Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2004

Niðurfelling á gjöldum á veðurathugunartækjum sem notuð eru í alþjóða samstarfi

21.4.2004

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf A frá 11. mars sl. Í bréfinu er óskað eftir framlengingu á fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið varðandi niðurfellingu á virðisaukaskatti og aðflutningsgjöldum á búnaði og rekstrarvörum sem tengist rekstri á háloftaathugunarstöð um borð í skipum B. Litið er svo á að með fyrrgreindu bréfi A sé kærð sú ákvörðun embættisins sem tekin var í tollakerfi þess, þann 2. mars 2004, um höfnun niðurfellingar, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987 með síðari breytingum.

Málavextir eru á þann veg að A, hefur flutt inn gas á tollskrárnúmeri 2705.0000 í sendingu með sendingarnúmerið C. Erlendur seljandi er fyrirtækið D og á sendingunni hvílir virðisaukaskattur að upphæð kr. 38.855 miðað við tollgengi í apríl. A hefur óskað eftir því vera undanþegin greiðslu virðisaukaskattsins á sendingunni.

Máli sínu til stuðnings hefur A vísað til bréfs fjármálaráðuneytisins frá 17. október 1996. Þar ákvað ráðuneytið að framlengja heimild til niðurfellingar á aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti af rannsóknartækjum sem A fær send endurgjaldslaust erlendis frá, og komið verður fyrir um borð eða notuð í íslenskum skipum. Í þessu sambandi vísaði ráðuneytið til þágildandi ákvæða 19. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 og liðar 2.2. í 6. gr. fjárlaga ársins 1996. Ákvæði 19. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaganna var svohljóðandi: „[Ráðherra er heimilt]: ... 19. Að fella niður toll af vísindatækjum og vísindabúnaði sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum.”

Niðurfellingin hafði upphaflega verið veitt af ráðuneytinu með bréfi dags. 3. maí 1994. A hefur tjáð embættinu að með vísan til bréfsins frá 1996 hafi A rekið veðurathuganir á háloftaathugunarstöð um borð í einu skipa B í samstarfi við sænsku veðurstofuna.

Undanþágan frá greiðslu virðisaukaskatts og aðflutningsgjalda var hins vegar bundin ákveðnum skilyrðum í fyrrnefndu bréfi fjármálaráðuneytisins frá 17. október 1996. Í fyrsta lagi skyldi framvísa bréfinu sjálfu við tollafgreiðslu varanna og bréfið sjálft því í raun ígildi undanþágu. Í öðru lagi skyldi framvísa staðfestingu frá erlendum sendanda um að vörurnar væru afhentar án endurgjalds og loks skyldi fyrirsvarsmaður A árita á aðflutningsskýrslu að um rannsóknartæki væri að ræða sem sett yrðu um borð í íslensk skip.

Jafnframt var undanþágan, sem ráðuneytið veitti í bréfinu frá 1996, tímabundin og aðeins ætlað að gilda á meðan sambærilegar heimildir giltu og voru í 19. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og lið 2.2. í 6. gr. fjárlaga frá 1996. Ákvæði 19. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga var fellt brott með lögum um breytingu á lögum um álagningu gjalda á vörur, nr. 104/2000 sem tóku gildi 1. júlí árið 2000. Í núgildandi tollalögum er sambærilega heimild og var í 19. tl. 1. mgr. 6. gr. að finna í 9. tl. 1. mgr. 5. gr. sem er svohljóðandi:

[Auk þeirra vara sem tollfrjálsar eru samkvæmt beinum fyrirmælum í tollskrá skulu eftirfarandi vörur vera tollfrjálsar: ... 9. Vísindatæki og vísindabúnaður sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum.]

Um undanþágur frá aðflutningsgjöldum gildir nú einnig reglugerð nr. 797/2000 frá 30. október 2000. Reglugerðin er sett með stoð í 5., 6. og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með áorðnum breytingum, 2. mgr. 12. gr. laga nr. 97/1987 um vörugjald, með síðari breytingum, og 36. gr., sbr. 1. mgr. 49. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Í 1. gr. reglugerðar nr. 797/2000 segir að með aðflutningsgjöldum í reglugerðinni sé átt við tolla, svo og aðra skatta og gjöld sem greiða ber við tollmeðferð vöru, þ.m.t. virðisaukaskatt. Þá segir í 11. gr.:

„Vísindatæki og vísindabúnaður sem íslenskar vísindastofnanir eða vísindastofnanir sem Ísland er aðili að kaupa fyrir styrki eða eiga kost á endurgjaldslaust frá erlendum aðilum skulu undanþegnar aðflutningsgjöldum.“ Síðan eru í 2. mgr. sömu greinar talin upp nánari skilyrði fyrir undanþágu.

Að mati embættisins hefur það lykilþýðingu varðandi skyldu A til greiðslu aðflutningsgjalda í þessu tilviki hvort sá búnaður og tæki sem A flytur inn til landsins teljist endurgjaldslaus í skilningi ofangreindra laga- og reglugerðarákvæða. Komið hefur fram í fyrri samskiptum A við embættið að umrædd vara hafi ekki verið flutt til landsins endurgjaldslaust. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem leiða líkum að því að um endurgjaldslausan innflutning hafi verið að ræða. Breytir hér engu um hvort íslenska og sænska veðurstofan hafi gert með sér samkomulag um uppgjör á verði varanna sín á milli eftir tollafgreiðslu þeirra. Að mati embættisins er því engin heimild í lögum eða reglugerð nr. 797/2000 til að undanþiggja umrædda sendingu C frá greiðslu þeirra aðflutningsgjalda sem á henni hvíla. Í þessu sambandi er einnig rétt að geta þess að reglur um undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda eru undantekningarreglur frá þeirri meginreglu sem kemur fram í 2. gr. tollalaga um að hver sá sem flytur vöru til landsins sé tollskyldur og venja er að skýra undantekningarreglur þröngt.

A hefur einnig sótt um undanþágu á grundvelli þess að 7. tl. 1. mgr. 6. gr. núgildandi tollalaga taki til tilviksins, en 6. gr. tollalaga mælir fyrir um niðurfellingu, lækkun og endurgreiðslu tolls í ákveðnum tilvikum. Í 7. tl. segir að tollur skuli lækka, falla niður eða endurgreiðast af vélum, tækjum, rafmagnsvörum og öðrum fylgihlutum sem ætlaðir eru til nota í flugvélum og skipum. Á sendingunni sem um ræðir hvílir einungis virðisaukaskattur og enginn tollur. Í 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum, er að finna ákvæði um hvaða vörur skuli undanþegnar virðisaukaskatti við innflutning. Þar segir í 1. mgr. að vörur sem eru tollfrjálsar eða undanþegnar tolli skv. 3. gr., 5. gr., og 2.-6. og 11. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, nr. 55/1987, með síðari breytingum, skuli undanþegnar virðisaukaskatti. Ekki er minnst á 7. tl. 1. mgr. 6. gr. og getur hann því ekki átt við í þessu tilviki að mati embættisins. Sökum þess að nú er í lögum hvergi að finna heimild til að undanþiggja umrædda greiðslu á virðisaukaskatti aðflutningsgjöldum telur embættið sér ekki stætt á öðru en að krefja um og innheimta umrædd gjöld.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun um greiðslu virðisaukaskatts af sendingu númer C skuli standa. Þess er hér með krafist að virðisaukaskatturinn, að fjárhæð kr. 38.855 miðað við tollgengi í apríl, verði greiddur. Að öðrum kosti verða frekari innheimtuaðgerðir hafnar með tilheyrandi kostnaði.

Úrskurðurinn er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík, sbr. ákvæði 1.-3. mgr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, og er kærufrestur 60 dagar, talið frá póstlagningardegi bréfs þessa.

Reykjavík, 21. apríl 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum