Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2004

Aðflutningsgjöld af sendingum A, B og C

28.2.2004

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, dags. 26. janúar 2003 varðandi bréf embættisins frá 12. janúar 2004. Með bréfinu voru afhentir tollseðlar og tollstimplaðir reikningar fyrir sendingar númer A, B og C en innflytjandi framangreindra sendinga er X. Lítur embættið svo á að með bréfi innflytjanda sé verið að kæra ákvörðun embættisins frá 12. janúar 2004 skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Málavextir eru á þann veg að á aðflutningsskýrslum umræddra sendinga voru gefnar þær upplýsingar að vörur í sendingunum hefðu farið á tollbandi til Keflavíkurflugvallar þann 30.04.03 og 27.05.03. Með bréfi embættisins dags. 23. október sl. var fyrirtækinu gefinn frestur til 7. nóvember 2003, til að skila inn árituðum tollseðlum fyrir sendingar númer A, B og C en einnig var farið fram á gögn vegna tveggja annarra sendinga. Í byrjun desember skilaði fyrirtækið inn tollseðlum og bárust fullnægjandi gögn varðandi tvær sendingar. Með bréfi embættisins dags. 12. janúar sl. var innflytjanda tilkynnt um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna sendinga A, B og C þar sem tollseðlar vegna þeirra höfðu ekki skilað sér eða voru ófullnægjandi. Í kjölfar ákvörðunar embættisins skilaði innflytjandi inn frekari gögnum með bréfi sínu, dags. 26. janúar 2004 varðandi sendingar A, B og C.

Í 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum segir að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast í eftirfarandi tilvikum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem tilgreind eru. Í 6. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga eru tilgreindar vörur sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 760/2000 um um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda er að finna nánara ákvæði um framkvæmd framangreindrar reglu tollalaga. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir að tollstjóri skuli endurgreiða aðflutningsgjöld af vöru sem endurseld er í tollfrjálsa verslun hér á landi, í tollfrjálsa forðageymslu skipaútgerðar eða flugfélags, á frísvæði eða á varnarsvæði samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði eru 1) að varan sé ónotuð, 2) að framvísað sé sölureikningi með áritaðri staðfestingu tollgæslunnar á því að vara samkvæmt reikningnum hafi verið flutt til aðila sem greinin tekur til 3) að framvísað sé afriti greiðslukvittunar aðflutningsgjalda vörunnar og, ef þörf er á að mati tollstjóra, afritum annarra tollskjala varðandi vöruna 4) að beiðni um tollmeðferðina og nauðsynleg staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá því að sú vara sem beiðni lýtur að var afhent kaupanda.

Með bréfi innflytjanda, dags. 26. janúar sl., skilaði innflytjandi inn tollseðli varðandi sendinguna A ásamt afriti af reikningi vegna sendingarinnar. Tollseðill varðandi sendinguna er ekki stimplaður um móttöku á ákvörðunarstað og því telur embættið umræddan tollseðil ófullnægjandi. Hins vegar er reikningur sendingarinnar stimplaður af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli þann 16. janúar 2004. Á tollseðli sendingarinnar kemur fram að umræddar vörur í sendingunni hafa verið sendar til Keflavíkur þann 30. apríl 2003. Því er ljóst að reikningur sendingarinnar A var stimplaður um móttöku rúmum 8 mánuðum eftir að umræddar vörur virðast hafa verið sendar til Keflavíkurflugvallar. Embættið telur að umræddur reikningur sýni ekki fram á með fullnægjandi hætti að umrædd vara hafi verið flutt á ákvörðunarstað.

Einnig telur embættið að skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 760/2000 er varða það að nauðsynleg staðfestingargögn séu afhent tollstjóra innan eins mánaðar frá því að sú vara sem beiðni lýtur að var afhent kaupanda, sé ekki uppfyllt.

Með bréfi innflytjanda, dags. 26. janúar sl., barst einnig tollseðill vegna sendingar númer D og afrit af reikningi sem stimplaður er af tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli þann 23. maí 2003. Innflytjandi telur umræddan reikning samanstanda af sendingum númer B, C og D. Embættið telur að svo geti ekki verið þar sem að umræddur reikningur er stimplaður þann 23. maí 2003, en á afriti af tollseðli vegna sendinga númer B og C kemur fram að umræddar vörur voru sendar til Keflavíkurflugvallar þann 27. maí 2003. Einnig virðast upplýsingar sem fram koma í umræddum reikningi ekki í samræmi við þær upplýsingar sem fram koma í aðflutningsskýrslum sendinga B og C. Í ljósi þessa telur embættið að reikningurinn geti ekki átt við umræddar sendingar. Því skortir á um að nauðsynleg staðfestingargögn vegna sendinga B og C hafi verið lögð fram skv. 6. gr. reglugerðar nr. 760/2000. Embættið telur einnig að þar sem tollseðill er til fyrir sendingar B og C verði að telja að sérstakur reikningur hafi fylgt þeim tollseðli.

Í ljósi framangreinds telur embættið að skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda vegna sendinganna séu ekki uppfyllt, sbr. reglugerð nr. 760/2000 um lækkun, niðurfellingu eða endursölu til útlanda. Þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hvort eða hvenær varan var afhent á Keflavíkurflugvelli teljast aðflutningsgjöldin fallin í eindaga á þeim degi er varan var tekin úr tollvörugeymslu, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 61/1989, með áorðnum breytingum, um greiðslustað, gjalddaga og fullnustu aðflutningsgjalda vegna tollmeðferðar á innfluttum vörum. Um greiðsluskyldu innflytjanda vísast til 2. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla máls þessa hefur dregist.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 9. gr. reglugerðar nr. 760/2000 um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda og 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun embættisins frá 12. janúar 2004 um greiðslu aðflutningsgjalda af sendingum A, B og C ásamt dráttarvöxtum, standi óbreytt.

Úrskurðurinn er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 760/2000 um lækkun, niðurfellingu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda af vörum vegna endursendingar, galla, tjóns, vöntunar eða endursölu til útlanda og 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 27. febrúar 2004

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum