Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr.11 /2003

Úrskurður tollstjórans í Reykjavík varðandi upprunayfirlýsingu á vörureikningum í sendingu

6.11.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, dags. 10. september 2003, þar sem farið er á leit við embætti Tollstjórans í Reykjavík að álagning aðflutningsgjalda vegna sendingar Y verði endurskoðuð. Í bréfinu kom fram að við innflutning vara í framangreindri sendingu hafi aðflutningsgjöld verið lögð á, þar sem að ekki fylgdu sendingunni gögn um uppruna varanna. Með bréfi innflytjanda fylgdu afrit af reikningum fyrir vörur þær sem fluttar voru inn með fyrrgreindri sendingu, og voru reikningarnir með yfirlýsingum seljanda á bakhlið um uppruna þeirra.

 

Í IV. viðauka við EES-samninginn koma fram þær reglur sem gilda um yfirlýsingu á vörureikningi um uppruna vöru. Í yfirlýsingunni skal geta útflytjanda framleiðsluvara og ef um viðurkenndan útflytjanda er að ræða þá skal geta leyfisnúmers hans. Sé ekki um viðurkenndan útflytjanda að ræða þá skal eyða skilin eftir óútfyllt. Einnig skal í yfirlýsingunni lýsa því yfir að vörurnar séu, ef annars er ekki greinilega getið, af EES­ fríðindauppruna. Í yfirlýsingunni þarf að geta staðs og dagsetningar, nema þær upplýsingar komi fram annarsstaðar á skjalinu. Einnig er nauðsynlegt að útflytjandi undirriti yfirlýsinguna auk þess sem nafn þess sem undirritar yfirlýsinguna þarf að koma fram með skýrum stöfum. Hinsvegar er ekki þörf á að taka fram nafn þess sem undirritar þegar viðurkenndur útflytjandi, í skilningi 21. gr. bókunar IV. við EES­ samninginn, hefur veitt tollyfirvöldum í útflutningslandinu skriflega skuldbindingu þess efnis að hann taki fulla ábyrgð á sérhverri yfirlýsingu á vörureikningi sem auðkennd er honum á sama hátt og hefði hann undirritað hana eigin hendi, sbr. 5. mgr. 20. gr. framangreindrar bókunar.

 

Í 20. gr. bókunar IV. við EES-samninginn er einnig að finna skilyrði fyrir því að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi. Í 2. tl. 20. gr. bókunarinnar, kemur fram að heimilt sé að gefa út yfirlýsingu á vörureikningi ef viðkomandi framleiðsluvörur teljast upprunavörur á EES eða í einu landanna sem um getur í 3. gr. og fullnægja öðrum kröfum þessarar bókunar. Í 4. tl. 20. gr. bókunarinnar, er vikið að því að yfirlýsing á vörureikningi skuli gefinn út með þeim hætti að útflytjandi vélritar, stimplar eða prentar á vörureikninginn, afhendingarseðilinn eða annað viðskiptaskjal yfirlýsingu með þeim texta sem fram kemur í IV. viðauka. Ef yfirlýsingin er handskrifuð skal skrifa með bleki og með prentstöfum. Í 5. tl. 20. gr. bókunarinnar, er svo vikið að því að yfirlýsing á vörureikningi skuli vera með upprunalegri eiginhandarundirskrift útflytjandans, eins og vikið er að hér að framan.

 

Hvað varðar yfirlýsingar um uppruna vara sem fram koma á bakhlið framangreindra reikninga, er ljóst að meta verður þær með hliðsjón af þeim reglum sem fram koma í IV. viðauka við EES–samninginn og IV. bókunar við hann. Hvað varðar yfirlýsingu um uppruna varanna, á reikningi nr. 7513 frá L., virðist útflytjandi hafa undirritað yfirlýsinguna, en embættið telur skorta á um að nafn þess sem undirritar yfirlýsinguna komi fram skýrum stöfum eins og áskilið er í IV. viðauka við EES-samninginn.

Hvað varðar yfirlýsingu um uppruna varanna, á reikningi nr. 250287 frá W., þá telur embættið þá yfirlýsingu ekki vera í samræmi við þær reglur, um form og efni slíkra yfirlýsinga, sem fram koma í viðauka IV. og bókun IV. við EES-samninginn, og raktar eru hér að framan.

Beðist er velvirðingar á að afgreiðsla máls þessa hefur dregist.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að yfirlýsingar um uppruna vara í sendingu Y séu ófullnægjandi og aðflutningsgjöld vegna framangreindrar sendingar skuli standa óbreytt.

Úrskurðinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum