Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2014

Tollflokkun á hönskum

23.6.2014

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, 19. mars sl., X kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 tollflokkun Tollstjóra á sex tegundum af hönskum sem sagðir eru öryggishanskar, sbr. sendingar með nánar tilgreindum sendinganúmerum í fylgiskjali 11 með kæru;

Ansell´s Micro-Touch SensiClean: powder-free natural rubber-latex non-sterile examination gloves

Ansell´s Micro-Touch Ultra: powder-free natural rubber-latex non-sterile examination gloves

Ansell´S Micro-touch Nitrile Accelerator-Free: powder-free nitrile accelerator- free non-sterile examination gloves

Ansell´s Dispose-a-glove: synthetic examination gloves

Frans Menasch´s Nitrile gloves: nitrile gloves powderfree Save light

Sängers Alfatex30 Nitril gloves

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun umræddra hanska í tollskrárnúmer 4015.1909 verði endurskoðuð og þeir þess í stað flokkaðir í tollskrárnúmer 4015.1901. Þá fer kærandi fram á að þau aðflutningsgjöld sem honum var gert að greiða vegna ætlaðrar rangrar tollflokkunar verði endurgreidd.

II. Málsmeðferð

Líkt og fram kemur í kæru flutti X ehf. inn til landsins sex mismunandi tegundir af hönskum á árunum 2008 til 2013, sbr. fylgiskjal nr. 11 með kæru. Alls var um að ræða 61 vörusendingu og þar sem hanskarnir í umræddum sendingum voru allir flokkaðir í tollskrárnúmer 4015.1909 báru þeir 15% toll við innflutning.

Kæra vegna ofangreindrar tollflokkunar Tollstjóra barst embættinu þann 19. mars 2014. Í kjölfarið óskaði Tollstjóri eftir sýnishornum af öllum tegundum hanskanna og í byrjun apríl bárust sýnishorn fjögurra tegunda. Með tölvupósti þann 8. apríl óskaði embættið eftir sýnishornum af þeim tveimur tegundum sem upp á vantaði, nánar tiltekið Frans Menasch´s Nitrile gloves og Sängers Alfatex30 Nitril gloves, og var það ítrekað með tölvupóstum þann 6., 13. og 20. maí sl. Þann 21. maí barst tölvupóstur frá lögmanni kæranda þar sem fram kom að kæranda væri ómögulegt að láta af hendi sýnishorn af þeim tveimur sýnishornum sem upp á vantaði þar sem hann væri ekki að flytja umrædda hanska inn lengur og hefði þá þar af leiðandi ekki undir höndum. Í kjölfarið, eða þann 26. maí, var lögmanni kæranda sendur tölvupóstur þess efnis að í ljósi þess að sýnishornin myndu ekki berast teldist gagnaöflun lokið af hálfu embættisins og málið yrði því tekið til úrskurðar.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að fyrrgreindar sendingar hafi verið rangt tollflokkaðar. Skilyrði séu fyrir hendi til að flokka vörurnar í tollskrárnúmer 4015.1901, sem tekur til öryggishanska sem viðurkenndir eru af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 frá 31. ágúst 1994 um gerð persónuhlífa. Í kæru sinni bendir kærandi á að þær vörur sem um ræðir uppfylli öll skilyrði sem Tollstjóri leiði af úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010 að undanskildu því að vera flokkaðar í Category III, skv. CE classification (verndarflokk 3) , sbr. þó Ansells´s Dispos-a-Glove sem uppfylli öll skilyrðin en hafi þrátt fyrir það verið flokkaður í tollskrárnúmer 4015.1909. Hins vegar er það mat kæranda að túlkun Tollstjóra sé röng og ekki eigi að koma að sök þó vörurnar séu ekki í verndarflokk 3. Nefnir hann tvær ástæður fyrir þessu. Í fyrsta lagi að sé tollskrárnúmer 4015.1901 með lýsandi heiti og geri einungis ráð fyrir því, skv. orðanna hljóðan, að varan sem um ræðir falli undir reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa og umræddar vörur falli þar undir. Í öðru lagi þá sé hvergi í fyrrgreindum reglum að finna greinarmun á verndarflokkum. Í því sambandi bendir kærandi á að reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa hafi verið settar með hliðsjón af tilskipun 89/686/EEC og byggist því á samevrópskum stöðlum. Kveður kærandi því ekki hægt að leiða túlkun Tollstjóra af sjálfum reglunum. Sú staðreynd að umræddir hanskar beri CE merkingu og séu flokkaðir í verndarflokk 1 og 3, skv. áðurnefndri tilskipun leiði það hins vegar af sér að þeir falli undir reglur nr. 501/1994 um gerð persónuhlífa og þar með undir tollskrárnúmer 4015.1901. Það að hanskarnir falli undir verndarflokk 1, þ.e. að um sé að ræða einfaldar persónuhlífar, valdi því ekki að þær falli utan gildissviðs reglnanna og þar með utan tollskrárnúmers 4015.1901.

Að lokum gerir kærandi þá kröfu að þau gjöld sem honum hafi verið gert að greiða og grundvallist af rangri tollflokkun af hálfu Tollstjóra verði endurgreidd auk vaxta og dráttarvaxta.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun á sex mismunandi tegundum af hönskum sem kærandi flutti inn á árunum 2008 – 2013, sbr. fylgiskjal 11 með kæru, þ.e. Ansell´s Micro- Touch SensiClean, Ansell´s Micro-Touch Ultra, Ansell´S Micro-touch Nitrile Accelerator- Free, Ansell´s Dispose-a-glove, Frans Menasch´s Nitrile gloves og Sängers Alfatex30 Nitril gloves. Embætti Tollstjóra hefur farið ítarlega yfir öll gögn málsins og m.a. fengið sýnishorn fjögurra tegunda, þ.e. allra tegunda að undanskildum Frans Menasch´s Nitrile gloves og Sängers Alfatex30 Nitril gloves sem kæranda var ómögulegt að útvega.

Hanskar flokkast í mismunandi kafla í tollskrá eftir því úr hvaða efni þeir eru gerðir. Þannig flokkast hanskar úr prjónaðri ull í kafla 62, hanskar úr plasti í kafla 39 og hanskar úr gúmmíi í kafla 40. Gúmmíhönskum er skipt í þrjá undirliði en þeir eru; hanskar til skurðlækninga, öryggishanskar og allir aðrir hanskar. Plasthönskum er ekki skipt upp í undirliði heldur eru þeir allir í sama tollskrárnúmeri. Allir hanskar ofangreindra sendinga eru úr gúmmíi utan einnar tegundar, þ.e. Ansell´s Dispose-a-glove sem er úr plasti, nánar tiltekið Etylene Vinyl Acetate Film og þegar af þeirri ástæðu getur umrædd tegund ekki flokkast í kafla 40 heldur ber að flokka hana í tollskrárnúmer 3926.2000. Gildir þar einu í hvaða verndarflokki umrædd tegund er. Kærandi telur að allar vörurnar sem um ræðir beri að flokka í tollskrárnúmer 4015.1901 – Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994. Því hafnar embættið og telur að plasthanskana beri að flokka í tollskrárnúmer 3926.2000, líkt og fyrr greinir, og gúmmíhanskana í tollskrárnúmer 4015.1909, sem aðra hanska en skurðstofu- eða öryggishanska.

Til þess að ákvarða hvort gúmmíhanskar umræddra sendinga geti talist öryggishanskar í tollskrárnúmer 4015.1901 – Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994, þarf að leggja mat á það hvort umræddir hanskar séu viðurkenndir af Vinnueftirlitinu samkvæmt fyrrgreindum reglum. Það er því ekki rétt sem fram kemur í kæru að tollskrárnúmer 4015.1901 sé með lýsandi heiti og einungis gert ráð fyrir því að varan sem um ræðir falli undir reglur nr. 501/1994 heldur er viðurkenning Vinnueftirlitsins einnig áskilin. Það er þó ljóst, líkt og fram kemur í úrskurði ríkistollanefndar nr. 13/2010 og minnisblaði Vinnueftirlits ríkisins í tengslum við úrlausn þess máls, að Vinnueftirlitið sjálft gefur ekki út formlega viðurkenningu á þeim vörum sem kunna að falla að reglum nr. 501/1994 enda hvorki í lögum né reglum um stofnunina mælt fyrir um slíkt. Hins vegar er það hlutverk stofnunarinnar að hafa eftirlit með vörunni á markaði og kanna hvort framleiðendur og/eða innflytjendur uppfylli þær skyldur sem á þeim hvíla samkvæmt reglunum þannig að varan uppfylli gerðar kröfur. Í fyrrgreindum úrskurði Ríkistollanefndar kemur þó einnig fram að líta megi svo á að það jafngildi viðurkenningu af hálfu Vinnueftirlitsins þegar hanskar, líkt og fjallað er um í máli því sem hér um ræðir, séu í verndarflokk 3, beri viðeigandi CE-merki, auk númers skoðunarstofu og viðeigandi táknmyndir svo lengi sem fyrir liggi vottanir viðurkenndra vottunarstofa í samræmi við reglur 501/1994 og ekki séu gerðar athugasemdir af hálfu Vinnueftirlitsins. Frá því að umræddur úrskurður Ríkistollanefndar lá fyrir hefur Tollstjóra metið það svo, með vísan í niðurstöðu hans, að til þess að gúmmíhanskar geti fallið undir tollskrárnúmer 4015.1901 þurfi fjögur skilyrði að vera uppfyllt, þ.e. að þeir séu flokkaðir í verndarflokk 3, beri CE merki um samræmi, sé vottaðir af viðurkenndri skoðunarstofu og beri viðeigandi táknmyndir á umbúðum sínum. Þeir gúmmíhanskar sem eru til skoðunar í þessu máli uppfylla öll þessara atriða að undanskildu því að vera flokkaðir í verndarflokk 3 en þeir falla allir undir verndarflokk 1.

Kærandi bendir réttilega á að hvergi sé að finna greinarmun á verndarflokkum í reglum 501/1994. Umræddar reglur eru hins vegar settar með hliðsjón af tilskipun 89/686/EEC um samræmingu laga aðildarríkjanna um persónuhlífar, líkt og kærandi nefnir í kæru, og með vísan til umræddrar tilskipunar hafa verið gefnar út svokallaðar „Personal Protective Equipment Guidelines“ en tilgangur þessara viðmiðunarreglna er m.a. að skýra ákveðin atriði tilskipunarinnar er varðar persónuhlífar. Byggir m.a. áðurnefnt minnisblað Vinnueftirlits ríkisins um grunnkröfur um markaðssetningu persónuhlífa sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum, á umræddum viðmiðunarreglum, þar á meðal umrædd skipting í þrjá verndarflokka. Líkt og fram kemur í fyrrgreindum úrskurði telur Ríkistollanefnd að þær forsendur og þau gögn sem lágu að baki þeirri ákvörðun að lækka m.a. tolla af öryggishönskum, sbr. auglýsing nr. 106/1995 um breytingu á viðauka I við þágildandi tollalög, m.a. með því að taka upp ný tollskrárnúmer, benda til þess að sú hugsun hafi búið að baki ákvörðuninni að svara kröfum um tollfrelsi hanska sem sannarlega væru ætlaðir til verndar gegn lífshættu eða alvarlegri hættu, sem notandi geti ekki gert sér grein fyrir í tíma. Þegar þetta er skoðað er ljóst að verndarflokkur 3 er eini þessara verndarflokka sem uppfyllir þær kröfur, sbr. minnisblað Vinnueftirlits ríkisins og kafla 1.2.1 í „Personal Protective Equipment Guidelines“. Verður úrskurður Ríkistollanefndar þar að leiðandi ekki skilinn öðruvísi en svo að skilyrði þess að hanskar falli í tollskrárnúmer 4015.1901 sé m.a. að þeir falli í verndarflokk 3. Segir enda skýrt í niðurstöðukafla úrskurðar Ríkistollanefndar að flokka beri „þá hanska, sem falla í flokk 3(Cat III) með viðeigandi CE-merkingu, númeri skoðunarstofu og viðeigandi táknmynd, í tnr. 4015.1901, sé um að hanska úr vúlkaníseruðu gúmmíi að ræða, þó ekki harðgúmmíi“.

Með vísan í ofangreint er það niðurstaða embættis Tollstjóra að þeir gúmmíhanskar sem hér um ræðir, þ.e. Ansell´s Micro-Touch SensiClean, Ansell´s Micro-Touch Ultra, Ansell´S Micro-touch Nitrile Accelerator-Free, Frans Menasch´s Nitrile gloves og Sängers Alfatex30 Nitril gloves geti ekki flokkast í tollskrárnúmer 4015.1901 – Öryggishanskar, viðurkenndir af Vinnueftirliti ríkisins samkvæmt reglum nr. 501 31. ágúst 1994 heldur skuli ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun umræddra hanska standa óbreytt og þeir flokkaðir í tollskrárnúmer 4015.1909, aðrir hanskar en skurðstofu- eða öryggishanskar, samkvæmt almennum túlkunarreglum 1 og 6 við tollskrá.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem sem að framan er rakið að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á Ansell´s Micro-Touch SensiClean, Ansell´s Micro-Touch Ultra, Ansell´S Micro-touch Nitrile Accelerator-Free, Frans Menasch´s Nitrile gloves og Sängers Alfatex30 Nitril gloves skuli staðfest.

Hinsvegar úrskurðar embætti Tollstjóra skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem að framan er rakið að tollflokkun á Ansell´s Dispose-a-glove skuli breytt á þann veg að hanskarnir skuli færðir undir tollskrárnúmer 3926.2000.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum