Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2004

Gjald af eftirlitsskyldum rafföngum

11.2.2004

Með tölvupósti frá 17. nóvember 2003 barst embætti tollstjórans í Reykjavík erindi kæranda varðandi undanþágu aðflutningagjalda vegna B tæknibúnaðar. Lítur embættið svo á að með bréfi kæranda sé verið að kæra ákvörðun embættisins frá 10. nóvember 2003. Í bréfi kæranda er farið fram á að gjald af eftirlitsskyldum rafföngum í sendingunni A yrði fellt niður. Embættið hefur leitað eftir umsögn Löggildingarstofu varðandi mál þetta en hún fer með eftirlit með rafföngum þeim sem hér um ræðir. Umsögn Löggildingarstofu barst með bréfi dags. 28. janúar 2004.

Málavextir eru á þann veg að þann 20. júní 2000 gaf fjármálaráðuneytið út yfirlýsingu þess efnis að B tæknibúnaður sem fluttur væri til Íslands skyldi undanþegin aðflutningsgjöldum og vísaði þar til fjárlaga og tollalaga. Samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins voru aðflutningsgjöld, þ. á m. gjald af eftirlitsskyldum rafföngum, felld niður við innflutning umrædds tæknibúnaðar.

Með tilkomu reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum breyttist framangreind framkvæmd. Yfirlýsing fjármálaráðuneytisins frá 20. júní 2000 féll úr gildi og aðflutningsgjöld umrædds tæknibúnaðar hafa verið felld niður á grundvelli reglugerðar nr. 797/200. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir að með aðflutningsgjöldum í reglugerðinni sé átt við tolla svo og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru, þ.m.t. virðisaukaskatt. Við tollafgreiðslu framangreindrar sendingar voru aðflutningsgjöld felld niður að undanskyldu gjaldi af eftirlitsskyldum rafföngum. Innflytjandi telur að einnig beri að fella niður gjald af eftirlitsskyldum rafföngum.

Í 14. gr. laga nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga er að finna sérreglur um gjaldtöku sem leggja skattskyldu t.d. á rafveitur, innflytjendur og innlenda framleiðendur raffanga vegna yfireftirlits Löggildingarstofu með rafmagnsöryggismálum og eftirlits með rafföngum á markaði. Í 5. tl. 14. gr. framangreindra laga er að finna ákvæði sem gildir um gjaldtöku af tollverði eftirlitsskyldra raffanga sem flutt eru til landsins. Í því segir að vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og eftirlits með rafföngum á markaði sem stofnunin lætur framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða til stofnunarinnar eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru. Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem seld eru úr landi.

Nánar er kveðið á um framkvæmd þessa í lið 1.9.2. reglugerðar nr. 285/1998 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum. Þar kemur fram að vegna yfireftirlits Löggildingarstofu og vegna eftirlits með rafföngum á markaði sem stofnunin lætur faggiltar skoðunarstofur framkvæma í umboði sínu skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða gjald til stofnunarinnar. Gjaldið skal vera 0,15% af tollverði innfluttrar vöru, eða af verksmiðjuverði innlendrar vöru. Undanþegin gjaldtöku þessari eru rafföng sem seld eru úr landi. Tollstjórar annast innheimtu þessa gjalds fyrir hönd Löggildingarstofu. Gjaldskyldan nær til allra raffanga sem flutt eru til landsins eða framleidd eru hér á landi og flokkast undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í viðauka 3 við reglugerðina. Rafföng sem seld eru úr landi eru þó ekki gjaldskyld.

Í ljósi framangreinds telur embættið að hvorki í lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga eða í reglugerð nr. 285/1998 um breytingu á reglugerð nr. 264/1971 um raforkuvirki, með áorðnum breytingum, sé að finna ákvæði sem heimili undanþágu frá gjaldi af eftirlitsskyldum rafföngum við innflutning til landsins. Embættið bendir einnig á að ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum getur ekki gengið framar skýrum ákvæðum laga nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga. Embættið telur því ekki heimilt að fella niður gjald af eftirlitsskyldum rafföngum af sendingunni A.

Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla máls þessa hefur dregist.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun embættisins um að ekki beri að fella niður gjald af eftirlitsskyldum rafföngum af sendingunni A, standi óbreytt.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 11. febrúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum