Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2013

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af sölu í tollfrjálsa verslun

2.10.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2013 sem móttekið var þann 2. september sl., hefur S, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 22. ágúst 2013, um höfnun á beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af sölu í tollfrjálsa verslun.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 15. ágúst 2013 lagði kærandi fram beiðnir um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna sölu í tollfrjálsa verslun. Um var að ræða 8 sendingar sem fluttar voru inn á tímabilinu 17. nóvember 2011 – 3. maí 2012, með sendingarnúmerin F 503 17 11 1 NL AMS 2292, F 503 31 01 2 NL AMS 6749, F 775 04 12 1 BE LGG 3437, F 775 08 01 2 BE LGG 5418, F 775 08 01 2 BE LGG 5420, F 781 28 01 2 BE LGG 6561, F 783 03 05 2 BE LGG 2418 og F 783 08 03 2 BE LGG 9012.

Embætti Tollstjóra hafnaði beiðni um niðurfellingu gjalda af umbeðnum sendingum með vísan til 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, þar sem leggja þarf inn beiðni um niðurfellingu vegna sölu í tollfrjálsa verslun innan sex mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu vöru í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Beiðnir kæranda bárust eftir að ofangreindur frestur var liðinn. 

Kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar Tollstjóra barst embættinu þann 2. september 2013 með bréfi dags. 29. ágúst sama ár.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir á því að honum hafi ekki verið kunnugt um ákvæði 53. gr. reglugerðar 630/2008, um ýmis tollfríðindi, og að niðurfelling hafi áður verið framkvæmd þrátt fyrir að farið hafi verið út fyrir tímamörkin sem þar eru tilgreind. Hingað til hafi tollskýrslur, sem borist hafa Tollstjóra í bunkum vegna beiðni um niðurfellingu, verið afgreiddar án nokkurra vandkvæða. Kærandi kveður ástæðuna fyrir seinagangi á þessum umræddu skýrslum hafi verið sú að sölureikningar stimplaðir af Tollstjóra hafi borist starfsmönnum kæranda mjög seint og erfiðlega. Þá bendir kærandi á að upp hafi komið mál sem varði niðurfellingar vörugjalda af X sem varð til þess að starfsmenn kæranda urðu að fara í mikla vinnu við að setja allar þær tollskýrslur sem innihéldu X á tímabilinu 15.06.2012 til 31.12.2012 í afgreiðslu 2 með beiðni um niðurfellingu á vörugjöldum. Sú vinna hafi gengið fyrir og því hafi ofangreindar skýrslur setið á hakanum.

Kærandi fer fram á að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína vegna beiðna um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna sölu varnings í tollfrjálsa verslun.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 7. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna undantekningu á ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu skal tollur lækka, falla niður eða endurgreiðast af vörum sem tollafgreiddar hafa verið hingað til lands en eru síðar seldar ónotaðar til útlanda eða í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, Í 53. gr. reglugerðarinnar kemur fram að Tollstjóri skuli fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld af innfluttri, ónotaðri vöru sem er seld til útlanda, í tollfrjálsa verslun, í tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði, innan árs frá komudegi flutningsfars til landsins. Sama gildir um ótollafgreidda vöru, sem send er ónotuð til útlanda. Beiðni um undanþágu skal látin Tollstjóra í té innan 6 mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu hennar í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Þá segir ennfremur að nauðsynleg gögn skulu liggja til grundvallar beiðni, s.s. staðfesting Tollstjóra á sölureikning, staðfesting þess að tollskoðun vöru hafi farið fram, kvittun fyrir greiðslu aðflutningsgjalda af vörunni og viðeigandi gögn til staðfestingar á útflutningi vörunnar, sbr. 2. mgr. 53. gr. reglugerðarinnar.

Beiðnir kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna ofangreindra sendinga bárust embætti Tollstjóra töluvert eftir að tilskilinn tímafrestur var liðinn. Í 2. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er skýrt kveðið á um að beiðni um niðurfellingu skv. 1. mgr. sömu greinar skuli berast Tollstjóra innan 6 mánaða frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu vöru í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði. Ekki er að finna undanþágu frá þeim tímafresti sem þar er gefinn.

Ekki er hægt að taka tillit til þeirrar röksemdar kæranda að honum hafi ekki verið kunnugt um áðurgreint ákvæði reglugerðar nr. 630/2008. Gera verður þá lágmarkskröfu til aðila sem sækja um niðurfellingu sem þessa að þeir þekki þær reglur sem gilda þar um. Þá er ekkert í gögnum málsins sem styður þær fullyrðingar kæranda að Tollstjóri hafi sent stimplaða sölureikninga seint frá sér, né heldur að Tollstjóri hafi samþykkt niðurfellingarbeiðnir í sambærilegum tilvikum. Þær skýringar kæranda að hann hafi verið að vinna að öðru og ótengdu máli á sama tíma og skila hefði þurft inn umræddum beiðnum hafa ekki nein áhrif á niðurstöðu þessa máls.

Með vísan til alls ofangreinds er ekki heimild til staðar til að fallast á beiðni kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna ofangreindra sendinga. Strangar kröfur eru gerðar um að skilyrði fyrir undanþágu greiðslu gjalda séu uppfyllt. Í 2. mgr. 53. gr. reglugerðar 630/2008 um ýmis tollfríðindi er skýrt kveðið á um 6 mánaða tímafrest frá brottför flutningsfars eða eftir atvikum sölu vöru í tollfrjálsa verslun, tollfrjálsa forðageymslu eða á frísvæði til að skila inn beiðni um niðurfellingar aðflutningsgjalda vegna ráðstöfunarvöru í tollfrjálsa verslun. Beiðnir kæranda bárust embætti Tollstjóra hins vegar talsvert eftir umræddan tímafrest. Er af þeim sökum ekki unnt að fallast á niðurfellingar aðflutningsgjalda af umræddum sendingum.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna sölu í fríhöfn, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum