Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2010

Synjun Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnu ökutæki sem flutt hefur verið úr landi

26.10.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2010, hefur B hrl. f.h. J, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 synjun Tollstjóra, dags. 8. janúar sl., um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutæki með fastnúmer X sem flutt var úr landi þann 13. maí 2009 með sendingu nr. U NOR 13 05 9 IS SEY T003.

Kærandi krefst þess að ofangreind ákvörðun um synjun endurgreiðslu verði felld úr gildi og endurgreiðsla heimiluð.

II. Málsmeðferð

Þann 13. maí 2009 flutti kærandi bifreið með fastnúmer X, af gerðinni BMW 7, til Noregs með ferjunni Norrænu. Númer sendingar var U NOR 13 05 9 IS SEY T003. Samdægurs sótti hann um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnu ökutæki sem flutt er úr landi á þar til gerðu eyðublaði. Tollverðir skoðuðu bifreiðina og gerðu enga athugasemd við ástand hennar. Með bréfi Tollstjóra, dags. 8. janúar 2010, var umsókn um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts, byggt á því að ökutækið hafði ekki verið afskráð hjá Umferðarstofu. Bifreiðin var afskráð þann 19. janúar 2010. Ákvörðun um höfnun var kærð með bréfi, dags. 18. febrúar 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um endurgreiðslu á því að ákvörðun Tollstjóra um höfnun hafi verið ólögmæt. Hann telur að ástæðu þess að ekki hafi tekist að afskrá bifreiðina innan viðeigandi tímamarka megi rekja til upplýsingaskorts, seinagangs og óvandaðra stjórnsýsluhátta Tollstjóra og telur málsmeðferð embættisins brjóta í bága við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda skv. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem starfsmenn hafi vanrækt að veita nauðsynlegar leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir við úrlausn máls. Slíkar leiðbeiningar eigi ekki aðeins að veita þegar málsaðili leitar eftir því heldur einnig þegar stjórnvaldi má vera ljóst að málsaðili þekki ekki reglurnar eða sé í villu um hverjar þær eru. Leiðbeiningarskylda hafi verið sérlega brýn, þar sem kærandi er af erlendu bergi brotinn. Hann hafi því verið lítið sem ekkert upplýstur um ákvæði eða skilyrði laga nr. 140/2008 um endurgreiðslu á vörugjaldi og virðisaukaskatti. Hann vísar einnig til álits Umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2510/1998 og telur að ljóst megi veri að stjórnvaldi beri að upplýsa málsaðila um fresti sem kunni að hafa í för með sér glötun eða skerðingu réttinda. Þá telur kærandi embætti Tollstjóra hafa brotið gegn málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaganna, þar sem ekki sé hægt að réttlæta að meðferð málsins hafi tekið átta mánuði.

IV. Niðurstöður

Með lögum nr. 140/2008 bættust ný ákvæði til bráðabirgða við lög um vörugjald af bifreiðum nr. 29/1993 og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Ákvæðin tóku gildi þann 15. desember 2008. Samkvæmt þeim er heimilt að endurgreiða vörugjald og virðisaukaskatt af vélknúnum ökutækjum sem flutt eru úr landi. Heimild til endurgreiðslu gjaldanna gilti til og með 31. desember 2009 og annaðist Tollstjórinn í Reykjavík, nú Tollstjóri, endurgreiðsluna. Í reglugerð nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutækjum sem flutt eru úr landi er að finna nánari útfærslu á bráðabirgðaákvæðunum. Ágreiningur í fyrirliggjandi máli snýst um hvort skilyrði laganna til endurgreiðslu séu uppfyllt.

Samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða er skilyrði endurgreiðslu að ökutækið hafi verið afskráð og flutt úr landi, sbr. einnig 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Í 2. tl. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að skilyrði fyrir endurgreiðslu sé að skráningarnúmer ökutækis skuli hafa verið afhent Umferðarstofu, ökutækið afskráð til nota hér á landi og fyrir liggi upplýsingar þar að lútandi við afgreiðslu umsóknar um endurgreiðslu hjá Tollstjóra. Reglan er því sú að bifreiðar skulu hafa verið afskráðar áður en þær voru sendar úr landi.

Í því máli sem hér liggur fyrir var bifreiðin flutt úr landi þann 13. maí 2009. Með bréfi, dags. 8. janúar 2010, hafnaði embætti Tollstjóra umsókn kæranda um endurgreiðslu virðisaukaskatts og vörugjalds. Bifreiðin var afskráð hjá Umferðarstofu þann 19. janúar 2010, eða ríflega átta mánuðum eftir að hún hafði verið flutt úr landi. Skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. fyrrgreindum ákvæðum til bráðabirgða og ákvæðum reglugerðar nr. 1144/2008 voru því ekki uppfyllt.

Ekki er hægt að fallast á það með kæranda að fella beri ofangreinda ákvörðun úr gildi þar sem upplýsinga- og leiðbeiningagjöf embættisins hafi verið ábótavant, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi fyllti út rafrænt eyðublað E-30, sem er umsókn um endurgreiðslu gjalda samkvæmt ofangreindum skilyrðum, en á eyðublaðinu og leiðbeiningum með því er að finna þau skilyrði sem uppfylla þarf til þess að njóta endurgreiðslunnar. Þar kemur skýrt fram það lögbundna skilyrði að afskrá skuli ökutækið.

Ekki er heldur hægt að fallast á það með kæranda að brotið hafi verið á málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga. Byggist það á því að umsækjandanum var veittur frestur til þess að skila inn gögnum vegna málsins, enda um ívilnandi ákvörðun að ræða. Tollverðir biðu lengi eftir að. Á þeim tíma sem leið á milli var málið reglulega tekið til skoðunar. Þar sem kæranda hafði verið leiðbeint um þau skilyrði sem uppfylla þurfti til að endurgreiðsla gæti átt sér stað þegar bifreiðin var tekin til skoðunar áður en hún var flutt úr landi með ferjunni Norrænu, þar á meðal að nauðsynlegt væri að bifreiðin væri afskráð til notkunar, var ekki talið nauðsynlegt að senda sérstaklega bréf til áminningar þar um, enda er það á ábyrgð kæranda að sjá til þess að hann uppfylli skilyrði þau sem farið er fram á til endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af ökutæki sem flutt er úr landi.

Ofangreindri umsókn um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts var því með réttu hafnað með vísan til ákvæðis nr. XI í lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. og ákvæði til bráðabirgða nr. XIII í lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Ákvörðun um höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreiðinni X er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar samkvæmt 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008 um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af vélknúnum ökutækjum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 8. janúar 2010, um synjun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds og virðisaukaskatts af bifreið með fastnúmer X sem flutt var úr landi þann 13. maí 2009 með sendingu nr. U NOR 13 05 9 IS SEY T003, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum