Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2012

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf

23.2.2012

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 6. febrúar 2012, hefur L kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 13. desember 2011, um höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf til S.

Kærandi krefst þess að virðisaukaskattur verði endurgreiddur í samræmi við umsókn.

II. Málsmeðferð

Þann 7. desember 2011 sótti kærandi um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna gjafar á baðhjólastól til S. Umsókn um endurgreiðslu var hafnað með bréfi embættis Tollstjóra, dags.

13. desember 2011. Ákvörðun um höfnun byggði á því að gjafþegi uppfyllti ekki skilyrði um að vera mannúðar- eða líknarstofnun. Ákvörðun um höfnun umsóknarinnar var kærð með bréfi kæranda dags. 6. febrúar 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Samkvæmt 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um gjafir til mannúðar- og líknarmála er búnaður sem gefin er til sjúkra-, umönnunar og meðferðarstofnana og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi undanþegnar aðflutningsgjöldum. Kærandi heldur því fram að starfsemi S feli í sér alla fyrrgreinda starfsemi og líkja megi framlagi íþróttarmiðstöðvar G við framlag endurhæfingarstöðvar í Hveragerði og meðferðarstofnunar á Kristnesi til mannúðar- og líknarmála. Þá heldur kærandi því fram að S hafi sérstaklega verið hönnuð með aðgengi fatlaðra í huga og beri að geta þess að S hefur verið verðlaunuð fyrir starf sitt og sérlega þjónustu fyrir fatlaða og þroskahamlaða.

Kærandi mótmælir harðlega að endurgreiðslu gjalda vegna baðhjólastóls skuli vera hafnað á þeim forsendum að hann muni ekki fara til aðila sem standa ekki fast að sjúkra-, umönnunar- og líknarmálum.

IV. Niðurstöður

Endurgreiða skal virðisaukaskatt af búnaði sem mannúðar- eða líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrktarfé, enda er um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi, sbr. 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessu ákvæði er bundið sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b- lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ljóst er af framangreindu að löggjafinn hefur gert það að grundvallarskilyrði fyrir endurgreiðslu að umræddar gjafir skuli vera nýttar með beinum hætti til mannúðar- eða líknarstarfsemi, sbr. úrskurð fjármálaráðuneytisins frá 28. nóvember 2005.

Nánari skilyrði fyrir endurgreiðslu koma fram í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar segir að tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar séu til nota í starfsemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana, og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnarfélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, séu undanþegnar aðflutningsgjöldum. Af þessu má ráða að skilyrði endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt er að þiggjandi gjafar sé mannúðar- eða líknarstofnun í skilningi 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Greiða skal virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru og þjónustu, sbr. 1. gr. laga um virðisaukaskatt. Hér er því um að ræða undanþágu frá skattskyldu sem ber að skýra þröngt samkvæmt viðteknum lögskýringarreglum þar um. Samkvæmt skýru orðalagi undanþáguákvæðis 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er undanþágan bundin við að viðkomandi tæki og búnaður sé ætlaður til nota í starfsemi á stöðum sem ætluð eru fyrir fatlaða eða aldraða. Þegar tekin er afstaða til undanþágu gjalda er því ekki nægilegt að líta eingöngu á tækin eða búnaðinn sem slíkan heldur hvar hann er ætlaður til afnota.

Þegar af þeirri ástæðu fellur búnaður kæranda utan undanþáguheimildar virðisaukaskattslaga, sbr. úrskurð Ríkistollanefndar í máli nr. 8/2010.

Stofnanir og félög sem talin eru upp í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 eiga það sameiginlegt að stafsemi þeirra snýr að aðhlynningu eða aðstoð við vistmenn eða þá sem þangað leita. Starfsemi íþróttamiðstöðva og sundlauga er í eðli sínu ólík starfsemi þeirra stofnana og félaga sem talin eru upp í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Hér er hvorki um að ræða stofnun til meðferðar eða umönnunar né heldur dvalar- og vistheimili eða sambýli fyrir fatlaða eða stofnun í hliðstæðri starfsemi. Þá fellur starfsemi íþróttamiðstöðvar eða sundlaugar, sem ætluð er öllum almenningi til afnota, ekki undir aðra félagsstarfsemi sem tilgreind er í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. S getur þannig ekki talist vera mannúðar- eða líknarstofnun í skilningi ákvæðisins og eru því ekki fyrir hendi skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts skv. 6. mgr. 42. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, sbr. b- liður 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Tæki eða búnaður sem færður er sundlaug, líkt og hér um ræðir, getur því að mati embættis Tollstjóra ekki fallið undir undanþáguákvæði 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. b- lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008, ekki uppfyllt.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 13. desember 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum