Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2011

Höfnun viðtöku EUR 1 skírteinis gefnu út eftir tollmeðferð sendingar

29.6.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 23. desember 2010, hefur V, farið þess á leit við embætti Tollstjóra að álagning aðflutningsgjalda vegna sendingar með sendingarnúmer E BRU 22 11 0 NL RTM W526 verði endurskoðuð með tilliti til EUR 1 upprunasönnunar sem lögð var fram eftir tollmeðferð sendingarinnar. Um er að ræða kæru í skilningi 117. gr. tollalaga nr. 88/2005. Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra verði tekin til endurskoðunar.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Varan barst til landsins þann 22. nóvember 2010 með sendingu með sendingarnúmer E BRU 22 11 0 NL RTM W526 frá Hollandi. Um var að ræða fimm bretti af varahlutum í bifreiðar. Við tollafgreiðslu þann 24. nóvember sama ár lá ekki fyrir EUR 1 flutningsskírteini. Þar sem ekki lágu fyrir nauðsynleg gögn um uppruna vörunnar voru lögð á hana aðflutningsgjöld. Þann 7. desember 2010 barst tollayfirvöldum EUR 1 skírteini fyrir vörunni, útgefið 2. desember sama ár. Tollstjóri hafnaði beiðni innflytjanda um leiðréttingu 14. desember 2010 þar sem varan hafði þegar verið tollafgreidd og afhent og þar með væri ómögulegt að framkvæma vöruskoðun líkt og nauðsynlegt er í slíkum tilfellum.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að mistök af hálfu sendanda varanna hafi valdið því að EUR 1 flutningsskírteini fylgdi ekki sendingunni strax í upphafi. Strax og upp komst um mistökin hafi upprunasönnun verið útveguð og hún lögð inn hjá Tollstjóra.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. tollalaga nr. 88/2005 ber innflytjandi ábyrgð á því að aðflutningsskýrsla og þær upplýsingar sem koma þar fram séu réttar. Meginreglan er því sú að innflytjandi beri hallann af rangri skýrslugjöf og að nauðsynlegar upplýsingar um uppruna vöru komi fram. Þegar aðflutningsskýrsla vegna ofangreindrar sendingar barst til Tollstjóra kom þar ekkert fram sem bent gat til þess að um upprunavöru væri að ræða og engin upprunasönnun fylgdi með skýrslunni. Á þessum mistökum ber innflytjandi ábyrgð.

Þegar möguleikar á leiðréttingu eftir tollmeðferð eru metnir verður að taka mið af því hvort þörf sé vöruskoðunar til að staðreyna réttmæti leiðréttingar og hvort að unnt sé að koma henni við. Vöruskoðun getur verið nauðsynleg til þess að staðreyna að um upprunavöru sé að ræða. Sú sending sem mál þetta varðar var tollafgreidd 24. nóvember 2010 en EUR 1 upprunaskírteini ásamt beiðni um endurskoðun aðflutningsgjalda barst embætti Tollstjóra ekki fyrr en 7. desember sama ár. Tollstjóra var þannig ekki unnt að staðreyna með vöruskoðun hvort að leiðrétting aðflutningsgjalda ætti rétt á sér, enda var búið að tollafgreiða sendinguna og innflytjandi hafði þegar fengið hana afhenta.

Af framansögðu er ljóst að ekki er hægt að taka beiðni innflytjanda um endurskoðun aðflutningsgjalda til greina hvað varðar þá sendingu sem mál þetta varðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem að framan er rakið, að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á vöru sem barst til landsins í sendingu með sendingarnúmer E BRU 22 11 0 NL RTM W526, dags. 24. nóvember 2010, skuli standa óröskuð.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum