Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2017

Tollflokkun á ökutæki (T3 hjóli) af gerðinni Sportsman X2 570 EPS Tractor

4.5.2017

Reifun

Kærandi flutti inn ökutæki af gerðinni Sportsman X2 570 EPS Tractor og fór þess á leit að ökutækið yrði flokkað í tollskrárnúmer 8701.2021. Byggði kærandi mál sitt á því að ökutækið væri framleitt sem traktor og skráð sem dráttarvél í ökutækjaskrá.

Niðurstaða: Tollstjóri vísaði til reglu sem til er komin frá Evrópusambandinu og var staðfest í úrskurði ríkistollanefndar nr. 9/2012. Reglan miðar við það að til þess að ökutæki teljist vera dráttarvél þurfi tækið að geta dregið tvöfalda eigin þyngd. Ökutæki kæranda uppfyllti ekki þetta skilyrði og var því tækið flokkað í tollskrárnúmer 8703.2111, sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 13. mars sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. mars 2017, um tollflokkun á ökutæki með fastanúmerið X, en ökutækið hafði Tollstjóri flokkað í tollskrárnúmerið 8703.2111 sem fjórhjól í vörulið 8703, en vöruliðurinn tekur til bifreiða og annarra vélknúinna ökutækja sem aðallega eru gerð til mannflutninga.

Kærandi óskar eftir því að ökutækið verði flokkað í tollskrárnúmerið 8701.2021, en númerið tekur til nýrra dráttarbifreiða fyrir festivagna að heildarþyngd 5 tonn eða minna.

II. Málsmeðferð

Þann 30. janúar 2017 flutti kærandi inn ökutæki af gerðinni Sportsman X2 570 EPS Tractor (T3b) með sendingarnúmerinu E. Mistök voru gerð við upphaflega tollafgreiðslu ökutækisins þann 1. febrúar og lagði kærandi því inn afgreiðslu 2 þann 24. febrúar sl. þar sem kærandi flokkaði ökutækið í tollskrárnúmer 8701.2021.

Þann 2. mars hafnaði Tollstjóri flokkun ökutækisins í umrætt tollskrárnúmer og taldi það eiga að flokkast í tollskrárnúmer 8703.2111. Var sú ákvörðun kærð þann 13. mars 2017.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir mál sitt á því að ekki sé um að ræða fjórhjól heldur sé ökutækið framleitt sem traktor. Vísar kærandi máli sínu til stuðnings til þess að ökutækið sé skráð í ökutækjaskrá í flokkinn dráttarvél III (T3) enda falli ökutækið undir reglugerð 822/2004 um T3 skráningu. Máli sínu til stuðnings leggur kærandi fram upprunavottorð ökutækis frá framleiðanda ásamt CoC (Certificate of Conformity) vottorði. Þá leggur kærandi fram sölureikning.

Að lokum vísar kærandi til þess að fordæmi séu fyrir skráningu á T3 hjólum í tollskrárnúmerið 8701.2021 og gefur upp sjö fastanúmer ökutækja sem kærandi telur að tollflokkuð hafi verið með umræddum hætti.

IV. Niðurstöður

Um er að ræða ökutæki af gerðinni Sportsman X2 570 EPS. Innflytjandi er þeirrar skoðunar að tollflokka beri ökutækið sem dráttarvél í tollskrárnúmer 8701.2021 en embætti Tollstjóra telur að tollflokka beri tækið í tollskrárnúmer 8703.2111. Til að greina á milli dráttarvéla í vörulið 8701 og annarra ökutækja er litið til þess hve mikil dráttargeta tækisins er. Sé dráttargeta tækisins meiri en tvöföld eigin þyngd þess telst tækið aðallega til dráttar en sé dráttargetan minni, flokkast ökutækið í annað tollskrárnúmer. Styðst þessi mælikvarði við framkvæmd Evrópusambandsins auk þess sem hann var staðfestur með úrskurði ríkistollanefndar nr. 9/2012. Umrætt tæki er, samkvæmt heimasíðu framleiðanda, 358 kg að eiginþyngd og dráttargetan er 555.7 kg. Af þessu leiðir að dráttargeta þess er minni en tvöföld eigin þyngd og getur tækið því ekki flokkast í vörulið 8701. Tækið ber að flokka í vörulið 8703 sem ökutæki aðallega til mannflutninga, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8703.2111 samkvæmt túlkunarreglum 1 og 6.

Kærandi tilgreinir í kæru nokkur fastanúmer ökutækja sem hann telur hafa verið tollflokkaðar sem dráttarvélar í tollskrárnúmeri 8701.2021. Tollstjóra er ekki heimilt að tjá sig um tollafgreiðslur ótengdra aðila, sbr. 188. gr. tollalaga nr. 88/2005. Aftur á móti vill embættið árétta að tollflokkanir á sambærilegum ökutækjum í ofangreint tollskrárnúmer teljist rangar og ítrekar að röng framkvæmd í einu máli réttlætir ekki áframhaldandi ranga framkvæmd í öðru. Hafi um ranga tollflokkun verið að ræða hefur Tollstjóri heimild til að endurákvarða gjöld skv. 111. gr. tollalaga.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun ökutækis með fastanúmerið X í tollskrárnúmerið 8703.2111 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992 um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum