Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 9/2014

Tollflokkun á díóðuljósabúnaði

7.11.2014

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á díóðuljósabúnaði. Kærandi krafðist þess að varan yrði flokkuð í samræmi við tæknilega eiginleika hennar. Kærandi byggði mál sitt á því að umræddur ljósabúnaður væri LED-ljósabúnaður, þ.e.a.s. díóðuljósabúnaður og að tollskrárnúmer 8541.4000 tæki til ljósnæmra hálfleiðara, þ.m.t. ljósgjafadíóða. Vísaði kærandi til túlkunarreglu 3.b máli sínu til stuðnings. Umræddar vörur væru ljósnæmir hálfleiðarar og díóður sem gæfu frá sér ljós. Því væri hugtökin „ljósgjafadíóða“ og „ljósnæmur hálfleiðari“ nákvæm lýsing á vöru kæranda.

Niðurstaða: Tollstjóri áréttaði að í tollskrárnúmer 8541.4000, sem kærandi vildi tollflokka vörurnar í, flokkuðust aðeins stakar díóður, en ekki búnaður sem innihéldi slíkar díóður. Vörur sem hefðu ljósgjafadíóður flokkuðust í það númer sem þau vanalega flokkuðust í, þrátt fyrir að innihalda díóður. Lampar sem nota ljósgjafadíóður eða LED perur flokkast ásamt öðrum lömpum sem ganga fyrir rafmagni í vörulið 9405. Tollskrárnúmer 9405.4009 er m.a. fyrir rafmagnslampa og ljósabúnað sem innihalda ljósgjafadíóður. Vöruliður 9405 felur í sér námkvæmari lýsingu en vöruliður 8541 þar sem hann lýsir ljósabúnaði en sá í 85. Kafla lýsir aðeins díóðunni sjálfri. Staðfesti Tollstjóri því fyrri ákvörðun sína.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 7. október sl., sem barst Tollstjóra 10. október sl. hefur B, f.h. kæranda, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á díóðuljósabúnaði sem barst með sendingarnúmeri X.

Kærandi gerir þá kröfu að ógilt verði tollflokkun á „LED high bay light“ sem tollflokkað var í vörulið nr. 9405.4009. Kærandi krefst þess að varan verði þess í stað tollflokkuð í samræmi við tæknilega eiginleika hennar.

II. Málsmeðferð

Þann 9. september 2014 var sending kæranda tollafgreidd. Kærandi var ósáttur við fjárhæð aðflutningsgjaldanna og ákvað því að kæra tollflokkun vörunnar. Meðfylgjandi kæru voru reikningur frá DHL dags. 9. september 2014 ásamt upplýsingum af heimasíðu kæranda um „LED high bay light.“

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir mál sitt á því að ljósabúnaður sá sem kærandi flutti inn sé LED-ljósabúnaður, þ.e.a.s. díóðuljósabúnaður. Kærandi bendir á að tollskrárnúmer 8541.4000 taki til ljósnæmra hálfleiðara, þ.m.t. ljósrafhlaða, einnig í samsettum einingum eða á töflum og ljósgjafadíóða. Tollskrárnúmer 9405.4009, sem varan hafi verið flokkuð í, taki hinsvegar aðeins til „Annað, Hlutar: Úr gleri.“ Vísar kærandi til túlkunarreglu 3-b-lið tollskrárinnar sem segir að telja skuli vörur til þess vöruliðar sem feli í sér sem nákvæmasta lýsingu á vörunni. Þá séu fyrirsagnir á flokkum aðeins til leiðbeiningar í þeim efnum, sbr. túlkunarreglu 1.

Vara sú sem kærandi flutti inn er samkvæmt kæranda ljósnæmur hálfleiðari og díóða sem gefur frá sér ljós. Því séu hugtökin „ljósgjafadíóða“ og ljósnæmur hálfleiðari“ nákvæm lýsing á vöru kæranda. Bendir kærandi á að mögulega gæti búnaðurinn átt undir fyrirsögn vöruliðar 9405.4009, en aftur á móti komi túlkunarreglur 1 og 3 b í veg fyrir það. Kærandi segir tollskrárnúmer 8541.4000 lýsa með nákvæmasta hætti vöru kæranda. Nái lýsing þess vöruliðar yfir þá tæknilegu eiginleika sem varan hafi. Tollskrárnúmer 9405.4009 feli ekki í sér lýsingu á vöru kæranda eða þeim eiginleikum sem hún búi yfir. Um sé að ræða tollskrárnúmer með mjög almenna og lítt afmarkaða lýsingu.

IV. Niðurstöður

Um er að ræða ljósabúnað sem kallaður er á reikningi „LED high bay light“ Kærandi vill tollflokka búnaðinn í tollskrárnúmer 8541.4000 þar sem ljósgjafadíóður flokkast. Í það tollskrárnúmer flokkast hins vegar aðeins stakar díóður en ekki búnaður sem inniheldur slíkar díóður. Ljósgjafadíóður eru notaðar í margskonar búnaði, t.d. í fjarstýringar, sjónvarpsskjái, perur og lampa. Slík tæki flokkast í þau tollskrárnúmer sem þau vanalega flokkast í þrátt fyrir að innihalda díóður. T.d. flokkast LED perur í tollskrárnúmer 8543.7009. Lampar sem nota ljósgjafadíóður eða LED perur flokkast ásamt öðrum lömpum sem ganga fyrir rafmagni í vörulið 9405. Sá vöruliður er m.a. fyrir lampa og ljósabúnað. Tollskrárnúmer 9405.4009 er m.a. fyrir rafmagnslampa og –ljósabúnað sem innihalda ljósgjafadíóður. Rétt er að benda á að kærandi fer línuvillt í tollskrá þegar hann segir að tollskrárnúmer 9405.4009 taki aðeins til hluta úr gleri. Það eru tollskrárnúmer 9405.91. Vöruliður 9405 felur í sér nákvæmari lýsingu en vöruliður 8541 þar sem hann lýsir ljósabúnaði en sá í 85. kafla lýsir aðeins díóðunni sjálfri.

Að lokum vill Tollstjóri árétta að það er rétt að fyrirsagnir flokka og kafla eru aðeins leiðbeinandi enda byggir embættið ekki tollflokkun sína á þeim fyrirsögnum. Embættið byggir flokkun sína á orðalagi vöruliðar 9405 og orðalagi undirliðar 9405.4009 sem túlkunarregla 1 segir að flokkun skuli byggð á.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum