Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2010

Álagning vörugjalds á leigubifreið

30.6.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 14. desember 2009, hefur A, fyrir hönd B, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti, o.fl. nr. 29/1993, ákvörðun Tollstjóra um álagningu 45% vörugjalds á leigubifreiðina X og innheimtu mismunar á fjárhæð vörugjalds sem greitt var við tollafgreiðslu og fulls vörugjalds auk virðisaukaskatts af því.

Kærandi krefst þess í kærunni að ákvörðunin verði afturkölluð.

II. Málsmeðferð

Þann 20. nóvember 2007 sótti kærandi, sem stundar leigubifreiðaakstur, um lækkun vörugjalds í 13% af leigubifreiðinni X samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Sama dag undirritaði kærandi yfirlýsingu þar sem hann skuldbatt sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru um nýtingu bifreiðarinnar, m.a. um lágmarkstekjur af leigubifreiðaakstri og skyldu til að senda tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu samkvæmt 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Í yfirlýsingunni er jafnframt kveðið á um skyldu kæranda til greiðslu ógreidds vörugjalds, verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum sbr. 2. mgr. 21. gr. reglugerðarinnar Tollstjórinn í Reykjavík annaðist framkvæmd lækkunarinnar þann 7. september 2007.

Með bréfi dags. 25. nóvember 2009 fór embætti tollstjóra þess á leit að staðfestu endurriti af skattskýrslum næstu tveggja heilla almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt yrði skilað inn og veitti til þess 15 daga frest. Embættinu hafði ekki borist skattskýrsla innan frestsins og tók því ákvörðun um álagningu 45% vörugjalds á bifreiðina og innheimtu á mismuni á lækkuðu og fullu vörugjaldi, kr. 630.045, og virðisaukaskatti af mismuninum, kr. 154.361, alls kr. 784.406. Kæranda var tilkynnt ákvörðunin með bréfi dags. 9. desember 2009. Í kjölfar ákvörðunarinnar skilaði kærandi inn skattskýrslu 2009 fyrir tekjuárið 2008. Með bréfi dags. 3. febrúar 2010 sendi embætti Tollstjóra ákvörðun um innheimtu byggða á því að framtaldar tekjur hafi verið 1.800.000,00 og því undir lágmarkstekjum. Kæra var lögð inn með bréfi dags. 14. desember 2009. Vegna mistaka innan embættisins barst kæran lögfræðideild embættisins fyrst 11. febrúar 2010. 

Með kærunni var lagt inn skattbreytingablað 2009 frá Skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, dags. 14. desember 2009, þar sem m.a. kemur fram að reiknað endurgjald var hækkað úr 1.800.000,00 kr. í 1.920.000,00 kr.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi fer fram á að horfið verði frá innheimtu vörugjalds, þar sem reiknað endurgjald hafi verið leiðrétt í skattframtali fyrir árið 2008 úr 1.800.000,00 kr. í 1.920.000,00 kr. og uppfylli því skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af leigubifreiðum.

IV. Niðurstöður

Í 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Samkvæmt 3. gr. laganna skal vörugjald lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., eftir gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum. Í flokk I falla ökutæki með 2.000 rúmsentímetra sprengirými eða minna og leggst á þau 30% vörugjald. Í flokk II falla ökutæki með yfir 2.000 rúmsentímetra sprengirými og leggst 45% vörugjald á þau. Bifreiðin X, sem er af gerðinni Land Rover Freelander 2, fellur í flokk II og ætti því 45% vörugjald að leggjast á hana, ef engin undanþága fyrir atvinnutæki kemur til.

Á leigubifreiðar til fólksflutninga leggst lægra vörugjald samkvæmt 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna. Á ökutæki í flokki I leggst 10% vörugjald, en á ökutæki í flokki II leggst 13% vörugjald.Við tollafgreiðslu bifreiðarinnar X var lagt á hana 13% vörugjald þar sem hún er leigubifreið. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Kveðið er á um frekari skilyrði fyrir lækkunina í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993.

Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar er m.a. háð því skilyrði samkvæmt ákvæðum 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Miðað er við flokk E4 í reglum nr. 3/2008 um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2008. Undir flokk E fellur ýmis starfsemi einyrkja, ófaglærðra og vélstjórnenda. Fyrir tekjuárið 2008 skulu tekjur að lágmarksupphæð 2.664.000,00 kr. taldar fram í tekjur í flokki E4. Rétthafi lækkunarinnar skal því hafa og telja fram a.m.k. 1.864.800,00 kr. vegna aksturs leigubifreiðar fyrir tekjuárið 2008. Kærandi reiknaði sér samkvæmt framlögðu skattframtali 2009 fyrir tekjuárið 2008 1.800.000,00 kr. í endurgjald. Sú upphæð er 64.800 kr. undir því lágmarki sem kveðið er á um og nægir því ekki til að uppfylla skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Þegar ákvörðun um álagningu var tekin þann 9. desember 2009 hafði kærandi ekki skilað inn skattframtali fyrir árið 2009. Starfsmanni embættisins bar því skylda til að taka ákvörðun um innheimtu, byggða á því að skilyrði um framtaldar tekjur í reiknað endurgjald af leigubifreiðaakstri hafði ekki verið uppfyllt.

Með kæru, dags. 14. desember 2009 lagði kærandi fram skattbreytingablað 2009 frá Skattstjóranum í Reykjanesumdæmi, dags. 14. desember 2009 og þar með ný gögn í málinu. Á skattbreytingablaðinu kemur m.a. fram að reiknað endurgjald vegna leigubifreiðaaksturs var hækkað úr 1.800.000,00 kr. í 1.920.000,00 kr., eða um 120.000,00 kr. Með þessari breytingu á skattframtali 2009 uppfyllir kærandi fyrrgreind skilyrði um framtaldar tekjur af reiknuðu endurgjaldi, svo að skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 eru þar með uppfyllt vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á skattframtali 2009.

Með vísan til þess sem fram kemur að ofan var ákvörðun embættisins um álagningu vörugjalds á leigubifreiðina X réttmæt þegar hún var tekin þann 9. desember 2009. Vegna breyttra málsaðstæðna og gagna, sem lögð voru fram með kæru vegna málsins hefur kærandi uppfyllt skilyrði 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um lágmarkstekjur af akstri leigubifreiða. Því ber að falla frá álagningu vörugjalds á bifreiðina X. Ákvörðun um álagningu vörugjalds á bifreiðina X, dags. 9. desember 2009, sem var endurtekin 3. febrúar 2010, er felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra álagningu vörugjalds á leigubifreiðina X, dags. 9. desember 2009, endurtekin 3. febrúar 2010, er felld úr gildi.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum