Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2013

Höfnun umsóknar um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis fyrir vörubifreið

26.7.2013

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 3. maí 2013, hefur A, f.h. B, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um höfnun umsóknar um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis fyrir vörubifreið.

Kærandi krefst þess að fallist verði á umsókn og að flutningsskírteini verði gefið út.

II. Málsmeðferð

Þann 26. febrúar 2013 sótti kærandi um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis vegna útflutnings vörubifreiðar af tegundinni M; framleiðslunúmer W, árgerð 2002. Ökutækið hafði þá þegar verið flutt úr landi þann 30. nóvember 2012 með sendingu nr. E DET 30 11 2 IS REY W052, skráður útflytjandi B. Ökutækið var flutt til landsins árið 2007 með sendingu nr. U NOR 06 02 7 DK HAN 0012 og fyrst skráð hjá Umferðarstofu þann 10. apríl 2007. Við innflutning fylgdi ökutækinu vörureikningur frá fyrirtækinu H í G sem ekki bar áritun um uppruna. Umsókn um útgáfu flutningsskírteinisins var hafnað á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir fullnægjandi gögn til útgáfu flutningsskírteinisins. Með bréfi dags. 3. maí 2013 var ákvörðun um höfnun útgáfu flutningsskírteinisins kærð og með kærunni lagt fram afrit af upprunalegu skráningarskírteini ökutækisins frá G auk yfirlýsingar frá M AG um uppruna innan Evrópusambandsins í samræmi við reglugerð ESB nr. 1207/2001. Engar formlegar upprunasannanir voru lagðar fram, s.s. yfirlýsing um uppruna á vörureikningi eða EUR.1- flutningsskírteini. Með tölvupósti, dags. 21. júní sl., var lagt fram umboð til handa A til kæru málsins. Þann 24. júní sl. voru gögn tengd innflutningsskýrslu frá árinu 2007 tekin til samanburðar. Við skoðun gagna kom í ljós að við innflutning lá hvorki fyrir EUR.1- flutningsskírteini né viðskiptagögn með áritun um EES-uppruna fyrir ökutækið.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur fylgigögn kæru nægjanleg til þess að hægt sé að gefa út EUR.1- flutningsskírteini á grundvelli þeirra.

IV. Niðurstöður

Tollstjóri annast útgáfu upprunaskírteina í samræmi við ákvæði fríverslunarsamninga, sbr. 40. gr. og 145. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þar af leiðir að meðferð umsóknar um útgáfu EUR.1- flutningsskírteinis skal haga í samræmi við ákvæði þess fríverslunarsamnings sem í hlut á hverju sinni.

Í fyrirliggjandi máli er farið fram á útgáfu upprunasönnunar fyrir EES-uppruna í samræmi við ákvæði samnings um evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Í bókun 4 við EES- samninginn er kveðið á um upprunareglur sem uppfylltar skulu til þess að vara geti hlotið fríðindameðferð við innflutning í eitt af aðildarlöndum samningsins, þ.á.m. reglur varðandi útgáfu upprunasannana.

Í 15. gr. bókunar 4 við EES-samninginn er kveðið á um að upprunavörur í skilningi bókunarinnar skuli njóta hags af ákvæðum samningsins gegn framvísun einnar af gildum upprunasönnunum, m.a. EUR.1-flutningsskírteini skv. a-lið 1. mgr. greinarinnar. Í 2. – 10. gr. bókunarinnar er kveðið á um þau skilyrði sem uppfyllt skulu til þess að vara geti talist upprunavara. Þegar farið er fram á fríðindameðferð skv. EES-samningnum er nauðsynlegt að upprunasönnun sé gefin út fyrir vöru sem EES-upprunavöru.

Í 1. mgr. 16. gr. bókunar 4 við EES-samninginn er kveðið á um að tollyfirvöld í útflutningslandi skulu gefa út EUR.1-flutningsskírteini hafi útflytjandi eða fulltrúi hans skilað inn skriflegri umsókn þar um. Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. skal útflytjandi, sem sækir um útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis vera reiðubúinn að leggja fram hvenær sem er öll tilheyrandi skjöl þar sem vottað er að viðkomandi framleiðsluvara sé upprunavara og að öllum öðrum kröfum, sem settar eru fram í bókuninni, sé fullnægt. Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. er tollyfirvöldum skylt að gera það sem þarf til að sannreyna að viðkomandi framleiðsluvörur séu upprunavörur. Samkvæmt 9. mgr. skal flutningsskírteini gefið út um leið og útflutningur hefur verið tryggður eða átt sér stað.

Í 17. gr. bókunar 4 við EES-samninginn kemur m.a. fram að í undantekningartilvikum sé heimilt að gefa út EUR.1-flutningsskírteini eftir að útflutningur hefur átt sér stað, að því tilskildu að það hafi ekki verið gefið út við útflutning vegna mistaka eða yfirsjóna eða sérstakra aðstæðna.

Í 28. gr. bókunar 4 við EES-samninginn er kveðið á um þau fylgiskjöl sem til staðar skulu vera til sönnunar þess að vara uppfylli skilyrði bókunarinnar um uppruna. Sem dæmi um fylgiskjöl er í d-lið nefnd EUR.1-flutningsskírteini eða sambærilegar upprunasannanir, sem sýna fram á upprunaeiginleika vörunnar í samræmi við bókunina, sem gefin eru út hjá öðrum samningsaðila.

Ágreiningur snýst um hvort framlögð fylgiskjöl uppfylli ofangreind skilyrði til útgáfu EUR.1- flutningsskírteinis. Þegar umsókn var lögð inn var ekki lagt fram EUR.1-flutningsskírteini eða viðskiptapappírar fyrir ökutækið með áritaða yfirlýsingu um EES-uppruna í samræmi við ákvæði 21. gr. bókunar 4 við EES-samninginn. Með kæru var lögð fram yfirlýsing framleiðanda ökutækisins, M AG, dags. 19. febrúar 2013 um að ökutækið uppfylli skilyrði sem upprunavara frá Evrópusambandinu eða Evrópubandalaginu (uppruni „EEC“ eða „EU“) og að það uppfylli skilyrði fríverslunarsamninga við þau ríki sem upp eru talin. Þessi yfirlýsing er gefin út í samræmi við reglugerð ESB nr. 1207/2001, sem ekki hefur verið sett í lög hér á landi. Á yfirlýsingunni kemur hins vegar ekki fram að um EES-vöru sé að ræða. Þar sem ekki er lagður tollur á ökutæki eins og það sem hér um ræðir við innflutning til Íslands hefur þetta ekki áhrif á innflutning til Íslands. Hins vegar eru vörur sem fluttar eru út af tollsvæði Evrópusambandsins sem Evrópusambandsvara tollskyldar ef þær eru fluttar inn á svæðið að nýju. Þar sem ökutækið var ekki flutt til landsins sem EES-vara er Tollstjóra óheimilt að gefa út EUR.1-flutningsskírteini sem vottar EES-uppruna henni til handa, enda er það skilyrði að við útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis við endurútflutning liggi fyrir formleg upprunasönnun sem uppfyllir öll ofangreind skilyrði og sýnir fram á EES-uppruna þeirrar vöru sem í hlut á. Einungis er heimilt að byggja EUR.1-flutningsskírteini fyrir EES-uppruna fyrir vöru sem áður hefur verið flutt til landsins á fyrri upprunasönnun fyrir EES-uppruna. Þar af leiðandi hefur embætti Tollstjóra ekki heimild til að fallast á kröfu kæranda um útgáfu umsótts EUR.1-flutningsskírteinis.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á útgáfu EUR.1-flutningsskírteinis vegna ökutækis af tegundinni M; framleiðslunúmer W, árgerð 2002, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum