2019

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2019 í máli nr. S-2805/2019

16.1.2020

Dómur miðvikudaginn 27. nóvember 2019.

Mál nr. S-2805/2019:

Héraðssaksóknari 

(Sigríður Árnadóttir aðstoðarsaksóknari)

gegn 

A 

(Almar Þór Möller lögmaður)

Dómur

Árið 2019, miðvikudaginn 27. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-2805/2019: Ákæruvaldið gegn A en málið var dómtekið samdægurs.

Málið er höfðað með ákæru Héraðssaksóknara, dagsettri 13. júní 2019, á hendur A fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald og peningaþvætti sem stjórnarmanni og daglegum stjórnanda einkahlutafélagsins X ehf., rekstrarárið 2009, og stjórnarmanni og framkvæmdastjóra einkahlutafélagsins Y, rekstrarárin 2010 og 2011, en fyrrnefnda félagið rann saman við Y, þá Þ á árinu 2010:

I

Fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali fyrir X ehf. gjaldárið 2010, vegna rekstrarársins 2009, með því að eignfæra ranglega í bókhaldi félagsins greiðslur á sölureikningum vegna framkvæmda við ótengda fasteign, sem varanlegar endurbætur tveggja fasteigna í eigu félagsins, við heimilisfang 1 og heimilisfang 2, og jafnframt gjaldfæra óheimilar fyrningar af þessum offærðu eignfærslum í bókhaldi og skattframtali félagsins. Einnig fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir Z ehf. gjaldárin 2011 og 2012, vegna rekstraráranna 2010 og 2011, með því að gjaldfæra óheimilar fyrningar af hinum offærðu eignum í skattframtali félagsins fyrra árið og vantelja söluhagnað í skattframtölum bæði árin vegna sölu á fasteignunum að heimilisfang 2 á árinu 2010 og heimilisfang 1 á árinu 2011. Með framangreindum hætti vanframtaldi ákærði tekjur Z ehf., áður X ehf., í skattframtölum félagsins vegna rekstraráranna 2009 til og með 2011, um samtals 55.648.011 krónur, sem skattskyldar eru samkvæmt B-lið 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 og komst hjá greiðslu tekjuskatts samtals að fjárhæð 10.940.363 krónur, sem sundurliðast svo:

Rekstrarárið 2009 (X ehf.): 
Offærð eignfærsla – heimilisfang 1:                          kr. 54.653.840
Offærð eignfærsla – heimilisfang 2:                          kr.       994.171
Offærð eignfærsla samtals:                                        kr. 55.648.011

Ólögmæt fyrning vegna heimilisfangs 1:                kr.   2.713.365
Ólögmæt fyrning vegna heimilisfangs 2:                kr.         29.825
Vanframtalinn tekjuskattstofn                                     kr.    2.743.190

Vangreiddur tekjuskattur, 15%:                                  kr.      411.479

Rekstarárið 2010 (Z ehf.): 
Fasteign við heimilisfang 2, seld
Ólögmæt fyrning vegna heimilisfangs 1:                 kr.   1.639.615
Vantalinn söluhagnaður vegna heimilisfangs 2:     kr.       964.346
Vanframtalinn tekjuskattstofn                                      kr.    2.603.961

Vangreiddur tekjuskattur, 18%:                                   kr.      468.713

Rekstarárið 2011 (Z ehf.): 
Fasteign heimilisfang 1, seld
Vantalinn söluhagnaður vegna heimilisfangs 1:      kr. 50.300.860
Vanframtalinn tekjuskattstofn                                       kr. 50.300.860

Vangreiddur tekjuskattur, 20%:                                    kr. 10.060.172

Vanframtalinn tekjuskattstofn samtals:               kr. 55.648.011
Vanframtalinn tekjuskattur samtals:                     kr. 10.940.363
 

II

1. Með því að hafa rangfært bókhald og ársreikning X ehf. rekstrarárið 2009 þegar greiðslur félagsins á sölureikningum vegna framkvæmda við ótengda fasteign voru eignfærðar í bókhaldi þess sem varanlegar endurbætur á tveimur fasteignum í eigu félagsins og þær endurbætur síðan fyrndar. Eignfærslur í bókhaldi félagsins voru offærðar um samtals 55.648.011 krónur og jafnframt gjaldfærðar óheimilar fyrningar af þessum offærðu eignfærslum samtals að fjárhæð 2.743.190 krónur.

2. Með því að hafa fært í bókhald X ehf. rekstrarárið 2009 13 sölureikninga frá Z ehf. og þrjá sölureikninga frá Æ ehf., sem hafði verið breytt þannig að afmáð höfðu verið auðkenni útgefanda í haus og neðanmáls svo ekki kemur fram frá hvaða viðskiptaaðila sölureikningarnir koma og afmáðar skýringar og upplýsingar á 12 af reikningunum frá Z ehf. og af tveimur reikninganna frá Æ ehf., svo ekki kemur fram að þeir eru vegna vinnu við ótengda fasteign. Þessir reikningar eru hluti af þeim sölureikningum sem tilgreindir eru í 1. tölulið.

III

Með því að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt I. kafla ákæru, 10.940.363 krónur, í þágu félagsins. Brot ákærða samkvæmt I. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003. Brot ákærða samkvæmt 1. tölulið II. kafla ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 36. gr. og 1., 3. og 5. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald og brot ákærða samkvæmt 2. tölulið II. kafla teljast einnig varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 36. gr. og 1. og 3. tölulið 1. mgr. 37. gr. laga um bókhald. Brot ákærða samkvæmt III. kafla ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsivist ef dæmd verður verði skilorðsbundin. Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði samkvæmt tímaskýrslu.
Við skýrslutöku af ákærða hjá lögreglu gerði hann athugasemdir við fjárhæðir sem nú hafa verið teknar upp í I. kafla ákæru. Ekki er ástæða til að rekja framburð ákærða hjá lögreglu frekar.

Nú verður rakinn framburður ákærða fyrir dómi
Ákæruliðir I og III
 

Ákærði kvaðst hafa verið stjórnarmaður og daglegur stjórnandi X ehf. rekstrarárið 2009 og stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Z ehf. rekstrarárin 2010 og 2011 og að fyrrnefnda félagið hefði runnið saman við Y ehf., þá Þ ehf., á árinu 2010, allt eins og lýst er í inngangskafla ákærunnar. Þá kvað ákærði lýsingu þessara ákæruliða rétta, utan fjárhæðir. Ákærði kvað ekki ágreining um að fjárhæðir væru offærðar í eignafærslu og ólögmætar fyrningar gjaldfærðar eins og ákært er fyrir, né að söluhagnaður hefði verið vanframtalinn. Hann kvað hins vegar rangt að félagið hefði vangreitt tekjuskatt að fjárhæð 10.940.363 krónur. Ákærði kvað vangreiddan tekjuskatt í raun vera helmingi lægri og vísaði til verjanda, sem greindi frá því og vísaði til gagna sem sýndu að vangreiddur tekjuskattur væri 4.989.576 krónur.

Ákærði játaði sök samkvæmt III. kafla ákæru, fyrir utan það að hann taldi brotaandlag nema þeirri fjárhæð sem hann játar að ekki hafi verið greiddur af tekjuskattur, eða að fjárhæð 4.989.576 krónur, eins og áður var rakið. Þá kvaðst ákærði telja að lækka bæri þessa fjárhæð sem næmi vangreiddum tekjuskatti vegna rekstrarársins 2009, þar sem umrætt ákvæði almennra hegningarlaga, sem hann er sakaður um að hafa brotið gegn, hefði ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2010, en það útiloki sakfellingu vegna rekstrarársins 2009.

Fram kom hjá ákærða að hann hefði greitt skatta sem lagðir hefðu verið á félögin auk álags.

Niðurstaða ákæruliða I og III 

Ákærði var stjórnarmaður og daglegur stjórnandi X ehf. rekstrarárið 2009 og stjórnarmaður og framkvæmdastjóri Y ehf. rekstrarárin 2010 og 2011 og ber sem slíkur refsiábyrgð á háttseminni sem í ákæru greinir eins og lög áskilja.

Ákæruliður I 

Í þessum kafla er m.a. ákært fyrir að vantelja söluhagnað á skattframtölum rekstrarárin 2010 og 2011 vegna sölu á fasteignunum að heimilisfangi 2 á árinu 2010 og heimilisfangi 1 á árinu 2011, eins og nánar er lýst í ákæru. Í 12. og 13. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt er skilgreindur söluhagnaður eigna. Með hliðsjón af þessum lagaákvæðum er það mat dómsins að vantalinn söluhagnaður vegna heimilisfangs 2 og heimilisfangs 1 nemi ekki þeim fjárhæðum sem taldar eru í ákæru og ákærða er gefið að sök að hafa vantalið. Fallist er á með ákærða, og svo sem fram kemur í gögnum málsins, að söluhagnaður vegna heimilisfangs 2 sé 349.813 krónur og söluhagnaður vegna heimilisfangs 1 sé 21.100.000 krónur. Samkvæmt þessu nemur vanframtalinn tekjuskattsstofn samtals 25.832.619 krónum og vangreiddur tekjuskattur samtals 4.989.576 krónum, samkvæmt I. kafla ákæru.

Er sannað með játningu ákærða og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í þessum kafla ákæru greinir, að teknu tilliti til þess sem síðast var rakið um brotaandlag.

Ákæruliður III 

Í þessum kafla ákæru er ákærða gefið að sök peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning af brotum samkvæmt I. kafla í þágu félagsins, eins og lýst er. Brot ákærða eru talin varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. almennra hegningarlaga. Lagagrein þessari var bætt inn í almenn hegningarlög með lögum nr. 149/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010. Samkvæmt því verður ákærði ekki sakfelldur fyrir peningaþvætti að því er varðar nýtingu ágóða af brotum sem talin eru framin á árinu 2009. Brotaandlag samkvæmt þessum kafla ákæru lækkar því sem þessu nemur, sbr. framanritað. Sannað er með skýlausri játningu ákærða að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í þessum ákærulið greinir, utan árið 2009, en samkvæmt þessu verður brotaandlagið 4.578.097 krónur, þar sem sýknað er af broti sem talið var framið á árinu 2009 af ástæðum sem raktar voru.

Ákæruliður II töluliðir 1 og 2 

Ákærði játar sök samkvæmt báðum töluliðum þessa kafla ákæru og er skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta vegna þessara ákæruliða.

Brot ákærða eru rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði hefur játað brot sín hreinskilnislega og er það virt til refsilækkunar. Mjög langur tími er liðinn frá því að brotin voru framin. Skattskuldir félaganna hafa verið greiddar að fullu ásamt álagi. Refsing ákærða, sem ekki hefur áður gerst brotlegur við lög, er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga og þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í þrjá mánuði sem skilorðsbinda skal svo sem greinir í dómsorði. Auk refsivistar ber að gera ákærða sektarrefsingu, sbr. tilvitnuð lagaákvæði í ákæru.

Að öllu framanrituðu virtu og teknu tilliti til dómaframkvæmdar í sambærilegum málum þykir ekki unnt að miða sektarfjárhæð við lágmark samkvæmt lögum eins og á stendur. Ákærða er því gert að greiða 12.300.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í sjö mánuði, en frá sektarrefsingunni hefur verið dreginn skattur af álagi sem félaginu var gert að greiða.

Ákærði greiði 2/3 hluta 1.839.230 króna málsvarnarlauna Almars Þórs Möller lögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. Tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun þóknunar verjanda.

Sigríður Árnadóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, A, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í tvö ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði 12.300.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í sjö mánuði.

Ákærði greiði 2/3 hluta 1.839.230 króna málsvarnarlauna Almars Þórs Möller lögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Guðjón St. Marteinsson

Rétt endurrit staðfestir, Héraðsdómur Reykjavíkur, 27. nóvember 2019.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum