Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 8/2016

Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur Ford Transit bifreiðum

26.9.2016

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu. Kærandi óskaði eftir því að aðflutningsskýrslur yrðu leiðréttar til lækkunar gjalda þar sem bifreiðunum hafði verið breytt eftir innflutning.

Niðurstaða: Heimild til leiðréttingar á aðflutningsskýrslu skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 á við þegar tollafgreiðsla hefur verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum. Ákvæðið á hins vegar ekki við í máli kæranda þar sem bifreiðarnar voru réttilega tollafgreiddar miðað við ástand þeirra við komu til landsins. Í 1. mgr. 9. gr. laga um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 er fjallað um breytingu á ökutæki sem verður til þess að það flokkast í hærri gjaldaflokk en við upphaflega skráningu. Í slíkum tilvikum ber skráðum eiganda að greiða viðbótarvörugjald ef breytingin er gerð innan fimm ára frá upphaflegum skráningardegi. Ekki er að finna sambærilega heimild til lækkunar vörugjalda eftir breytingu og telur Tollstjóri sér ekki heimilt að lögjafna frá fyrrnefndu ákvæði um hækkun gjalda á þann hátt að sama gildi um breytingu sem verður til þess að ökutæki falli í lægri gjaldflokk. Var ákvörðun Tollstjóra um höfnun leiðréttingar vegna tollafgreiðslu bifreiðanna staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 25. ágúst sl., hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur Ford Transit bifreiðum.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 26. júlí 2016 flutti kærandi inn bifreið að gerðinni Ford Transit á sendingarnúmerinu X. Þar að auki flutti hann inn tvær bifreiðar sömu gerðar þann 2. ágúst á sendingarnúmerunum Y og Z.

Bifreiðarnar voru flokkaðar annars vegar í tollskrárnúmer 8703.3234 og hins vegar í tollskrárnúmer 8704.2199 á tollskýrslum. Starfsmaður Tollstjóra gerði athugasemd við skýrslurnar vegna rangra tollskrárnúmera en hann taldi rétt númer vera 8703.3240. Var tollskrárnúmerunum þá breytt á skýrslunum og voru gjöld álögð og skuldfærð samkvæmt því.

Kærandi gerði breytingar á bifreiðunum og sendi í kjölfarið tvær tollskýrslur af þremur aftur til Tollstjóra til leiðréttingar þar sem óskað var eftir breytingum á tollskrárnúmerum til lækkunar vörugjalda með tilliti til þeirra breytinga sem gerðar höfðu verið. Því var hafnað af Tollstjóra þann 22. ágúst 2016.

Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á bifreiðunum var kærð með tölvupósti þann 25. ágúst 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi vísar til þess að fyrir mistök hafi starfsmaður hans forskráð bifreiðarnar hjá Samgöngustofu sem fimm sæta í stað þriggja sæta en ætlunin hafi verið frá upphafi að taka aftari sætisbekk úr bifreiðinni og nýta bifreiðina sem sendibifreið fyrir tækjaleigu. Þá hafi tollmiðlari leiðrétt skýrslurnar samkvæmt athugasemd starfsmanns Tollstjóra og gjöld hafi verið skuldfærð sjálfkrafa eftir leiðréttinguna. Það hafi verið gert án vitundar kæranda og kveðst hann aldrei myndi hafa samþykkt að afgreiða bifreiðarnar samkvæmt umræddu tollskrárnúmeri en ódýrara hefði verið að senda þær til aðvinnslu erlendis þar sem bekkirnir hefðu verið fjarlægðir og bifreiðarnar svo fluttar aftur til landsins og tollafgreiddar sem sendibifreiðar.

Þá bendir kærandi á að hann hafi haft samband við starfsmann Tollstjóra sem hafi verið honum sammála varðandi möguleika á leiðréttingu á tollskýrslum til lækkunar gjalda eftir að bifreiðunum yrði breytt. Í kæru kemur fram að starfsmaðurinn hafi reynt að ná í kæranda til að láta vita að líklega gengi þetta ekki upp en kærandi hafi þá verið utan þjónustusvæðis í ferðalagi og ekki hafi náðst í hann. Bifreiðarnar hafi verið í breytingu í hálfan mánuð með tilheyrandi kostnaði en sætisbekkur var fjarlægður úr farþegarými bifreiðanna með það í huga að hægt væri að tollafgreiða þær sem sendibifreiðar í stað fólksbifreiða. Skráningu bifreiðanna hafi jafnframt verið breytt hjá Samgöngustofu og þær séu nú skráðar sem sendibifreiðar.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur Ford Transit bifreiðum.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur málsins snýst um það hvort heimilt sé að leiðrétta tollskrárnúmer á tveimur aðflutningsskýrslum kæranda, sbr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005, til lækkunar gjalda þar sem bifreiðunum hefur nú verið breytt.

Um leiðréttingar á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu er fjallað í 116. gr. tollalaga. Kveðið er á um að verði innflytjandi þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi skuli hann leggja fram beiðni hjá Tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar, sbr. 1. mgr. 116. gr. tollalaga. Í þessu felst heimild fyrir innflytjanda til að fá tollafgreiðslu leiðrétta sýni hann fram á að afgreiðslan hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og er m.a. heimild til að óska eftir breyttri tollflokkun vörunnar eigi þessar forsendur við. Mál kæranda er öðruvísi vaxið og getur ekki fallið undir 116. gr. tollalaga enda voru forsendur fyrir upphaflegri tollafgreiðslu bifreiðanna réttar. Vara skal tollafgreiðast í því ástandi sem hún er í við innflutning og er ekki að finna heimild í tollalögum til aðvinnslu vöru eftir tollafgreiðslu og leiðréttingar á tollafgreiðslu í samræmi við þá aðvinnslu.

Ljóst er að greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987 o.fl. skv. 1. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Samkvæmt 19. gr. laganna er gjaldstofn vörugjalds á innfluttum vörum, tollverð þeirra eins og það er ákveðið skv. 5. kafla tollalaga, að viðbættum gjöldum eins og þau eru ákveðin samkvæmt þeim lögum. Þá kemur fram í 21. gr. laga um vörugjöld af ökutækjum, eldsneyti o.fl. að gjaldstofn ökutækis sem breytt hefur verið eða unnið hefur verið að, sbr. 8. og 9. gr. skuli vera verðmæti ökutækis eftir breytingu eða aðvinnslu.

Í 1. mgr. 9. gr. laganna er fjallað um breytingar á ökutækjum sem verða til þess að ökutækin flokkast í hærri gjaldflokk. Í ákvæðinu segir að ef ökutæki, sem skráð hefur verið samkvæmt umferðarlögum, sé breytt þannig að það flokkist í hærri gjaldflokk en við upphaflega skráningu skuli skráður eigandi þess greiða viðbótarvörugjald ef breytingin á sér stað innan fimm ára frá upphaflegum skráningardegi. Ekki er hins vegar að finna heimild í áðurgreindum lögum eða í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, til að endurgreiða mismun á vörugjaldi eftir aðvinnslu bifreiðar.

Af ofangreindu er ljóst að löggjafinn taldi sérstaka ástæðu til að kveða á um breytingu á vörugjaldi til hækkunar ef ökutæki skipta um gjaldflokk eftir breytingu. Tollstjóri telur sér ekki heimilt að lögjafna frá ákvæðinu á þann hátt að sama gildi um breytingu sem verður til þess að ökutæki falli í lægri gjaldflokk.

Þá hefur engin áhrif á tollflokkun hvort skráningu bifreiðanna hafi verið breytt hjá Samgöngustofu enda byggir sú skráning ekki á tollskrá sbr. afdráttarlaust ákvæði 1. mgr. 5. gr. tollalaga eins og fram kom í úrskurði Ríkistollanefndar nr. 2/2013.

Með vísan til alls ofangreinds og fyrri úrskurðar Tollstjóra nr. 14/2015 í sambærilegu máli er ljóst að engin heimild er til staðar til að fallast á beiðni kæranda um leiðréttingu á vörugjaldi til lækkunar vegna tollafgreiðslu á bifreiðunum eftir breytingu þeirra.

Tollstjóra þykir miður ef kærandi tók ákvörðun um að leggja í umræddar breytingar á bifreiðunum hér á landi í kjölfar samtals við starfsmann embættisins en bendir jafnframt á að í samtalinu var ekki gefin fullvissa um að gjaldabreytingar myndu ganga eftir og einnig að reynt var að ná í kæranda um leið og ljóst var að ekki væri heimild til staðar fyrir umræddri breytingu á gjaldflokkum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur Ford Transit sendibifreiðum stendur.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum