Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2019

Aðflutningsgjöld og tollflokkun á fæðubótarefni

5.6.2019

Í máli þessu var deilt um tollflokkun og gjaldskyldu á fæðubótarefni sem gert er úr kaffi, tvenns konar amínósýrum, koffíni, kólíni, grænu tei, steinefni auk efnasambandanna DMHA og PEA sem eiga að hafa heilsufarslegan ávinning. Varan er í duftformi og neytandi blandar henni í heitt vatn til að gera tilbúinn drykk sem bragðast eins og kaffi. Hin kærða ákvörðun Tollstjóra kvað á um að varan skyldi flokkast í tollskrárnúmer 2106.9020, sem „tilreidd drykkjarvöruefni sem innihalda prótein og/eða önnur næringarefni, einnig vítamín, steinefni, jurtatrefjar, fjölómettaðar fitusýrur og bragðefni og innihalda minna en 50% af mjólkurafurðum,“ en kærandi taldi vöruna eiga að vera í tollskrárnúmeri 2106.9066, fæðubótarefni, ótalin annars staðar í tollskrá. 

Þrátt fyrir mótbárur kæranda þess efnis að varan innihéldi hvorki vítamín né næringarefni taldi Tollstjóri ljóst vera að varan innihéldi næringarefni enda væri varan gerð úr kaffibaunum og inniheldur m.a. kólín og steinefni. Að mati Tollstjóra var vöru kæranda því réttilega lýst í tollskrárnúmeri 2106.9020 enda væri varan tilreitt drykkjarvöruefni sem innihéldi næringarefni og minna en 50% af mjólkurafurðum. Þar sem vörunni væri lýst nákvæmlega í tollskrárnúmeri 2106.9020 þyrfti ekki að líta til safnákvæðis tollskrárnúmers 2106.9066 enda væri það númer fyrir vörur sem væru ótaldar annars staðar í tollskrá. 

Að ofangreindu virtu var ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun og gjaldskyldu staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R 

I. Kæra 

Með tölvupósti dags. 17. júlí 2019, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 12. júlí 2019, um tollflokkun og gjaldskyldu á sendingu, með viðtökunúmerið X, sem innihélt fæðubótarefni. 

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun verði hnekkt og að 20% tollur sem reiknaður var á vöruna verði felldur niður. 

II. Málsmeðferð 

Þann 9. júlí 2019 kom sending með viðtökunúmerið X til landsins en kærandi hafði deginum áður sent reikning til Tollstjóra til að ljúka tollafgreiðslu. Sendingin innihélt fæðubótarefni af gerðinni Valentus Slim Roast Optimum Coffee. Þann 10. júlí 2019 fékk kærandi tilkynningu um að varan væri tilbúin til afgreiðslu og mætti hún samdægurs á pósthús til að fá vöruna afhenta. Þar fékk kærandi þær upplýsingar að greiða þyrfti 20% toll af vörunni. Kærandi mótmælti gjaldskyldu og bað um að tollflokkun yrði endurskoðuð því að mati kæranda ætti varan ekki að bera toll. Þann 12. júlí var kæranda tilkynnt að tollflokkun vörunnar yrði ekki breytt og að greiða bæri 20% toll af sendingunni. Kæranda voru gefnar kæruleiðbeiningar og með tölvupósti, dags. 17. júlí 2019, var ákvörðun um tollflokkun og gjaldskyldu vegna sendingar með viðtökunúmerið X kærð til Tollstjóra. 

Með tölvupósti, dags. 17. júlí 2019, óskaði Tollstjóri eftir upplýsingum frá kæranda um vöruna og innihaldsefni hennar og bárust svör frá kæranda samdægurs. Þann 30. júlí 2019 óskaði Tollstjóri eftir nánari rökstuðningi frá kæranda fyrir kröfu sinni og upplýsingum um hvaða tollskrárnúmer kærandi teldi vera réttan fyrir vöru sína. Svar barst frá kæranda þann 3. ágúst 2019 þar sem fram kom að kærandi teldi að flokka bæri vöruna í tollskrárnúmer 2106.9099 vegna þess að engin næringarefni eða vítamín væru í vörunni. 

III. Meginröksemdir kæranda 

 Kærandi er ósáttur við tollflokkun og gjaldskyldu á vöru sinni og telur að fæðubótarefni sem innihaldi ekki prótein skuli ekki bera toll. Þá byggir kærandi á því að engin næringarefni eða vítamín séu í duftinu og tekur fram að blandan í kaffinu komi ekki í stað matar. Í ljósi þess að vara kæranda inniheldur ekki prótín, vítamín eða næringarefni fer kærandi fram á að varan flokkist sem önnur fæðubótarefni sem bera engan toll í tollskrárnúmeri 2106.9066. 

IV. Niðurstaða 

Í máli þessu er deilt um tollflokkun og gjaldskyldu á Valentus Slim Roast Optimum Coffee. Varan er fæðubótarefni sem gert er úr kaffi, tvenns konar amínósýrum, koffíni, kólíni, grænu tei, steinefni auk efnasambandanna DMHA og PEA sem eiga að hafa heilsufarslegan ávinning. Varan er í duftformi og neytandi blandar henni í heitt vatn til að gera tilbúinn drykk sem bragðast eins og kaffi. Hin kærða ákvörðun Tollstjóra kvað á um að varan skyldi flokkast í tollskrárnúmer 2106.9020 en kærandi telur vöruna eiga að vera í tollskrárnúmeri 2106.9066. Taka ber fram að komið hefur í ljós að efnasambandið PEA er ólöglegt hér á landi og því er nú óheimilt að flytja vöru kæranda til landsins. Þrátt fyrir þá staðreynd verður að leysa úr því hvort varan hafi verið rétt tollflokkuð þegar kærandi fékk hana afhenta. 

Í 1. gr. almennra reglna um túlkun tollskrárinnar, sem lögfestar voru sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Samkvæmt 6. gr. almennra reglna um túlkun tollskrárinnar skal flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verða bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi. 

Óumdeilt er að vara kæranda skal flokkast skv. túlkunarreglu 1 í vörulið 2106 sem matvæli, ótalin annars staðar. Kemur þá til skoðunar hvort varan skuli vera í tollskrárnúmeri 2106.9020 eða 2106.9066 með hliðsjón af túlkunarreglu 6. Undirliður 2106.90 í tollskrá er fyrir önnur matvæli, ótalin annars staðar, en próteinseyði og textúruð próteinefni. Undirliðurinn skiptist í fimmtán jafnsetta undir- og skiptiliði í næstefsta lagi (aðgreindir með tveimur þankastrikum) og er deilan í máli þessu um í hvern af þessum fimmtán jafnsettu undir- og skiptiliðum varan skuli flokkast. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Tollstjóra var varan flokkuð sem efni til framleiðslu á drykkjarvörum en kærandi telur vöruna vera fæðubótarefni, ótalin annars staðar. Skiptiliðurinn 2106.9066 sem ber heitið fæðubótarefni, ótalin annars staðar, er eins og nafnið gefur til kynna safnákvæði fyrir þau fæðubótarefni sem ekki er að finna annars staðar í tollskrá. Undirliður sem ber heitið efni til framleiðslu á drykkjarvörum skiptist í ellefu jafnsetta skiptiliði og í ákvörðun Tollstjóra var Valentus Slim Roast Optimum Coffee flokkuð í skiptilið 2106.9020 sem „tilreidd drykkjarvöruefni sem innihalda prótein og/eða önnur næringarefni, einnig vítamín, steinefni, jurtatrefjar, fjölómettaðar fitusýrur og bragðefni og innihalda minna en 50% af mjólkurafurðum.“ 

Þrátt fyrir mótbárur kæranda þess efnis að varan innhaldi hvorki vítamín né næringarefni telur Tollstjóri ljóst vera að varan innihaldi næringarefni enda er varan gerð úr kaffibaunum og inniheldur m.a. kólín og steinefni. Að mati Tollstjóra er vöru kæranda því réttilega lýst í tollskrárnúmeri 2106.9020 enda er varan tilreitt drykkjarvöruefni sem inniheldur næringarefni og minna en 50% af mjólkurafurðum. Þar sem vörunni er lýst nákvæmlega í tollskrárnúmeri 2106.9020 þarf ekki að líta til safnákvæðis tollskrárnúmers 2106.9066 enda er það númer fyrir vörur sem eru ótaldar annars staðar í tollskrá. 

Að ofangreindu virtu og með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6 við tollskrá ber að flokka Valentus Slim Roast Optimum Coffee í tollskrárnúmer 2106.9020 en vörur í því tollskrárnúmeri bera 20% almennan toll auk 11% virðisaukaskatts. 

ÚRSKURÐARORР

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 12. júlí 2019, um tollflokkun og gjaldskyldu á sendingu, með viðtökunúmerið X, er staðfest. 3

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum