Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2014

Tollflokkun rafals

6.11.2014

Reifun

M kærði tollflokkun á rafal sem flokkaður hafði verið í 8511.5000. Kærandi taldi rafalinn frekar eiga undir tollskrárnúmer 8501.6100 þar sem rafallinn væri eingöngu ætlaður bátavélum. Því til stuðnings væru allar tengingar fljótandi tveggja póla. Þá hafi rafallinn jafnfram verið tilgreindur í því númeri á vörureikningi frá birgja.

Niðurstöður: Tollstjóri féllst ekki á að fokka rafalinn í vörulið 8501 þar sem þar flokkast rafalar sem tengjast ekki brunahreyfli. Umræddur rafall var aftur á móti rafall sem tengdist brunahreyfli í bát. Vísaði tollstjóri til túlkunarreglna 1 og 3.a og athugasemd 2 við kafla 85, en í athugasemdinni kom fram að í vörulið 8501 flokkist ekki vörur sem lýst er í vörulið 8511. Vöruliður 8511 tæki m.a. til rafræsibúnaðar fyrir brunahreyfla og rafala fyrir slíka hreyfla og skipti ekki máli í hvaða tæki hreyfillinn væri ætlaður. Var ákvörðun Tollstjóra því staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 2. október 2014 hefur A ehf. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 tollflokkun Tollstjóra á rafal sem fluttur var inn á sendingarnúmerinu X. Kærandi krefst þess að tollflokkun umrædds rafals verði endurskoðuð.

II. Málsmeðferð

Kærandi flutti sem fyrr segir til landsins rafal á sendingarnúmeri X sem flokkaður var í tollskrárnúmer 8511.5000. Var kærandi ósammála þeirri tollflokkun og taldi hann eiga að flokkast í tollskrárnúmer 8501.6100. Var kæranda bent á kæruleið skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kæra vegna tollflokkunar barst Tollstjóra með tölvupósti þann 2. október 2014 og fylgdu kæru ýmis gögn og ljósmyndir af umræddum rafal.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir mál sitt á því að um sé að ræða rafal sem breyti riðstraumi í jafnstraum fyrir bátavélar. Af þeim sökum ætti að tollflokka hann í 8501.6100, sem riðstraumsrafal með 75 kVA útafli eða minna. Kærandi bendir á að rafallinn sé eingöngu ætlaður bátavélum enda séu allar tengingar fljótandi tveggja póla.

Þá bendir kærandi jafnframt á að á vörureikningi frá birgja sé tollflokkur einnig tilgreindur 8501.6100. Kærandi tekur fram að fyrirtækið sé sölufyrirtæki sem flytji inn vélbúnað fyrir skip og báta og varahluti tengda þeim. Fyrirtækið sjái þannig um að koma ýmsum íhlutum í vélar fyrir afhendingu til kaupenda, t.d. bátasmiðja og útgerðarmanna. Um sé að ræða hluti,

s.s. gíra, dælur og rafala, sem notaðir séu til að framleiða rafmagn fyrir báta og skip. Þá tekur kærandi fram að allt sé þetta úttektarskylt hjá Samgöngustofu.

IV. Niðurstöður

Í máli þessu greinir aðila á um í hvaða tollflokk rafall sá sem kærandi flutti inn skuli flokkast. Rafalar geta flokkast í tvo vöruliði í tollskrá, nánar til tekið í vörulið 8501 og vörulið 8511. Innflytjandi og söluaðili eru á þeirri skoðun að varan flokkist í vörulið 8501 en á það verður ekki fallist þar sem þar flokkast rafalar sem tengjast ekki brunahreyfli. Umrædd vara er aftur á móti rafall sem tengist brunahreyfli í bát, en það má sjá á mynd af rafalinum sem er hluti af fylgigögnum kæru. Slík vara flokkast í vörulið 8511 með vísan í túlkunarreglur 1 og 3.a og athugasemd 2 við kafla 85. Almennar túlkunarreglur tollskrár eru reglur sem farið er eftir þegar vörur eru flokkaðar samkvæmt tollskrá. Túlkunarregla 1 kveður m.a. á um að við tollflokkun skuli byggja á orðalagi vöruliða. Túlkunarregla 3.a kveður m.a. á um að sá vöruliður sem er með nákvæmustu lýsingu á vörunni skuli tekinn fram yfir aðra vöruliði. Athugasemd 2 við kafla 85 segir m.a. að í vörulið 8501 flokkist ekki vörur sem lýst er í vörulið 8511. Vöruliður 8511 tekur m.a. til rafræsibúnaðar fyrir brunahreyfla og rafala til notkunar við slíka hreyfla og skiptir þá ekki máli í hvaða tæki slíkir hreyflar fara. Þannig hefur það ekki áhrif á niðurstöðu málsins að rafallinn sem um ræðir sé ætlaður fyrir bátavélar. Að öllu ofangreindu virtu verður að flokka rafalinn í 8511.5000.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, 105 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum