Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2005

Höfnun á afgreiðslu hljómdisks skv. undanþágu

10.7.2005

Kæra lögmannsstofunnar f.h. Ríkisútvarpsins vegna afgreiðslu embættisins á hljómdiski sem ætluðu dagskrárefni. Embættið hafnaði því að afgreiða málið samkvæmt undanþágu í reglur nr. 479/1988, með hliðsjón af dreifibréfi Ríkistollstjóra frá 29.01.90.

Málavextir eru þeir að þann 12.05.05 barst umræddur hljómdiskur með pósti og var hann stílaður á Ríkisútvarpið, N, Efstaleiti 1, Reykjavík. Móttakandi fór þess á leit við starfsmenn embættisins að sendingin yrði afgreidd á svokölluðu E8 eyðublaði sem sýnishorn vegna dagskrárgerðar. Því var hafnað á grundvelli þess að um almenna verslunarvöru væri að ræða og ættu því ákvæði reglugerðar nr. 479/1988 ekki við í þessu tilfelli.

Í erindi lögmannsstofunnar er vísað til bréfs ríkistollstjóra frá 29.01.90 varðandi tollmeðferð dagskrárefnis samkvæmt reglur nr. 479/1988. Í þessu bréfi er skilgreint hvað sé átt við með tollfrjálsum sýnishornum efnis sem útvarps- og sjónvarpsstöðvum er sent þeim að kostnaðarlausu. Eins er skilgreint hvers konar dagskrárefni falli undir ákvæði nefndrar reglugerðar. Þar kemur fram að skilyrði fyrir slíkri tollafgreiðslu sé - “að viðkomandi efni sé sent samkvæmt samningi þar sem gert sé ráð fyrir afhendingu efnis til lengri tíma og/eða reikningsfærslu síðar vegna hverrar einstakrar sendingar eða sendinga á ákveðnu tímabili.”

Þá kemur fram á öðrum stað í bréfinu að undanþágur samkvæmt bréfinu gildi ekki um almenna verslunarvöru.

Umrædd vara er samkvæmt reikningi er embættið hefur undir höndum (nr. rxua50207) keypt gegnum netið frá amazon.co.uk. og greitt fyrir með kreditkorti (Mastercard). Því er ekkert sem bendir til annars í máli þessu að hér sé um að ræða kaup á vöru sem ekki nýtur tollfríðinda.

Úrskurður:

Synjað er tollafgreiðslu samkvæmt reglur nr. 479/1988 af hljómdiski þessum og hann skal tollafgreiddur sem almenn verslunarvara.

Úrskurð þennan er heimilt að kæra til fjármálaráðuneytisins, Arnarhváli, 150 Reykjavík, sbr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987. Kærufrestur er 60 dagar frá póstlagningardegi þessa bréfs. Kæra skal vera skrifleg, rökstudd og öll nauðsynleg gögn fylgi.

Reykjavík 10. júlí 2005

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum