Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2003.

Aðflutningsgjöld af bifreiðinni X, sem er af gerðinni Volvo V70, framleiðsluár 2002, fyrst skráður 2003.

29.10.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, dags. 30. september 2003 , þar sem þess er krafist að fylgt verði forúrskurði embættisins, dags. 06.08.2003 við álagningu aðflutningsgjalda vegna innflutnings bifreiðarinnar X, er kom til landsins með sendingu númer Y, en um er að ræða bifreið af gerðinni Volvo V70, framleiðsluár 2002, fyrst skráður 2003.

Með vísan til framangreinds vill embættið taka fram að með útreikningi sínum, dags. 06.08.2003, var ekki verið að úrskurða um fjárhæð aðflutningsgjalda. Verið var að veita upplýsingar um væntanleg aðflutningsgjöld miðað við uppgefnar forsendur í bréfi fyrirspyrjanda. Tekið er skýrt fram í svari embættisins að upplýsingar um fjárhæð aðflutningsgjalda séu gefnar með fyrirvara. Verður að líta svo á að með bréfi yðar, dags. 30. september sl., sé verið að kæra álagningu aðflutningsgjalda, sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er fram fór 19. september sl. á grundvelli framlagðrar aðflutningsskýrslu og fylgigagna en aðflutningsskýrsla var lögð fram þ. 8. september sl.

Við innflutnings bifreiðarinnar þann 1. september sl. var yður veitt tímabundið akstursleyfi í einn mánuð sbr. heimild í reglugerð nr. 160/1990, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla. Var talið að heimild í 3. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 55/1987 tæki til innflytjanda, en þar segir að tollstjóri geti framlengt tímabundinn innflutning í samræmi við ákvæði 2. mgr. gegn greiðslu tolls sem nemur 1/60 hluta af tollverði viðkomandi ökutækis fyrir hvern byrjaðan mánuð sem leyfi er framlengt. Síðar kom í ljós að ekki er hægt að nýta framangreinda heimild í þessu tilviki þar sem umrædd bifreið er á bráðabirgðanúmeraplötum frá útflutningslandi.

Þar sem ökutækið var ekki flutt úr landi þegar hið tímabundna akstursleyfi rann út ber innflytjanda að greiða af því lögboðin aðflutningsgjöld, sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 160/1990, með síðari breytingum, um tímabundinn tollfrjálsan innflutning bifreiða og bifhjóla.

Skv. 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, er tollverð innfluttrar vöru, er aðflutningsgjöld eru reiknuð út frá, viðskiptaverð vörunnar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða á fyrir hana.

Segir í 3. gr. reglugerðarinnar að eftirtalið skulu innifalið í tollverði:

  1. Flutningskostnaður hinnar innfluttu vöru til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
  2. Gjöld fyrir fermingu, affermingu eða meðferð hinnar innfluttu vöru vegna flutnings þeirra til innflutningshafnar eða innflutningsstaðar.
  3. Vátryggingarkostnaður.

Við ákvörðun aðflutningsgjalda., þ. 19. september sl., var lagt til grundvallar það verð er innflytjandi greiddi fyrir bifreiðina eða DKK 205.160.- að viðbættum flutningskostnaði og vátryggingu.

Skýringin á mismuninum á þeirri fjárhæð er gefin var upp í tölvupósti dags. 6. ágúst sl. og endanlegri fjárhæð aðflutningsgjalda er sú, að þegar innflytjandi gaf upp kaupverð bifreiðarinnar í umræddum tölvupósti, gaf hann ekki upp greiddan virðisaukaskatt af bifreiðinni, heldur lægra kaupverð eða DKK.153.000,00 en ekki DKK. 205.160,00, eins og reikningur seljanda hljóðar upp á. Voru aðflutningsgjöldin í umræddum tölvupóst því reiknuð út frá því að kaupverð bifreiðarinnar væri DKK. 153.000,- eins og segir orðrétt í umræddum tölvupósti “miðað við að taka reikning að upphæð Dk. 153.000,- eru gjöldin um kr. 1.535.000,-“ Segir svo að þessi upphæð sé gefin með fyrirvara skv. gefnum upplýsingum.

Við útreikning aðflutningsgjalda af bifreiðinni X var lagt til grundvallar tollverð það er innflytjandi gaf upp á aðflutningsskýrslu, og er það í samræmi við reikning seljanda bifreiðarinnar og sundurliðast álögð aðflutningsgjöld eins og hér segir:

BA-gjald (úrvinnslugjald á blásýrurafgeyma) kr. 314,00
BS-gjald (úrvinnslugjald á hjólbarða með ökutækjum kr. 2.161,00
45% vörugjald kr. 1.128.935,00
24,5% virðisaukaskattur kr. 891.838,00

 

Samtals

 

kr.

 

2.023,248,00

Hafnar embættið því alfarið að leggja eigi útreikning þann er gefinn var upp í tölvupósti til grundvallar álagningu aðflutningsgjalda, þar sem útreikningurinn var einungis til leiðbeiningar og kemur það mjög skýrt fram að upplýsingar þær, er þar koma fram séu gefnar með fyrirvara.

ÚRSKURÐUR:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar samkvæmt 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem að framan er rakið, að aðflutningsgjöld bifreiðarinnar X, Volvo V70, sem flutt var til landsins með sendingu númer Y, skulu eigi lækkuð. Álögð aðflutningsgjöld eru því að fjárhæð ISK. 2.023.248,00 út frá tollverði bifreiðarinnar að fjárhæð ISK. 2.508.745,00.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

 

 

Reykjavík 29. október 2003.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum