árgerð 2000 sem nýskráð var á landinu í ágúst 2007. Umsókn um endurgreiðslu var dags. 29. október 2009 og lögð inn þann 30. október 2009 eða sama dag og flutningsfar fór úr landi. Skipið var því þegar fullhlaðið þegar umsókn um endurgreiðslu barst og þar með beiðni um skoðun bifreiðarinnar. Á vinnuskjali tollvarða kemur fram að einungis hafi fengist staðfest af starfsmanni farmflytjanda að umrædd bifreið hafi verið flutt um borð og úr landi.

Skilyrði um skoðun bifreiðarinnar af tollgæslu í samræmi við fyrrgreind ákvæði var því ekki uppfyllt. Það er á ábyrgð útflytjanda að koma umsókn um endurgreiðslu tímalega til tollstjóra svo unnt sé að framkvæma skoðun á ökutækjunum. Af því leiðir að kæranda hefði borið sækja svo tímanlega um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni að starfsmönnum Tollstjóra hefði verið kleift að skoða bifreiðina. Með þessu var fyrrgreint skilyrði fyrir endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts ekki uppfyllt og því ástæða til að hafna umsókn kæranda um endurgreiðslu, enda fellur réttur til endurgreiðslu niður skv. 5. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 1144/2008 ef ökutæki hefur ekki verið skoðað af tollgæslu fyrir útflutning.

Ofangreindri umsókn um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts var því með réttu hafnað með vísan til ákvæðis nr. XI í lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og ákvæði til bráðabirgða nr. XIII í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar samkvæmt 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnum ökutækjum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 11. janúar 2010, um synjun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreið með fastnúmer X sem flutt var úr landi þann 30. október 2009 með sendingu nr. E DET 30 10 9 IS REY W135, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum