2020

Dómur héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2020 í máli númer S-595/2020

30.4.2020

D Ó M U R
Héraðsdóms Reykjaness 29. apríl 2020 í máli nr. S-595/2020:


Ákæruvaldið 
(Ásmunda B. Baldursdóttir saksóknari) 
gegn 
Benedikt Sveinssyni 

(Sævar Þór Jónsson)

Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl sl., höfðaði héraðssaksóknari með ákæru 27. febrúar sl. á hendur ákærða, Benedikt Sveinssyni, kt. 000000-0000, [...]: „fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum framin í sjálfstæðri atvinnustarfsemi hans og fyrir peningaþvætti, með því að hafa: 

I. 

Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti á lögmæltum tíma sem innheimtur var í starfseminni uppgjörstímabilin mars – apríl, maí – júní, september – október og nóvember – desember rekstrarárið 2017 og janúar – febrúar til og með maí – júní rekstrarárið 2018, sem bar að standa ríkissjóði skil á, í samræmi við IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð kr. 8.745.728, sem sundurliðast sem hér greinir:

595_1595_2


II. 

Fyrir peningaþvætti með því að hafa ráðstafað, geymt og/eða nýtt ávinning af brotum skv. I lið ákæru, samtals kr. 8.745.728, í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu. 

III. 

Framangreind brot ákærða samkvæmt I lið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Framangreind brot ákærða samkvæmt II lið ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“ Kröfur ákærða í málinu eru þær að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa vegna verjandastarfans.

Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði hefur játað sakargiftir og var málið tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu eftir að sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði máls og ákvörðun viðurlaga. 
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru og eru brot hans að því leyti rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Hvað varðar II. kafla ákæru, þar sem ákærða er gefið að sök peningaþvætti með því að hafa „ráðstafað, geymt og/eða nýtt“ ávinning af brotum samkvæmt I. kafla ákæru „í þágu atvinnurekstrarins eða eftir atvikum í eigin þágu“, þá tæmir 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga sök eins og hér háttar til gagnvart 1. mgr., sbr. 2. mgr., 264. gr. laganna. 
Ákærði er fæddur árið [...]. Samkvæmt sakavottorði ákærða gekkst hann 4. október 2019 undir lögreglustjórasátt vegna ölvunaraksturs. Með dómi Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017 var ákærða gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, meðal annars fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 3. gr. laga nr. 134/2005 um staðgreiðslu, en sú refsing var skilorðsbundin í þrjú ár frá uppsögu dóms Hæstaréttar. Var ákærða þá einnig gert að greiða 83.000.000 krónur í sekt en ella yrði honum gert að sæta fangelsi í eitt ár. 
Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að brot ákærða varða þó nokkrum fjárhæðum. Aftur á móti ber að virða skýlausa játningu ákærða honum til málsbóta. 
Brot þau sem greinir í ákæru framdi ákærði áður en hann gekkst undir fyrrgreinda lögreglustjórasátt 4. október 2019, en þar af leiðandi verður ákærða dæmdur hegningarauki, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. Þá hefur ákærði með brotum sínum rofið skilorð framangreinds dóms Hæstaréttar frá 16. febrúar 2017. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðshluti þess dóms tekinn upp og ákærða gerð fangelsisrefsing að nýju fyrir bæði málin, sbr. 77. gr. sömu laga. 
Að öllu framangreindu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Í ljósi skýlausrar játningar ákærða þykir unnt að fresta fullnustu 12 mánaða refsingarinnar og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Einnig ber að dæma ákærða til greiðslu fésektar sem verður ákveðin 17.500.000 krónur að teknu tilliti til lögbundins lágmarks hennar, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988. Um vararefsingu fer eins og í dómsorði segir. 
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað, þ.e. málsvarnarþóknun skipaðs verjenda síns, en sú þóknun er ákveðin með virðisaukaskatti í dómsorði. 
Dóm þennan kveður upp Arnaldur Hjartarson héraðsdómari.


D Ó M S O R Ð: 

Ákærði, Benedikt Sveinsson, sæti fangelsi í 15 mánuði, en fresta skal fullnustu 12 mánaða refsingarinnar og skal sá hluti falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 17.500.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 240 daga. 
Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Sævars Þórs Jónssonar lögmanns, 179.180 krónur.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum