Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2017

Afturköllun niðurfellingar vörugjalds

27.4.2017

Reifun

Kærð var til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 4. október 2016 um afturköllun niðurfellingar vörugjalds af 23 bifreiðum.

Niðurstaða: Ákvæði um lækkun vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum var sett til bráðabirgða í lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með breytingalögum nr. 125/2015. Í bráðabirgðaákvæði XVI er fjallað um lækkun vörugjalds af bílaleigubílum. Í 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum kemur fram að lækkun vörugjalds til bílaleigu er háð því að skilyrði að næstu 15 mánuði eftir nýskráningu bifreiðar verði nýting hennar og starfsemi bílaleigu hagað á þann hátt sem tilgreint er í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Meðal skilyrða sem þar eru talin upp er að bifreið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins (nú Innanríkisráðuneytisins) til reksturs bílaleigu eða á eignaleigu vegna eignaleigusamnings við bílaleigu sem hefur slíkt leyfi, sbr. 1. tl. ákvæðisins. Um brot gegn skilyrðum fyrir lækkun eða niðurfellingu vörugjalds skv. 14. gr. fer eftir 20. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að brjóti aðili, sem nýtur lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds gegn skilyrðum sem sett eru í ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl. skal hann greiða ógreitt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar.

Umræddar bifreiðar voru allar skráðar á fjármögnunarfyrirtæki og aðalumráðamaður var annar aðili en kærandi. Gagnaöflun leiddi í ljós að kærandi var með rekstrarleigusamning við aðalumráðamann bifreiðanna og taldi Tollstjóri á þeim grundvelli ekki rétt staðið að eigendaskráningu á bifreiðunum líkt og gert er skilyrt í 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Var því hin kærða ákvörðun staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 1. desember 2016, hefur A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 4. október 2016 um afturköllun niðurfellingar vörugjalds af 23 bifreiðum.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um afturköllun á niðurfellingu vörugjalda vegna bifreiðanna verði hnekkt.

II. Málsmeðferð

Þann 12. maí 2015 voru umræddar 23 bifreiðar tollafgreiddar en sendingarnúmer ásamt fastanúmeri bifreiðanna eru eftirfarandi; X

Umsóknir dags. 7. og 8. maí sama ár, um lækkun vörugjalds voru samþykktar og fengu bifreiðarnar tollafgreiðslu á lækkuðu vörugjaldi. Gengið var frá yfirlýsingu samhliða tollafgreiðslu bifreiðanna, þar sem fram kom að kærandi skuldbindi sig til að uppfylla öll skilyrði sem sett eru fyrir niðurfellingu vörugjalds skv. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, að öðrum kosti skuli gengið frá greiðslu ógreidds vörugjalds, sbr.

20. gr. reglugerðarinnar. Tímabundnar kvaðir voru settar á bifreiðarnar sem giltu í 15 mánuði frá nýskráningu.

Við hefðbundið eftirlit Tollstjóra með skráningu bílaleigubifreiða, sem í þessu máli átti sér stað í júnímánuði 2015, kom í ljós að umræddar bifreiðar voru ekki skráðar á nafn kæranda líkt og skilyrði er fyrir svo heimilt sé að fella niður vörugjald. Í kjölfarið var kæranda sent bréf dags. 26. júní 2015, þess efnis að tilgreindar bifreiðar hafi ekki verið skráðar á leyfishafa eða eignaleigu. Meðfylgjandi var listi yfir þau ökutæki sem um var að ræða og fór Tollstjóri fram á að skráning bifreiðanna í ökutækjaskrá Samgöngustofu yrði lagfærð til samræmis við umsókn fyrir niðurfellingu vörugjalds, að öðrum kosti yrði vörugjald innheimt að fullu. Ekki barst svar frá kæranda við umræddu bréfi og lagði Tollstjóri á vörugjöldin þann 30. og 31. desember 2015.

Þann 4. október 2016 send kærandi Tollstjóra tölvupóst þar sem óskað var eftir skýringum á afturköllun eftirgefins vörugjalds af tilgreindum bílaleigubílum. Kæranda var svarað samdægurs að afturköllun vörugjalds væri til komin vegna þess að bifreiðarnar væru ekki skráðar á leyfishafa og voru aðila gefnar leiðbeiningar um kæruleið vegna ákvörðunar skv. 117. gr. tollalaga.

Ákvörðun Tollstjóra um afturköllun vörugjalds af téðum bílaleigubifreiðum var kærð þann 1. desember 2016. Var kæran tekinn til meðferðar þrátt fyrir að kærufrestur ætti í raun að vera liðinn, þar sem kæruleiðbeiningum var ábótavant við upphaflega ákvörðunartöku um álagningu vörugjalds. Þann 31. janúar 2017 óskaði Tollstjóri eftir frekari gögnum um málið. Tilskildum gögnum var skilað til Tollstjóra með tölvupósti þann 15. febrúar sama ár.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að skilyrðum til að fella niður vörugjöld af umræddum bifreiðum sé fullnægt, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, sbr. 6. gr. laga nr. 65/2015 um ökutækjaleigur, og kærandi eigi því með réttu að njóta niðurfellingar.

Samkvæmt 6. gr. laga um ökutækjaleigur verður ökutækjaleiga að vera skráður eigandi skráningarskylds ökutækis eða skráður fyrsti umráðamaður/aðalumráðamaður samkvæmt samningi við löggilt lánafyrirtæki. Telur kærandi að hann hefði með réttu átt að vera skráður sem aðalumráðamaður umræddra bifreiða en vegna handvammar innflytjanda hafi kærandi fyrir mistök verið skráður sem umráðamaður 2. Eigandi bifreiðanna sé í öllum tilvikum E.

Þá byggir kærandi á því að 14. gr. reglugerðar 331/2000 séu einnig uppfyllt. Ákvæðið kveði á um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds. Samkvæmt 1. tl. 2. mgr. ákvæðisins skal bifreið vera skráð á bílaleigu, sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins til rekstur bílaleigu, eða á eignaleigu vegna eignaleigusamnings við bílaleigu sem hefur slíkt leyfi. Kærandi byggir á því að hann hafi slíkt leyfi. Þá kveðst kærandi vera aðalumráðamaður bifreiðanna og að umráðamaður 2 sé Létt- flotastjórnun ehf. Gerð hafi verið mistök við skráningu af hálfu innflytjanda og aðalumráðamanni og umráðamanni 2 víxlað. Því til staðfestingar vísar kærandi til yfirlýsingar frá innflytjanda, H., sbr. fylgiskjal 7 með kæru.

Telur kærandi sig hafa sýnt fram á og lagt fram gögn til staðfestingar hinni röngu skráningu, og vísar til fylgiskjals 6 með kæru sem er útprent úr ökutækjaskrá. Þá vísar kærandi til þess að Hekla hf. hafi áður haft milligöngu um innflutning bifreiða vegna sömu fyrirtækja og þar rétt verið staðið að skráningu og vörugjöld með réttu felld niður, sbr. fylgiskjal 8 með kæru.

Kærandi telur það einsýnt að hnekkja beri ákvörðun Tollstjóra, þar sem skilyrðum 14. gr. áðurnefndrar reglugerðar sé fullnægt og kærandi eigi með réttu að njóta niðurfellingar á vörugjöldum umræddra bifreiða.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að ákvörðun Tollstjóra um afturköllun lækkunar vörugjalds á 23 bílaleigubifreiðum sem áður höfðu hlotið lækkun á vörugjaldi við tollafgreiðslu. Ákveðin skilyrði, sem nánar verður vikið að hér á eftir, þurfa að vera uppfyllt svo að lækkun vörugjalds sé heimil. Tollstjóri taldi skilyrðum varðandi eigendaskráningu bifreiðanna ekki fullnægt og var lækkun vörugjaldanna afturkölluð og þau innheimt að fullu.

Framkvæmd lækkunar vörugjalds af bílaleigubifreiðum er á þá leið að aðili sækir um slíkt til Tollstjóra sem tekur ákvörðun um veitingu lækkunar. Umsækjandi undirritar yfirlýsingu þar sem fram kemur að hann skuldbindi sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru í ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl., eða greiða ella ógreitt vörugjald. Einnig staðfestir umsækjandi vitneskju þess efnis að lögveð sé í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi. Sé skráður eigandi ökutækis eignaleiga skal hún jafnframt staðfesta vitneskju um fyrrgreint skilyrði og lögveð vegna vangoldins vörugjalds ef skilyrði eru ekki uppfyllt.

Ákvæði um lækkun vörugjalds af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum var sett til bráðabirgða í lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með breytingalögum nr. 125/2015. Í bráðabirgðaákvæði XVI er fjallað um lækkun vörugjalds af bílaleigubílum. Í 4. mgr. ákvæðisins er svo heimild til handa ráðherra að setja í reglugerð nánari reglur og skilyrði um þær bifreiðar sem njóta undanþágunnar, svo sem um notkun og búnað ökutækis, svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. laganna annars vegar og 1. mgr. ákvæðisins hins vegar, ef skilyrði eru ekki uppfyllt.

Í 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum er fjallað um lækkun eða niðurfellingu vörugjalds af bílaleigubifreiðum. Þar kemur fram að lækkun vörugjalds til bílaleigu er háð því að skilyrði að næstu 15 mánuði eftir nýskráningu bifreiðar verði nýting hennar og starfsemi bílaleigu hagað á þann hátt sem tilgreint er í 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Meðal skilyrða sem þar eru talin upp er að bifreið skal skráð á bílaleigu sem hefur leyfi samgönguráðuneytisins (nú Innanríkisráðuneytisins) til reksturs bílaleigu eða á eignaleigu vegna eignaleigusamnings við bílaleigu sem hefur slíkt leyfi, sbr. 1. tl. ákvæðisins. Um brot gegn skilyrðum fyrir lækkun eða niðurfellingu vörugjalds skv. 14. gr. fer eftir 20. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að brjóti aðili, sem nýtur lækkunar eða niðurfellingar vörugjalds gegn skilyrðum sem sett eru í ákvæðum um nýtingu ökutækis o.fl. skal hann greiða ógreitt vörugjald, þ.e. mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar.

Eigendaskráning umræddra bifreiða er þannig háttað að E er skráður eigandi og L aðalumráðamaður. Kærandi er svo skráður sem umráðamaður 2. Líkt og fram hefur komið er eitt skilyrða fyrir niðurfellingu vörugjalds það að bifreið skuli skráð á viðkomandi bílaleigu eða á eignaleigu vegna eignaleigusamnings við viðkomandi bílaleigu. Tollstjóri óskaði eftir því við kæranda að hann sýndi fram á að eignaleigusamningur væri milli eignaleigunnar og kæranda. Þeir samningar sem bárust Tollstjóra sýndu kaupleigusamning milli L og E, en aftur á móti rekstrarleigusamning milli L og kæranda, þar sem L er skráður sem leigusali og kærandi leigutaki. Telur Tollstjóri þetta sýna fram á að skráning bifreiðanna hafi ekki verið með röngu móti, líkt og kærandi heldur fram. Þrátt fyrir að skráning hefði verið með þeim hætti að kærandi hefði verið skráður aðalumráðamaður, þá er ekki fyrir að finna eignaleigusamning milli kæranda og eignaleigunnar sem skráður er eigandi bifreiðanna, sem er E í þessu máli. Skilyrði fyrir eigendaskráningu skv. 1. tl. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 er því ekki uppfyllt og staðfestir því Tollstjóri ákvörðun dags. 4. október 2016 um afturköllun á eftirgefnu vörugjaldi af tilgreindum 23 bílaleigubifreiðum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um afturköllun niðurfellingar vörugjalds af tilgreindum 23 bílaleigubifreiðum, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum