Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2009

Álagning aðflutningsgjalda á póstsendingu

14.2.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 7. mars 2009, sem barst embættinu þann 11. mars 2009, hefur Ó, f.h. E, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 04 03 9 IS B05 1680.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar verði felld niður á grundvelli þess að um gjöf hafi verið að ræða.

II. Málsmeðferð

Þann 4. mars 2009 barst til landsins póstsending nr. P 150 04 03 9 IS B05 1680 sem skráð er á kæranda frá G. Í pakkanum var nethiminn fyrir barnarúm og vörureikningur fyrir netið frá fyrirtækinu K, dags. 13. febrúar 2009. Samkvæmt reikningi er verð vörunnar 117,70 evrur. Við bætist sendingarkostnaður að upphæð 9,95 evra, svo heildarupphæð reikningsins er 127,65 evrur. Reikningurinn er stílaður á G. Á fylgibréfi með sendingunni, sem fyllt var út af sendanda þegar pakkinn var sendur með P, hafði sendandi merkt við „Sonstiges“, þ.e. annað en ekki „Geschenk“, þ.e. gjöf. Aðflutningsgjöld af sendingunni voru ákvörðuð miðað við þann vörureikning sem lá með í pakkanum og voru þau 5,856,00 kr.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um hafi verið að ræða gjöf frá fjölskyldumeðlimi hennar. Ofangreind G sé móðir kæranda, en nafn kæranda hafi fyrir giftingu verið E. Um sé að ræða gjöf til ófædds barns kæranda, sem skv. upplýsingum frá honum á að fæðast um miðjan maí nk. Kærandi telur því að gjöld eigi ekki að leggja á sendinguna, þar sem um gjöf sé að ræða og óskar eftir því að tollar og gjöld af sendingunni verði felldir niður.

IV. Niðurstöður

Það er meginregla að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum þessara laga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Samkvæmt 1. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 skal greiða virðisaukaskatt af innflutningi vöru.

Sú vara sem hér um ræðir flokkast í tollskrárnúmer 6304.9909 og ber 10% A-toll skv. tollskrá og 24,5% virðisaukaskatt. Varan er þó undanþegin tolli samkvæmt 1. mgr. 26. gr. bókunar fjögur við EES-samninginn, en hún kveður á um að framleiðsluvörur, sem sendar eru sem smábögglar frá einum einstaklingi til annars skuli taldar upprunavörur án þess að framvísa þurfi sönnun á uppruna, og þar með undanþegnar tolli.

Kærandi heldur því fram að varan skuli undanþegin virðisaukaskatti þar sem um gjöf sé að ræða. Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er kveðið um undanþágu frá meginreglunni virðisaukaskattsskyldu við innflutning. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 36. gr. skulu vörur sem falla undir 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning. Í a-lið 8. tl. hennar er kveðið á um að gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, skuli vera tollfrjálsar, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 7.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 7.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir skulu vera tollfrjálsar þótt þær séu meira en 7.000 kr. að verðmæti, enda sé að mati tollstjóra um eðlilega og hæfilega gjöf að ræða. Sambærilegt ákvæði er nú í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, fyrir utan að hámarksverðmæti hefur verið hækkað í 10.000 kr. Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu, þegar um tækifærisgjafir er að ræða. Gjöfin skal vera frá aðila sem búsettur er erlendis og verðmæti gjafarinnar skal ekki vera meira en 10.000 kr.

Sendingin uppfyllir það skilyrði ofangreindrar undanþágu að vera frá aðila sem er búsettur erlendis. Auk þess er verðmæti sendingarinnar undir 10.000 kr. Hins vegar leikur vafi á því hvort um gjöf sér að ræða. Reikningur sem fylgdi sendingunni var stílaður á sendanda en ekki viðtakanda. Hins vegar merkti sendandi greinilega við Sonstiges“, þ.e. annað, en ekki

„Geschenk“, þ.e. gjöf, á fylgibréfi sendingarinnar og gaf þar með skýra yfirlýsingu um að hér væri ekki um gjöf að ræða. Auk þess var hluturinn ekki pakkaður í gjafapappír og reikningur lá með, sem verður að teljast óvenjulegt þegar um gjöf er að ræða.

Með hliðsjón af ofangreindu telur embættið ljóst að skilyrði til undanþágu frá almennri tollskyldu skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 hafi ekki verið uppfyllt. Engin heimild er því til staðar til að fella aðflutningsgjöld af sendingunni niður.

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. tollalaga er tollverð innfluttra vara viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákv. 1. gr. og að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Á reikningi frá fyrirtækinu K, sem fylgdi sendingunni, kemur fram að heildarverð vörunnar auk flutningskostnaðar sé 127,65 evrur. Viðskiptaverð sendingarinnar, sem liggur til grundvallar útreikningi og álagningar aðflutningsgjalda, er heildarverð hennar. Því var upphæð vörureiknings með réttu lögð til grundvallar við ákvörðun aðflutningsgjalda af fyrrgreindri sendingu.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu nr. P 150 30 01 9 IS B02 3024 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum