Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 5/2013

Innheimta eftirgefins vörugjalds af leigubifreið

6.6.2013

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 26. apríl 2013 og móttekið 7. maí 2013, hefur K, f.h. D, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti, o.fl. nr. 29/1993, ákvörðun Tollstjóra frá 9. apríl 2013 um álagningu eftirgefins vörugjalds á leigubifreið með fastanúmer X.

Kærandi krefst þess ákvörðun Tollstjóra verði felld úr gildi og aflétt verði breytingalás af fyrrgreindri bifreið.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi undirritaði þann 29. mars 2011 yfirlýsingu þar sem hann skuldbatt sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru um nýtingu leigubifreiða, m.a. um lágmarkstekjur af leigubifreiðaakstri og skyldu til að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu, sbr. í 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Þann 26. mars sl. sótti kærandi, sem stundar leigubílaakstur, um að aflétt yrði breytingalás vegna lækkunar vörugjalds af leigubifreið með fastnúmer X samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., vegna endurnýjunar á bifreiðinni. Kærandi hafði þann 22. mars sl. framvísað endurriti af skattskýrslu næsta heila almanaksárs eftir að eftirgjöf var veitt, þ.e. fyrir tekjuárið 2012, en á henni var stimpill skattstjóra um að prófun álagningar hefði ekki farið fram. Embætti Tollstjóra tók hins vegar þá ákvörðun, dags. 9. apríl 2013, að kæranda bæri að greiða eftirgefið vörugjald samkvæmt 20. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Ákvörðunin var byggð á því að ekki væri hægt að líta svo á að um staðfest endurrit skattframtals væri að ræða þar sem endanleg álagning frá skattstjóra lægi ekki fyrir og enn gætu orðið breytingar á þeim upplýsingum sem kæmu fram á skattaskýrslu kæranda. Var því ekki talið að skilyrði 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um eftirgjöf vörugjalds væru uppfyllt. Var kæranda þó bent á þann möguleika að leggja inn til embættis Tollstjóra staðfest endurrit skattskýrslu 2013 fyrir tekjuárið 2012 að lokinni álagningu. Kæra á ákvörðun Tollstjóra barst með bréfi, dags. 26. apríl 2013, sem móttekið var þann 7. maí 2013.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur sig þegar hafa uppfyllt skilyrði 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um eftirgjöf vörugjalds. Í kæru kemur fram að kærandi telji sig hafa reiknað sér endurgjald og talið fram í áskilnað við lög og reglugerð. Tollstjóri hafi byggt ákvörðun sína um að synja kæranda um afléttingu breytingaláss af leigubifreið með fastnúmer X á því að framtal hafi ekki verið yfirfarið vegna álagningar og þar af leiðandi geti hann ekki fengið erindi sitt afgreitt fyrr en í ágúst. Kæranda hafi verið boðið að greiða upp eftirgjöfina og eignast kröfu um endurgreiðslu þegar álagningu væri lokið. Kveður kærandi ekki ráðið hvar í lögum slíkan áskilnað sé að finna og hvaða heimildum embættið byggi þessa nýju starfsreglu á. Segir kærandi að eina tilvísunin til skattframtals sé að finna í reglugerð 331/2001 og þess skuli getið að staðfest endurrit skattskýrslu sé endurrit sem framtalsskyldur aðili hefur skilað skattstjóra, og er áritað um móttöku ríkisskattstjóra. Prófun skattskýrslna fari hins vegar fram síðar auk þess sem heimildir séu í lögum að breytingar og leiðréttingar séu unnar á skattskýrslu allt að sex árum eftir skil hennar. Kveðst kærandi hafa staðið skil á skilagreinum og reiknað sér endurgjald í samræmi við lög um tekjuskatt nr. 90/2003. Hann uppfylli því sannanlega skilyrði eftirgjafarinnar sem koma fram í lögum um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þá bendir kærandi á hann telji þessa starfsreglu embættis Tollstjóra ganga lengra en ákvæði um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og reglugerð nr. 331/2000 heimili og hún valdi ennfremur ójafnræði meðal rétthafa eftir því hvenær árs þeir festa kaup á leigubifreiðum sínum. Að lokum bendir kærandi á að fyrrgreind reglugerð takmarki heimildir rétthafa við eina leigubifreið og því skapi það kæranda fjártjón að geta ekki endurnýjað bifreið sína fyrr en eftir að álagningu lýkur í ágúst 2013 þar sem endursöluverð bifreiðarinnar lækki í hverjum mánuði.

IV. Niðurstöður

Í 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Samkvæmt 3. gr. laganna skal vörugjald lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., eftir gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum. Á leigubifreiðar til fólksflutninga skal lagt á vörugjald samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Þá eru skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreið að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Kveðið er á um frekari skilyrði fyrir lækkuninni í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993. Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar er m.a. háð því skilyrði samkvæmt ákvæðum 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að auki ber rétthafa, að tveimur árum liðnum frá eftirgjöf, að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksárs eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum rétthafa.

Líkt og fram kemur í hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. apríl 2013, var skattframtal kæranda fyrir tekjuárið 2012 með stimpil skattstjóra um að prófun álagningar hefði ekki farið fram ekki talið fullnægjandi til að sýna fram á að kærandi hafi uppfyllt skilyrði um lágmarkstekjur í samræmi við ákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, enda ljóst að endanleg álagning liggur ekki fyrir fyrr en í ágúst á hverju ári. Af þeim sökum verður ekki hægt að líta svo á að fyrirliggjandi skattframtal kæranda geti talist staðfest endurrit skattaskýrslu enda ljóst að hún hefur hvorki verið staðfest af skattstjóra, nema með fyrirvara, auk þess sem breytingar geta enn orðið á þeim upplýsingum sem þar koma fram. Kæranda var sérstaklega bent á þann möguleika að greiða lækkað vörugjald og fara fram á endurupptöku málsins að lokinni álagningu skattyfirvalda, en vegna skýrra ákvæða laga og reglugerða er þá fyrst hægt að sýna sannanlega fram á að skilyrði um lágmarkstekjur hafi verið uppfyllt. Líkt og áður hefur komið fram eru ofangreind ákvæði undanþága frá skattskyldu sem m.a. er bundið því skilyrði að ákveðin upphæð sé talin fram til skatts næsta heila tekjuár eftir að eftirgjöf er veitt. Þar af leiðandi þarf að liggja fyrir skýr sönnun þess efnis að umrætt skilyrði sé uppfyllt og verður ekki séð að það náist nema með skilum á staðfestri skattskýrslu þar sem álagning liggur fyrir. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Með vísan til þess sem ofan greinir og rótgróinnar stjórnsýsluframkvæmdar er það mat embættis Tollstjóra kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um eftirgjöf af vörugjaldi af leigubifreið með fastnúmer X. Ákvörðun Tollstjóra, dags. 9. apríl 2013 er því staðfest. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun um greiðslu eftirgefins vörugjalds af leigubifreið með fastnúmer X, dags. 9. apríl 2013, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum