Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2006

Innheimtu eftirgefins vörugjalds af bifreið

2.10.2006

I

Málavextir eru þeir að þann 25. mars 2003 var af þinni hálfu undirrituð yfirlýsing vegna eftirgefins vörugjalds af leigubifreið með fastanúmer J. Þegar kvaðbinding bifreiðarinnar rann út, þremur árum seinna, sendi embætti tollstjórans í Reykjavík þér bréf, dags. 10. apríl 2006, þar sem óskað var eftir staðfestu endurriti af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt, þ.e.a.s. skattskýrslur fyrir gjaldaárin 2004 og 2005. Embættið hefur móttekið skattskýrslur fyrir gjaldaárin 2003-2005.

Embættið sendi þér annað bréf, dags. 6. júní 2006. Í bréfinu kemur fram að embættið telji, með hliðsjón af upplýsingum úr skattskýrslum, að skilyrði reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, séu ekki uppfyllt og beri af þeirri ástæðu að greiða eftirgefið vörugjald, sbr. 20. gr. reglugerðarinnar, að fjárhæð kr. 497.663. Þann 23. júní sl. barst embættinu greiðsla af þinni hálfu.

Þann 14. ágúst 2006 barst embættinu kæra af þinni hálfu þar sem kærð er ofangreind ákvörðun embættisins varðandi greiðslu eftirgefins vörugjalds af bifreiðinni og krafist endurgreiðslu á þegar greiddu vörugjaldi.

II

Í 4. tl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, er fjallað um lækkun vörugjalds af leigubifreiðum. Til þess að fá vörugjald lækkað samkvæmt þessu ákvæði þarf rétthafi að uppfylla þartilgreind skilyrði í þrjú ár eftir nýskráningu bifreiðar, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Í 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar kemur fram að rétthafi verði að hafa tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, annað af næstu tveimur heilu almanaksárunum eftir að eftirgjöf var veitt. Í ákvæðinu kemur jafnframt fram að þegar liðin eru þrjú ár frá eftirgjöf ber rétthafa að senda tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára til sönnunar á tekjum rétthafa.

Embættið telur að í ofangreindu skilyrði felist að rétthafi verði að hafa að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi, sbr. reitur 2.4 í skattskýrslu, eins og ráðherra ákveður ár hvert. Á heimasíðu ríkisskattstjóra, www.rsk.is, er að finna upplýsingar um reglur varðandi reiknað endurgjald. Á heimasíðunni kemur fram að fjármálaráðherra skuli, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra, setja við upphaf árs reglur um reiknað endurgjald fyrir vinnu við eigin atvinnurekstur og ákveða viðmiðunarfjárhæðir fyrir lágmark þess með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.

Þegar embættið metur hvort rétthafi uppfylli skilyrðið um lágmarkstekjur er tekið mið af þeim reglum og viðmiðum sem ráðherra setur ár hvert. Í máli þessu taldi embættið að flokkur E ætti við um starfsgrein leigubílstjóra, en viðmiðunartekjur/reiknað endurgjald fyrir árin 2004 og 2005 er sem hér segir:

Reiknað endurgjald fyrir bifreiðastjóra árið 2004 (E2):

Mánaðarlaun: 185.000

Árslaun: 2.220.000

Reiknað endurgjald fyrir bifreiðastjóra árið 2005 (E4):

Mánaðarlaun: 194.000

Árslaun: 2.328.000

Með hliðsjón af reglu 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/200 verður rétthafi í máli þessu að hafa 70% af ofangreindum viðmiðunartekjum eða:

Reiknað endurgjald fyrir árið 2004 (árslaun E2): 2.220.000 x 70% = 1.554.000

Reiknað endurgjald fyrir árið 2005 (árslaun E4): 2.328.000 x 70% = 1.629.600

III

Embættið hefur móttekið skattskýrslur fyrir gjaldaárin 2003-2005. Til þess að sannreyna raunverulegar tekjur þínar af leigubifreiðaakstri, í samræmi við orðalag 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, hefur embættið hliðsjón af skattskýrslum fyrir gjaldaárin 2004 og 2005, þ.e.a.s. skattskýrslur næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt. Í skattskýrslu fyrir gjaldaárið 2004 kemur fram, sbr. reitur 2.4, að reiknað endurgjald sé kr. 281.682. Í skattskýrslu fyrir gjaldaárið 2005 kemur fram, sbr. reitur 2.4, að reiknað endurgjald sé kr. 492.848. Af þessu leiðir að reiknað endurgjald, samkvæmt skattskýrslum, er töluvert lægra en þau tekjuviðmið sem embættið styðst við þ.e.a.s. eins og þau er ákvörðuð af ráðherra ár hvert.

Í bréfi þínu, dags. 14. ágúst 2006, krefst þú þess að fá að afturkalla hjá skattstjóra lækkunina á reiknuðu endurgjaldi ellilífeyrisþega annað umrætt ár til þess að fullnægja tekjuskilyrði 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, og senda að því loknu til tollstjóra breytt afrit af skattframtali þínu til þess að fá endurgreitt eftirgefið vörugjald. Í þessu sambandi skal tekið fram að beiðni um leiðréttingu eða aðra afgreiðslu á skattframtali skal beina til skattyfirvalda.

Með hliðsjón af ofangreindu telur embættið ekki unnt að líta til annars en reiknaðs endurgjalds af leigubifreiðaakstri eins og það er tilgreint í reit 2.4 í skattskýrslum fyrir gjaldaárin 2004-2005, þ.e.a.s. þegar metið er hvort umsækjandi um eftirgjöf vörugjalds uppfylli lágmarkstekjur í skilningi 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000, með síðari breytingum.

Úrskurðarorð:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að E beri að greiða eftirgefið vörugjald, kr. 497.663, af bifreið með fastanúmer J, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 331/2000, með síðari breytingum.

Úrskurður þessi er kæranlegur til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningu úrskurðar, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Reykjavík, 2. október 2006.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum