Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 6/2014

Beiðni um endurskoðun tollflokkunar varahluta í AC kælingar fyrir bifreiðar

24.7.2014

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, móttekið þann 1. júlí sl., hefur X. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvarðanir Tollstjóra, dags. 31. mars 2014, um tollflokkun kæla.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 31. mars 2014 var tollskýrsla fyrir sendingu nr. P 150 31 03 4 IS B14 7842 gerð. Í sendingu þessari voru hlutir í AC kælingar fyrir bifreiðar og var varan tollflokkuð í tollflokk nr. 8708.9100.

Þann 1. júlí 2014 barst Tollstjóra fyrirspurn frá kæranda varðandi umrædda tollflokkun. Var litið á erindi það sem kæru skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

III. Meginröksemdir kæranda

Í gögnum máls kemur fram að kærandi hafi flutt inn til landsins varahluti í bifreiðar og því haldið fram að um sé að ræða vörur fyrir AC kælingu en ekki vatnskassa. Bendir kærandi því til stuðnings til þess að ekki sé hægt að nota umrædda vöru sem vatnskassa þar sem tengingar eru á annan hátt sem og rör mismunandi. Er þar einnig að finna staðfestingu frá framleiðanda að ekki sé hægt að nota umrædda varahluti sem vatnskassa heldur sé um gufuþétti (e. condenser) að ræða. Telur kærandi að flokka eigi umræddar vörur í tollskrárnúmer 8415.2000.

Kærandi byggir jafnframt á því að honum hafi ekki verið kunnugt um tollflokkun þessa fyrr en hann hafði samband við Tollstjóra og óskar eftir því að áframhaldandi samskipti við hann fari ekki í gegnum millilið.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun á varahlutum í bifreiðir sem kærandi flutti inn á þessu ári. Embætti Tollstjóra hefur farið ítarlega yfir öll gögn málsins.

Tollstjóri fellst á að umræddar vörur hafi verið ranglega flokkaðar í vörulið 8708. Eftir ítarlega rannsókn á eðli vörunnar hefur komið í ljós að rétt sé að flokka vöruna í vörulið 8415.

Kærandi telur að flokka eigi vörurnar í tollskrárnúmer 8415.2000 en þar sem einungis er um að ræða hluta í slík tæki þá eru vörurnar réttilega flokkaðar í tollskrárnúmer 8415.9000.

Hvað kvörtun kæranda um að hafa ekki verið látinn vita af athugasemdum og leiðréttingu embættisins varðar skal bent á að umrædd sending fór í gegnum Tollmiðlun Íslandspósts. Öll samskipti Tollstjóra er við tollmiðlara sem er ákvarðaður af kæranda sjálfum. Samskiptaleysi milli kæranda og tollmiðlara eru milli þeirra einna en varða ekki Tollstjóra.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun varahluta í bifreið í nánar tilgreindri sendingu sé hnekkt.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Virðingarfyllst,

f.h. Tollstjóra

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum