Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2003.

Aðflutningsgjöld af bifreið af gerðinni Ford F-250 Crew Cab Lariat, King Ranch, árgerð 2003

10.10.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, þar sem kærð er sú ákvörðun embættisins að hafna við tollafgreiðslu, vörureikningi sem lagður var fram vegna tollafgreiðslu á bifreið sem flutt var til landsins frá Kanada fyrr á árinu með sendingu númer Y, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987.

Umrædd bifreið er af gerðinni Ford F-250 Crew Cab Lariak, King Ranch, árgerð 2003. Íslenskt skráningarnúmer X. Innkaupsverð samkvæmt framlögðum vörureikning er CDN 44.629,00.

Samkvæmt 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, er tollverð innfluttrar vöru hið svokallaða viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt fyrir vöruna. Í IV. kafla reglugerðarinnar er síðan mælt fyrir um hvernig tollverð vöru skuli ákveðið þegar viðskiptaverð verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar, sbr. 10-15. gr. reglugerðarinnar. Í V. kafla reglugerðarinnar er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækis af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt.

Í 18. gr. reglugerðar nr. 374/1995 er kveðið á um, að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum. Var það gert með bréfi tollstjóra dags. 2. júlí 2003.

Embættinu barst svar ódags. við framangreindu bréfi, þar sem innflytjandi gaf m.a. þær skýringar á lágu viðskiptaverði bifreiðarinnar að verð bifreiða sé 10-15% lægra í Kanada heldur en í Bandaríkjunum. Ekki var talið að mati embættisins að rök innflytjanda nægðu til að skýra hið lága viðskiptaverð bifreiðarinnar og var innflytjanda því tilkynnt með bréfi dags. 14. júlí 2003, að vörureikningi hefði verið hafnað og tollverð bifreiðarinnar ákvarðað, samkvæmt 20. gr. reglugerðar um tollverð og tollverðsákvörðun nr. 374/1995, ISK. 3.449.907,00.

Með bréfi dags. 10. september 2003 kærir innflytjandi til úrskurðar, ákvörðun embættisins um að hafna við tollafgreiðslu, reikningsverði bifreiðarinnar.

Kemur fram í því bréfi að innflytjandi telji að hann njóti ekki sömu kjara hjá embættinu og aðrir innflytjendur. Telur hann að brotin sé á sér jafnræðisregla stjórnsýslulaga, þar sem tollafgreiddar hafi verið sams konar bifreiðar, keyptar af sama aðila í Kanada á tollverði á bilinu CAD 43.500,00 til CAD 49.000,00, og tilgreinir hann þær sem bifreiðar með fastanúmerin A, B, C, D og E.

Tollstjóraembættið hafnar því að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin á innflytjanda á þeim forsendum að bifreiðarnar sem innflytjandi tilgreinir séu ekki sambærilegar umræddri bifreið með fastanúmerið X. Bifreiðin A er af gerðinni Ford F 150 og er þar af leiðandi ekki sambærileg umræddri bifreið sem er af gerðinni Ford F 250. Bifreiðin B, sem er af gerðinni Ford F 250, er ekki útbúin þeim aukabúnaði skv. skoðunarskýrslu embættisins þ.e. pallhúsi, leðuráklæði, sjálfskipting í stýri, samlæsingum, rafmagni í rúðum og sætum og geislaspilara sem bifreiðin X er búin. Bifreiðin C var tollafgreidd hjá öðru embætti, þ.e. hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði, en það sama á við um hana og bifreiðina B, hún er ekki útbúin þeim aukabúnaði er fylgir bifreiðinni X.

Þá segir í bréfi kæranda dags. 10. september að telji tollstjóri ástæðu til að ætla að innkaupsverð bifreiðarinnar sé ekki rétt á vörukaupareikningi þeim sem innflytjandi leggur fram, þá beri tollstjóra samkvæmt 17. gr. reglugerðar nr. 374/1995, að bera saman viðskiptaverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Þá beri tollstjóra að athuga hvort viðskiptaverð ökutækis þess sem um ræði sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt hefur verið til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis. Er því haldið fram í umræddu bréfi að tollstjóri hafi ekki farið eftir ákvæðum ofangreindrar reglugerðar við ákvörðun tollverðs.

Hér virðist gæta einhvers misskilnings á efni ákvæða reglugerðarinnar. Ákvæði V. kafla reglugerðarinnar þarf að lesa í samhengi til að rétt niðurstaða fáist. Í 17. gr. segir að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóri athugar síðan hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverðs sambærilegra ökutækja erlendis.

Þegar aðflutningsskýrslu er skilað inn til embættisins vegna innflutnings bifreiðar, er fyrsta verk tollstjóra að kanna skv. 17. gr. hvort viðskiptaverð bifreiðarinnar sé óeðlilega lágt miðað við markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis. Ef svo reynist vera, er framlögðum reikning hafnað og tollverð reiknað út skv. 20. og 21. gr. reglugerðarinnar. Þessi framkvæmd kemur skýrt í ljós í 18. gr. reglugerðarinnar sem segir að gefi eftirlit tollstjóra skv. 17. gr. réttmæta ástæðu til að draga í efa sannleiksgildi aðflutningsskýrslu eða fylgiskjala skuli tollstjóri krefja innflytjanda um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að viðskiptaverðið sé réttilega tilgreint í gögnum þessum. Það var gert eins og áður segir með bréfi tollstjóra dags. 2. júlí 2003.

Skv. 20. gr. skal tollverð innfluttra bifreiða vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og það er tilgreint í bifreiðaskrá ríkistollstjóra. Þar sem umrædd bifreið er ekki tilgreind í bifreiðaskrá, fékk tollstjóri upplýsingar um verð hjá viðkomandi aðila er hefur umboð fyrir viðkomandi bifreiðategund hér á landi, þ.e. Brimborg ehf. Er tollstjóra heimilt að leita til viðkomandi umboðs til að fá upplýsingar um verð innfluttra bifreiða, ef ekki er hægt að fá þær upplýsingar í bifreiðaskrá, á grundvelli 15. gr. reglugerðarinnar, en þar segir að ákvarða skuli tollverð innfluttrar vöru með rökréttum hætti, en bifreiðaskrá ríkisskattstjóra er byggð á upplýsingum er bifreiðaumboðin veita um bifreiðaverð.


ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar samkvæmt 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 að með vísan til þess sem að framan er rakið og á grundvelli reiknireglu 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995, að tollverð bifreiðarinnar Ford F 250, Crew Cab Lariat, King Ranch, árgerð 2003, með skráningarnúmerið X, skuli vera ISK. 3.449.907,00.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 10. október 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum