Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2009

Greiðsla ógreidds vörugjalds af fimm bílaleigubifreiðum

20.4.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi sem barst embættinu þann 17. febrúar 2009 með ábyrgðarpósti, póstlagt 6. febrúar 2009, hefur A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993, ákvörðun Tollstjóra um greiðslu ógreidds vörugjalds af fimm bílaleigubifreiðum.

Kærandi krefst þess að ákvörðun um gjaldfellingu verði endurskoðuð.

II. Málsmeðferð

Þann 29. maí 2007 var fyrir hönd kæranda sótt um lækkun vörugjalds skv. 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. af bifreiðum með fastnúmer X, Y, Z, Þ og Æ sem ætlaðar voru til útleigu í starfsemi kæranda. Tollstjórinn í Reykjavík annaðist lækkun vörugjaldsins. Þann 31. maí 2007 voru undirritaðar fyrir hönd kæranda yfirlýsingar vegna bifreiðanna þar sem fram kemur að kærandi skuldbindur sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru um nýtingu bifreiðanna. Í yfirlýsingunum er jafnframt kveðið á um skyldu kæranda til greiðslu ógreidds vörugjald, verði brotið gegn fyrrgreindum skilyrðum sbr. 3. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 21. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum.

Í nóvember 2008 kallaði Tollstjórinn í Reykjavík eftir gögnum um akstur bifreiðanna. Í kjölfarið lagði kærandi fram leigusamninga fyrir bifreiðarnar auk 9 reikninga. Kæranda var með bréfi dags. 3. desember 2008 tilkynnt um fyrirhugaða innheimtu vörugjalda þar sem ekki hefði verið gætt skilyrða 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar um að óheimilt sé að gera leigusamning við sama leigutaka til lengri tíma en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili. Gefinn var 15 daga andmælafrestur. Í bréfi kæranda til embættisins dags. 14. desember sl. kemur fram að hann hafi talið að þær reglur sem giltu um leigusamninga við tryggingafélög ættu við um fyrirtæki almennt og að gerðar hafi verið breytingar til þess að fyrirbyggja að slík mistök kæmu aftur fyrir. Þess var farið á leit að kærandi yrði ekki beittur viðurlögum. Embættið tók ákvörðun um að krefja kæranda um ógreidd vörugjöld af bifreiðunum og var honum tilkynnt um hana með bréfi dags. 27. janúar sl. Kærandi greiddi vörugjöldin þann 2. febrúar 2009. Með bréfi sem barst embættinu 17. febrúar sl. var óskað eftir að Tollstjóri endurskoðaði afstöðu sína í málinu og félli frá innheimtu vörugjaldsins. Litið er á erindið sem kæru.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur notkun bifreiðanna ekki brjóta gegn ákvæðum laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Gefinn hafi verið út reikningur fyrir hvern mánuð í senn þrátt fyrir að leigusamningarnir séu til lengri tíma. Þá telur kærandi að samkvæmt yfirlýsingunum vegna eftirgjafar vörugjalds hefði svo langur leigutími verið í lagi hefði leigutakinn verið tryggingarfélag. Það séu því veittar undantekningar frá hámarksleigutíma. Kærandi bendir á að hann hafi verið í rekstri bílaleigu í 15 ár og telur alla framkvæmd hafa verið til fyrirmyndar. Hann telur ósanngjarnt að leggja auknar álögur á fyrirtækið í því árferði sem nú ríkir einungis vegna útfærsluatriða.

IV. Niðurstöður

Heimild til niðurfellingar hluta vörugjalds af bifreiðum, ætluðum til útleigu hjá bílaleigu, er í 5. tölul. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þar koma fram skilyrði fyrir lækkun og heimild ráðherra til að binda niðurfellinguna við frekari skilyrði í reglugerð. Í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum er í 14. gr. kveðið á um skilyrði fyrir lækkun vörugjalds á bifreiðum ætluðum til útleigu. Lækkun vörugjalds er, skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, háð því skilyrði að næstu 15 mánuði eftir nýskráningu bifreiðar verði nýtingu bifreiðar og starfsemi bílaleigu hagað eftir því sem segir í 1.–5. tölul. 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. skal bifreið að jafnaði leigð út til þriggja vikna eða skemur vegna tímabundinna þarfa leigutaka. Bílaleigu er samkvæmt þessu ákvæði óheimilt að gera leigusamning við sama leigutaka, einstakling eða lögaðila, eða aðila tengdan honum, lengur en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili, hvort heldur sem um sömu bifreið er að ræða eða aðra bifreið.

Undantekningu frá skilyrðinu um hámarksleigutíma er að finna í a- og b-lið 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þegar leigutaki er lögaðili og bifreið er tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans er heimilt að gera leigusamning til lengri tíma en 45 daga skv. b-lið 1. mgr. 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. Þá skal tekið fram í leigusamningi að hann sé gerður í þágu tiltekins starfsmanns lögaðila vegna ferðalaga hans.

Gögn þau sem kærandi hefur lagt fram sýna fram á notkun bifreiðanna var með þeim hætti sem hér segir:

Bifreið með fastnúmer X.

Lagðir voru fram 17 leigusamningar fyrir það 15 mánaða tímabil sem kvöðin tekur til vegna bifreiðarinnar. Við lok tímabilsins var hún ekin 32.980 km. Einn af framlögðum samningum er útleigusamningur nr. 27854 þar sem leigutaki er skráður B. Útleiga byrjar samkvæmt samningi þann 5. október 2007. Það er ekki skýrt í samningnum hvenær leigunni lauk. Í þann reit á samningum þar sem skrá skal hvenær bifreið er skilað hefur verið skráð 24/6 sem síðan hefur verið strikað yfir. Við upphaf leigu var bifreiðin ekin 16.110 km og við skil 32.980 km. Akstur á samningstíma var því 16.870 km og 51% af heildarakstri bifreiðarinnar.

Bifreið með fastnúmer Y.

Lagðir voru fram 12 leigusamningar fyrir það 15 mánaða tímabil sem kvöðin tekur til vegna bifreiðarinnar. Við lok tímabilsins var hún ekin 29.460 km. Einn þessara samninga er útleigusamningur nr. 27471 þar sem leigutaki er skráður B. Útleiga byrjar samkvæmt samningi 24. ágúst 2007 en ekki kemur fram á samningnum hvenær henni lýkur. Við upphaf útleigu var bifreiðin ekin 11.977 km og við skil 41.437. Akstur á samningstíma var því 29.460 km og 45% af heildarakstri bifreiðarinnar.

Bifreið með fastnúmer Z.

Lagðir voru fram ellefu leigusamningar fyrir það 15 mánaða tímabil sem kvöðin tekur til vegna bifreiðarinnar. Við lok tímabilsins var hún ekin 27.120 km. Einn þessara samninga er útleigusamningur nr. 27420 þar sem leigutaki er skráður B. Útleiga byrjar samkvæmt samningi 29. ágúst 2007 og lýkur 1. nóvember s.á. Við upphaf útleigu var bifreiðin ekin 14.959 km og við skil 27.120 km. Akstur á samningstíma var því 12.161 km og 71% af heildarakstri bifreiðarinnar.

Bifreið með fastnúmer Þ.

Lagðir voru fram 9 leigusamningar fyrir það 15 mánaða tímabil sem kvöðin tekur til vegna bifreiðarinnar. Við lok tímabilsins var hún ekin 27.423 km. Einn þessara samninga er útleigusamningur nr. 27423 þar sem leigutaki er skráður B. Útleiga byrjar samkvæmt samningi 23. apríl 2007 en ekki kemur fram hvenær henni lýkur. Við upphaf útleigu var bifreiðin ekin 12.107 km og við skil 23.740 km. Akstur á samningstíma var því 11.633 km og 49% af heildarakstri bifreiðarinnar.

Bifreið með fastnúmer Æ.

Lagðir voru fram 33 leigusamningar fyrir það 15 mánaða tímabil sem kvöðin tekur til vegna bifreiðarinnar. Við lok tímabilsins var hún ekin 42.796 km. Einn þessara samninga er útleigusamningur nr. 28164 þar sem leigutaki er skráður B. Útleiga byrjar samkvæmt samningi 27. janúar 2007 og lýkur 1. apríl s.á. Við upphaf útleigu var bifreiðin ekin 22.399 km og við skil 27.160 km. Akstur á samningstíma var því 4.761 km og tæp 11% af heildarakstri bifreiðarinnar.

Samkvæmt ofangreindu kemur skýrt fram í samningum nr. 27420 og 28264 vegna bifreiðanna með fastnúmer Z og Æ að þær voru leigðar út til B í lengri tíma en í 45 daga. Í samningum nr. 27854, 27471 og 27423 vegna bifreiðanna með fastnúmer X, Y og Þ kemur ekki skýrt fram hvenær leigu lýkur. Í ljósi þess að kærandi hefur lagt fram reikninga nr. 2431, 2447, 2457, 2473, 2483, 2465, 2482, 2514 og 2555 vegna leigu bifreiðanna þriggja, auk bifreiðar með fastnúmer Z, til ÍAV þjónustu ehf. sem ná yfir tímabilið september 2007 til ágúst 2008 er ekki vafi á því að þær bifreiðar voru einnig leigðar í lengri tíma en 45 daga. Þá má það einnig vera ljóst af því hversu margir kílómetrar voru eknir á leigutíma samkvæmt leigusamningunum.

Í kvöðum þeim, sem undirritaðar voru fyrir hönd fyrirtækisins þann 31. maí 2007 og gengist var undir vegna lækkunar vörugjalda af bifreiðunum kemur skilyrðið um hámarksleigutíma skýrt fram. Þar að auki hvílir almennt rík skylda á forsvarsmönnum bílaleiga að kynna sér skilyrði lækkunar vörugjalds eins og þau koma fram í lögum nr. 29/1993 og reglugerð nr. 331/2000. Þá eru undantekningarákvæðin frá hámarksleigutíma sambærileg hvort sem leigutaki er vátryggingafélag eða annar lögaðili. Samkvæmt 2. mgr. 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar skal tekið fram í leigusamningi að hann sé gerður í þágu tiltekins vátryggingartaka vegna tímabundins afnotamissis eigin bifreiðar ef samningurinn er gerður til lengri tíma en 45 daga.

Það kemur ekki fram í þeim leigusamningum sem voru gerðir til lengri tíma en 45 daga að þeir séu gerðar í þágu tiltekins starfsmanns B vegna ferðalaga hans. Því er ekki uppfyllt undanþáguákvæði b-liðar 1. mgr. 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða Tollstjóra að kærandi hafi með notkun bifreiða með fastnúmer X, Y, Z, Þ og Æ brotið gegn skilyrðum 3. tölul. 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000, sbr. 5. tölul. 5. gr. laga nr. 29/1993.

Í 5. tölul. 5. gr. laga nr. 29/1993 er kveðið á um að tollstjóra sé heimilt að innheimta fullt vörugjald skv. 3. gr. laganna með 50% álagi sé bifreið notuð til annars en útleigu hjá þeirri bílaleigu sem skráð er fyrir bifreiðinni. Samkvæmt 14. gr. reglugerðarinnar er ekki heimilt að gera leigusamning við sama lögaðila til lengri tíma en 45 daga af sérhverju 100 daga tímabili nema bifreiðin sé tekin á leigu vegna ferðalaga starfsmanna hans og tekið sé fram í leigusamningi að hann sé gerður í þágu starfsmannsins. Það skilyrði er ekki uppfyllt í þessu máli. Brjóti aðili, sem nýtur lækkunar vörugjalds skv. 14. gr. gegn skilyrðum sem sett eru í ákvæðinu um nýtingu ökutækisins skal hann greiða ógreitt vörugjald, sbr. 3. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 20. gr. reglugerðarinnar. Ákvörðun Tollstjóra um innheimtu ógreidds vörugjalds er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um greiðslu eftirgefins vörugjalds af bílaleigubifreiðum með fastnúmer X, Y, Z, Þ og Æ, dags. 27. janúar 2009, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum