Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2012

Tollflokkun, tölvuskjár

10.2.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dagsettu 6. janúar 2012 hefur K kært tollflokkun á tölvuskjá AOC E2795VH í tollskrárnúmer 8528.5900, sbr. kæruheimild 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kærandi krefst þess að varan verði ákvörðuð í tollskrárnúmer 8528.5100.

II. Málsmeðferð

Þann 19. október 2011 flutti kærandi inn skjái m.a. AOC E2795VH frá Hollandi. Sendingin kom til landsins með sendingarnúmeri S ARN 19101 NLRTM J419. Sendingin hlaut SMT- tollafgreiðslu gegnum tollmiðlara sem tollflokkaði sendinguna í tollskrárnúmer 8528.5900 og 8528.5100 án athugasemda Tollstjóra.

Þann 22. nóvember 2011 móttók embætti Tollstjóra kæru K vegna tollflokkunar á tölvuskjám með HDMI tengi sem við tollafgreiðslu voru tollflokkaðir í tollskrárnúmer 8528.5900. Tollstjóri sendi bréf til K 2. desember með beiðni um nánari upplýsingar s.s. vöruheiti og sendingarnúmer. Ný kæra var lögð fram af hálfu K 6. janúar 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru þess efnis að varan hafi verið rangt tollflokkuð með tillit til notkunarmöguleika. Um sé að ræða tölvuskjá til almennrar sölu útbúnir með einu eða fleiri tengjum af VGA, DVI, HDMI, DisplayPort. Skjáirnir eru á standi sem gefur m.a. færi á að stilla halla á skjá og séu ekki útbúnir með raufum eða með innbyggðu plássi fyrir auka stýrispjöld til að framkvæma vinnslu á gögnum frá jaðarbúnaði og varpa niðurstöðunni á skjáinn (sú vinnsla fari fram í gagnavinnsluvélinni).

Í ljósi þessa hafi kærandi farið fram á að AOC E2795VH verði tollflokkaður sem 8528.5100 Aðrir skjáir: sem gerðir eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471. Til frekari rökstuðnings vísar kærandi til skýringarmynda af viðkomandi skjá og í vefsvæði framleiðanda þar sem ítarlega lýsingu á vörunni er að finna: http://www.aoc- europe.com/no_cache/en/monitors.html?useCacheHash=1&showUid=57.

IV. Niðurstöður

Mál þetta snýst um tollflokkun á vörunni AOC E2795VH sem er 68,5 cm ( (27“) TFT flatskjár. Skjárinn hefur ýmsa tengimöguleika m.a. D-SUB, DVI-D, HDMI, USB. Lýsingu framleiðanda og kæranda ber ekki saman að öllu leyti svo sem um það hvort skjárinn sé á standi eða veggfestingu en einnig er misræmi í vörulýsingu varðandi stillimöguleika skjásins. Samkvæmt upplýsingum af vefsvæði framleiðanda er skjárinn með veggfestingu og er hvorki hægt að eiga við hæðina á honum né halla honum. Þá eru innbyggðir hátalarar í skjánum.

Samkvæmt 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur tollflokka samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í byrjun ýmissa flokka og flestra kafla skrárinnar eftir atvikum. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla skv. túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málsl. reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði skal jafnframt byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6.

Umræddur skjár hefur eins og áður kom fram ýmsa tengimöguleika. Við skjáinn er hægt að tengja ýmis jaðartæki gegnum stafræna skjátengið HDMI. Slíkt tengi getur flutt bæði mynd og hljóð í hæstu gæðum sem og aðra stafræna tækni. HDMI tengið gerir það að verkum að hvaða jaðartæki sem er getur birt upplýsingar á skjánum, engrar stýringar eða vinnslu er þörf frá skjánum. Stýringin fer fram í jaðartækinu, sem sendir gögnin til aflestrar í gegnum HDMI tengi og kapal. Skjár með HDMI tengi getur túlkað og birt þau gögn. Þannig er hægt að nota skjáinn hvort sem er til nota með gagnavinnsluvél (tölvu) eða sem annan almennan skjá. Verður því ekki fallist á rök kæranda þess efnis að notkun skjásins sé einungis bundin við tölvu.

Vöruliður 8528 tekur til:

„Skjáir og myndvörpur, án sjónvarpsmóttökubúnaðar; móttökutæki fyrir sjónvarp, einnig með útvarpsviðtæki eða hljóð- eða myndbandsupptökubúnaði eða flutningsbúnaði:“

Undirliðurinn „–Aðrir skjáir:“ á við um tollflokkun á flatskjá með ofangreindri lýsingu og skv. fyrrnefndri túlkunarreglu 6 byggir flokkun í undirliðinn á orðalagi. Varan tollflokkast því í tollskrárnúmer 8528.5900 sem aðrir skjáir en þeir sem eru eingöngu eða aðallega til nota í gagnavinnslukerfum í nr. 8471.

Þess má einnig geta að túlkunarregla 3 c segir að ef til álita komi vörur sem ekki er hægt að flokka eftir reglum a- eða b-liðar 3. athugasemdar og geta fallið jafnt í fleiri en einn vörulið þá skal tollflokkað í seinna númerið sem til álita kemur.

Úrskurður embættisins er í samræmi við ákvörðun sem tekin var á 48. samráðsfundi tollskrárnefndar Alþjóðatollastofnunarinnar.1

„ (c) Since the monitor in question could accept a signal not only from an ADP machine (Automatic Data Processing Machine) but also from an external video source, it should be excluded from subheading 8528.51.“

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að varan AOC E2795VH, sem flutt var inn með sendingarnúmeri S ARN 19101 NLRTM J419 flokkist í tollskrárnúmer 8528.5900.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. Tollalaga nr. 88/2005.



1 World Customs Organization (2011). Report to the Customs Co-operatin Council on the 49th Session of the Harmonized System Committee. (NC1705E1b, Annex E/2.). Brussel: WCO.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum