Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2009

Álagning aðflutningsgjalda á póstsendingu sem sögð var vera gjöf

13.2.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti sem barst embættinu þann 11. febrúar 2009, hefur S, f.h. Þ, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 30 01 9 IS B02 3024. Um var að ræða póstsendingu frá fyrirtækinu Z í Bandaríkjunum.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar verði felld niður á grundvelli þess að um gjöf hafi verið að ræða.

II. Málsmeðferð

Í janúar 2009 pantaði kærandi vörur frá fyrirtækinu Z í Bandaríkjunum. Samkvæmt vörureikningi, sem fylgdi pakkanum, voru pantaðar vörur fyrir $ 109.91, en heildarupphæð reikningsins var $ 139.91, af því leiðir að flutningskostnaður að upphæð $ 30.00 hafi verið hluti af heildarverði. Á reikningnum kemur einnig fram að greitt hafi verið með „Z gift card“ eða gjafabréfi og einnig var greitt með visakorti með endanúmerið XXXX. Aðflutningsgjöld fyrir sendinguna voru ákvörðuð miðað við fyrirliggjandi vörureikning.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um hafi verið að ræða gjöf frá fjölskyldumeðlimi hennar, sem sé búsettur í Bandaríkjunum og sé eigandi fyrirtækisins Z. Hann hafi gefið henni gjafabréfið í jólagjöf og hún hafi svo valið fatnað af netinu og fengið þau send til Íslands.

Kærandi telur að gjöld eigi ekki að leggja á sendinguna, þar sem um sé að ræða vörur sem greitt hafi verið fyrir með gjafabréfi sem hún fékk í jólagjöf og því sé um gjöf að ræða.

Kærandi óskar eftir því að tollar og gjöld af sendingunni verði felld niður þar sem um hafi verið að ræða jólagjöf.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Skv. 1. mgr. 14. gr. tollalaga er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins. Því ber að fara eftir viðskiptareikningi þegar aðflutningsgjöld sendingar eru ákvörðuð. Á reikningi frá fyrirtækinu Z sem fylgdi sendingunni kemur fram að heildarverð vörunnar sem pöntuð var sé $ 139.91. Flutningskostnaður að upphæð $ 30.00 virðist þar vera innifalinn, þar sem samanlagt verð einstakra flíka sem fram kemur á reikningnum eru $ 109.91. Á reikningnum kemur einnig fram að greitt hafi verið með gjafabréfi eða „Zumiez gift card“ og með visakorti með endanúmerið XXXX. Viðskiptaverð sendingarinnar, sem liggur til grundvallar útreikningi og álagningar aðflutningsgjalda, er heildarverð hennar, óháð því hvernig greiðslu var háttað. Því var heildarupphæð vörureiknings með réttu lögð til grundvallar upphæðar og álagningar aðflutningsgjalda, þar sem engin heimild er í lögum til að gera greinarmun á því hvernig greitt er fyrir vörur sem fluttar eru inn til landsins.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu, þegar um gjafir er að ræða. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þarf að uppfylla þau skilyrði sem kveðið er á um í áðurnefndum greinum. Meðal annars skal vera um að ræða tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 10.000,00 kr. Samkvæmt skilyrðum þessara lagaákvæða þarf því að vera um gjöf að ræða sem aðili, sem er búsettur erlendis sendir til landsins. Hér er hins vegar um að ræða sendingu vöru frá fyrirtæki erlendis. Sendingar frá fyrirtækjum falla ekki undir ofangreind ákvæði. Þar fyrir utan fylgir sendingunni hefðbundinn vörureikningur þar sem hvergi kemur fram að um gjöf sé að ræða. Rétt er að fram kemur að greitt hafi verið fyrir vöruna að hluta með gjafabréfi, en þar er einvörðungu um að ræða greiðslumáta. Þrátt fyrir að gjafakortið sjálft hafi verið gjöf þá hefur það sama gildi og peningar, greiðslukort eða annar greiðslumáti sem notaður er til að greiða fyrir vöru. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að um sé að ræða gjöf frá fyrirtækinu. Þvert á móti virðist sem fyrirtækið reikni $ 30.00 fyrir sendingarkostnað. Þar af leiðandi uppfyllast hér ekki skilyrði til undanþágu frá almennri tollskyldu skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu nr. P 150 30 01 9 IS B02 3024 er staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum