2019

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 1. nóvember 2019 í máli nr. S-247/2019

22.11.2019

Héraðsdómur Vesturlands

Dómur 1. nóvember 2019

Mál nr. S-247/2019:

Héraðssaksóknari 

(Ásmunda Björg Baldursdóttir) gegn 

Ólafi Rögnvaldssyni 

(Garðar Guðmundur Gíslason lögmaður)

Dómur 

Mál þetta, sem dómtekið var 30. október síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, útgefinni 24. október síðastliðinn, á hendur Ólafi Rögnvaldssyni, kt. ..., Munaðarhóli 19, Snæfellsbæ, fyrir eftirtalin brot:

I.

Á hendur ákærða sem framkvæmdastjóra hlutafélagsins Hraðfrystihúss Hellissands, kt. ..., fyrir meiri háttar brot gegn bókhaldslögum með því að hafa rangfært bókhald hlutafélagsins með útgáfu ranga kreditreikninga á hendur einkahlutafélaginu Sæmark-Sjávarafurðir, kt. ..., í þeim tilgangi að taka fjármuni úr hlutafélaginu í eigin þágu.

II.

Á hendur ákærða fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2013, 2014 og 2015, vegna tekjuáranna 2012, 2013 og 2014, með því að láta undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára, tekjur samtals að fjárhæð kr. 34.062.689, frá hlutafélaginu Hraðfrystihúsinu Hellissandi, sem skattskyldar eru sem tekjur samkvæmt 1. tl. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og tekjur samtals að fjárhæð kr. 10.528.138 frá einkahlutafélaginu Sæmarki Sjávarafurðum og notkun á erlendu kreditkorti sem greitt var með fjármunum frá Sigurði Gísla Björnssyni/Freezing Point Corp., sem skattskyldar eru sem gjafir samkvæmt 4. tl. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, en með því komst ákærði hjá að greiða tekjuskatt og útsvar að fjárhæð samtals 20.641.533 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:

Tekjuárið 2012 
________________________________________________________________

Framtalinn tekjuskattsstofn                                 kr.  9.453.620

Vanframtaldar tekjur                                            kr.  7.289.538

Tekjuskattur, skattprósenta 31,8%                     kr.  2.318.073

Útsvar, útsvarsprósenta 14,48%                         kr.  1.055.525

(Tekjur af stofni umfram 8.452.400 kr.)

Ónýttur persónuafsláttur                                      kr.                0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:    kr.  3.373.598 


Tekjuárið 2013
_________________________________________________________________

Framtalinn tekjuskattsstofn                                   kr. 11.253.750

Vanframtaldar tekjur                                              kr. 25.056.289

Tekjuskattur, skattprósenta 31,8%                       kr.  7.967.900

Útsvar, útsvarsprósenta 14,48%                           kr.  3.628.151

(Tekjur af stofni yfir 8.874.108 kr.)

Ónýttur persónuafsláttur                                       kr.                  0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:     kr. 11.596.051 


Tekjuárið 2014 
_________________________________________________________________

Framtalinn tekjuskattsstofn                                    kr. 13.495.414

Vanframtaldar tekjur                                                kr. 12.245.000

Tekjuskattur, skattprósenta 31,8%                         kr.   3.893.910

Útsvar, útsvarsprósenta 14,52%                             kr.   1.777.974

(Tekjur af stofni yfir 9.415.428 kr.)

Ónýttur persónuafsláttur                                          kr.                  0

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:        kr.   5.671.884

Samtals vanframtaldar tekjur:                                   kr. 44.590.827

Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar:         kr. 20.641.533 

III.

Fyrir peningaþvætti með því að hafa nýtt ávinning af brotum skv. 2. tölulið ákæru, samtals að fjárhæð 20.641.533 krónur, í eigin þágu.

IV.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr.

145/1994 um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Framangreind brot ákærða samkvæmt 3. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr.

264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærunni og er játning hans studd sakargögnum. Það eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærði er fæddur í september 1954. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar ber að meta ákærða til málsbóta að hann játaði brot sín fyrir dómi. Að framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tíu mánuði. Þykir eftir atvikum mega binda refsinguna skilorði, eins og nánar segir í dómsorði.

Þá ber að gera ákærða sérstaka fésekt samkvæmt 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ákærða var gert, samkvæmt heimild í 108. gr. sömu laga, sérstakt álag á vantalda tekjustofna og gert að greiða skatta af álaginu, sem kemur til frádráttar við ákvörðun sektar samkvæmt 109. gr. sömu laga. Samkvæmt framangreindri grein skal fésektarrefsing vera allt að tífaldri þeirri fjárhæð sem undan var dregin og aldrei lægri en sem nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Með vísan til þess að ákærði hefur þegar endurgreitt vangreiddan tekjuskatt og skattaálag verður fésekt ákærða ákveðin sem nemur tvöfaldri vangoldinni fjárhæð vanskilanna. Sú fjárhæð sem undan var dregin í máli þessu er 44.590.827 krónur. Eru vantaldar skattgreiðslur vegna þessarar fjárhæðar samtals 20.641.533 krónur. Skal því ákvarða sekt ákærða að lágmarki 41.283.066 krónur en að frádregnum skattgreiðslum vegna álagsins á vantalinn tekjuskatt samtals 5.160.383 krónur. Samtals skal ákærði því dæmdur til að greiða 36.100.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa en sæta ella fangelsi í tólf mánuði.

Skipaður verjandi ákærða, Garðar G. Gíslason lögmaður, afsalaði sér þóknun fyrir verjandastörf sín.

Engan sakarkostnað leiddi af rannsókn og rekstri málsins.

Guðfinnur Stefánsson, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

Dómsorð: 

Ákærði, Ólafur Rögnvaldsson, sæti fangelsi í 10 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð skv. 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 36.100.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í tólf mánuði.

Guðfinnur Stefánsson

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum