Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 7/2019

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

6.12.2019

Reifun 

E kærði til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf. Um er að ræða sendingu sem barst hingað til lands frá lögaðila sem þakklætisvottur vegna vinnu kærða fyrir sendanda. Fór kærandi fram á endurgreiðslu gjalda. 

Niðurstaða: 

Um lagagrundvöll fer eftir a-lið 8.tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt nefndum ákvæðum skuli gjafir sendar sem sendar eru hingað til lands vera tollfrjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal skilyrða eru að um sé að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands og að gjöfin sé til handa einstakling vegna tilefnis í einkalífi viðkomandi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar. Niðurstaða Tollstjóra var sú að staðfesta ætti hina kærðu ákvörðun, þar sem samkvæmt aðflutningsskjölum og gögnum málsins mátti ráða að sendingin var send af lögaðila, en Tollstjóri hefur túlkað áðurgreind ákvæði á þann veg að að sendandi gjafar skuli vera einstaklingur búsettur erlendis. Þá kom fram í gögnum málsins að gjöfin var send kæranda sem þakklætisvottur fyrir unna vinnu, en slíkt telst ekki til tilefnis sem tengist einkalífi kæranda líkt og skilyrt er skv. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur 

Ú R S K U R Ð U R 

Kærandi: E 

Kæruefni: Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf 

I. Kæra 

Með tölvupósti dags. 1. nóvember 2019, hefur E, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 29. október 2019, um höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda á póstsendingu með viðtökunúmerið C. 

Kærandi fer fram á að fá álögð gjöld felld niður þar sem umrædd sending sé gjöf og undanþegin aðflutningsgjöldum á grundvelli a- liðar 8.tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. 

II. Málsmeðferð 

Þann 25. ágúst 2019 barst hingað til lands sending með viðtökunúmerið C. Kærandi greiddi tilskilin gjöld og fékk sendinguna afhenta þann 29. ágúst sama ár. Þann 24. september sendir kærandi tölvupóst til tollpóstsins og óskar eftir því að fá gjöldin sem greidd höfðu verið af umræddri sendingu endurgreidd, þar sem um sé að ræða gjöf. Starfsmaður Tollstjóra á tollpósti svaraði kæranda þann 25. september þar sem fram kom að þar sem sendingin var send frá fyrirtæki uppfylli hún ekki skilyrði sem sett eru fyrir tollfrelsi vegna gjafar. Þann 29. september sendir kærandi aftur póst þar sem hún kveðst ekki sátt við það svar. Daginn eftir fær kærandi svar frá starfsmanni tollpósts þar sem vísað er til úrskurðaframkvæmdar Tollstjóra í sambærilegum málum. Kæranda var þó gefið tækifæri á að sýna fram á kvittun um það hver væri greiðandi vörunnar, því ef greiðandi væri einstaklingur búsettur erlendis þá gæti komið til greina að sendingin uppfyllti skilyrði til gjaldfrelsis gjafa. Þann 1. október sendir kærandi gögn á tollpóstinn og fékk svar samdægurs um að ekki kæmi fram í téðum gögnum hver greiðandi sendingarinnar væri. Einhver samskipti áttu sér svo stað sem endaði með tölvupósti frá tollpósti dags. 29. október, þar sem fram kom að ákvörðun Tollstjóra um 1 að sendingin gæti ekki talist gjaldfrjáls væri staðfest og fylgdu með kæruleiðbeiningar skv. 117. gr. tollalaga. 

III. Meginröksemdir kæranda 

Kærandi leggur fram kvörtun vegna gjaldtöku af sendingu gjafar frá pólskum samtökum. Kærandi tekur fram að stofnunin sem sendir gjöfina sé rekin af tveimur mönnum og að annar þeirra hafi sent téða gjöf í þakklætisskyni fyrir hjálp kæranda í sumar. Samkvæmt kvittun sem fylgdi pakkanum kemur fram að verðmæti sendingarinnar er lægra en 13.500 kr. og að samkvæmt þeim reglum sem gilda um gjafir skuli hún því vera gjaldfrjáls. 

Gjaldtaka vegna sendingarinnar hafi verið 3.240 kr. og fer kærandi fram á að fá þessa fjárhæð endurgreidda. 

IV. Niðurstöður 

Deilt er um hvort að sending með viðtökunúmerið C uppfylli skilyrði fyrir tollfrelsi skv. a- lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008, eða beri almenna tollskyldu skv. 3. gr. tollalaga. Meginregla tollalaga kemur fram í 3. gr. laganna, en þar segir að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum. Tollfríðindi skv. 1. mgr. 6. gr. laganna og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 fela hins vegar í sér undantekningu frá meginreglunni um almenna tollskyldu. Allar undantekningar frá almennri gjaldskyldu bera að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undanþágu séu uppfyllt. 

Gjafir sem sendar eru hingað til lands eru tollfrjálsar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, þ.e. að um sé að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti, sbr. 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga. 

Af aðflutningsskjölum og gögnum málsins er ljóst að skráður sendandi vörunnar er M, sem er lögaðili. Í framkvæmd hefur a- liður 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ávallt verið túlkuð á þann veg að með orðalaginu aðili búsettur erlendis sé eingöngu átt við einstaklinga. Getur orðið búsettur ekki átt við um lögaðila, enda er frekar talað um aðsetur lögaðila fremur en búsetu. Þannig falla gjafir sem sendar eru frá lögaðila ekki undir áðurgreind ákvæði um tollfríðindi vegna gjafar af sérstöku tilefni. 

Þá er tekið fram í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 að til tækifærisgjafa sem hljóta tollfríðindameðferð teljast gjafir vegna tilefna sem tengjast einkalífi, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar. Af kærunni má ráða að tilefni umræddrar gjafar hafi verið að hún var send kæranda í þakklætisskyni vegna vinnu sem hún innti af hendi fyrir sendanda. Slíkt telst ekki vera vera tilefni sem tengja má einkalífi viðkomandi líkt og fram er tekið í áðurgreindu reglugerðarákvæði. Umrædd gjöf uppfyllir því ekki skilyrði um að um sérstakt tilefni í einkalífi viðtakanda sé að ræða. 

Með vísan til alls ofangreinds þá uppfyllir sending, með viðtökunúmerið C, ekki skilyrði sem sett eru fyrir undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda vegna tækifærisgjafar. 

ÚRSKURÐARORР

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna gjafar, skuli staðfest. 

Kæruréttur 

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992. 3

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum