Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2003

Aðflutningsgjöld af bifreið af gerðinni Range Rover, árgerð 1995.

3.10.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, þar sem kærð er álagning aðflutningsgjalda af bifreiðinni X, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er kom til landsins með sendingu númer Y.

Í ákvæði 1. mgr. 4. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, kemur fram sú meginregla tollalaga að greiða beri toll af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, eins og mælt er fyrir í tollskrá, sbr. viðauka við tollalög. Undantekningar frá þessari meginreglu eru aftur á móti að finna í 6. gr. tollalaga, en þar segir í 3. tl. 1. mgr., að tollur skuli lækka falla niður eða endurgreiðast m.a. í tilvikum, þar sem bifreiðar eru fluttar til landsins af mönnum sem hafa haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár og hafa ekki jafnframt átt lögheimili hér á landi. Kveða lögin skýrt á um það að undanþága þessi gildi aðeins í einn mánuð frá komu ökutækis til landsins.

Í reglugerð nr. 160/1990, um tímabundinn frjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla, með síðari breytingum, er að finna nánari skilyrði um framkvæmd ofangreindrar undanþágureglu. Í 3. tl. 1. gr. reglugerðarinnar segir að tollstjóra sé heimilt að veita leyfi til tollfrjáls innflutnings á bifreið í allt að einn mánuð talið frá komu flutningsfars ökutækis til landsins að uppfylltum nánargreindum skilyrðum. Þar kemur fram að innflutningur ökutækisins þarf að eiga sér stað við komu hlutaðeigandi til landsins, í beinu framhaldi af komu hans til landsins og ekki síðar en einum mánuði frá komu hans til landsins. Ekki eru neinar undantekningar í lögum eða reglugerð sem heimila frávik frá þessum skilyrðum sem talin eru upp í 3. tl. 1. gr. reglugerðarinnar.

Ljóst er að bifreiðin X kom til landsins í júní síðastliðnum, en búslóð innflytjanda kom til landsins með sendingu númer Z, þ.e. í mars 2002. Því liðu 14 mánuðir frá því að búslóð innflytjanda kom til landsins þar til umrædd bifreið var flutt inn og því ljóst að tímafrestur sá er gefinn er í reglugerð nr. 160/1990, varðandi tímabundinn tollfrjálsan innflutning á bifreið yðar er liðinn. Engar heimildir eru í lögum eða reglugerð eins og áður hefur komið fram, til að veita undanþágur frá skilyrðum 3. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 160/1990.

Í 4. tl. 5. gr. tollalaga kemur skýrt fram að þó að búslóðir manna sem hafa átt fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en viðkomandi flyst til landsins séu tollfrjálsar, eigi það ekki við um um ökutæki né önnur vélknúin farartæki. Skal því greiða aðflutningsgjöld af ökutækjum og öðrum vélknúnum farartækjum við flutning þeirra til landsins lögum samkvæmt.

Kemur fram í erindi innflytjanda, dags. 25. júní 2003, að hann telji að leggja eigi til grundvallar álagningu aðflutningsgjalda, útreikning embættisins dags. 23. júlí 2002.

Hafnar embættið því alfarið að leggja eigi umræddan útreikning til grundvallar álagningu aðflutningsgjalda, þar sem útreikningurinn var einungis til leiðbeiningar og kemur það mjög skýrt fram á útreikningsblaðinu að upplýsingar þær, er þar koma fram séu gefnar með fyrirvara.

Þar að auki miðaðist umræddur útreikningur við þær upplýsingar er lágu fyrir í júlí 2002 og tók mið af því að bifreiðin yrði flutt inn á þeim tíma er útreikningurinn var gerður. Forsendur útreiknings aðflutningsgjalda hafa breyst á því ári sem liðið er frá því að útreikningur embættisins var gerður, enda háður gengi og öðrum breytilegum þáttum.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar samkvæmt 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 að með vísan til þess sem að framan er rakið, að álögð aðflutningsgjöld, reiknuð út á grundvelli 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun séu að fjárhæð kr. 828.985,00.- út frá tollverði bifreiðarinnar að fjárhæð kr. 1.024.813,00.-

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 3. október 2003

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum