2020

Dómur héraðsdóms Reykjavíkur 15. október 2020 í máli nr. S-1177/2020

21.10.2020

Dómur 15. október 2020

Mál nr. S-1177/2020:

Héraðssaksóknari
(Kristín Ingileifsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
A
(Tryggvi Agnarsson lögmaður)

Dómur

     Mál þetta, sem dómtekið var 30. september sl., var höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dags. 13. febrúar 2020, á hendur: „A

A.

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og fyrir peningaþvætti, sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni einkahlutafélagsins Y, nú gjaldþrota, með því að hafa:

1. Staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum félagsins fyrir uppgjörstímabilin mars – apríl til og með nóvember – desember rekstrarárið 2017 með því að hafa ýmist vanframtalið útskatt og/eða offramtalið innskatt félagsins og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í starfseminni, vegna sömu uppgjörstímabila, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 57.001.172 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:

1177_1

2. Eigi staðið skil á staðgreiðslugreinum félagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna október og desember rekstrarárið 2017 og fyrir að hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda innan lögboðins frests, í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins greiðslutímabilin október til og með desember rekstrarárið 2017, samtals að fjárhæð 30.096.708 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir:

1177_2

3. Fyrir peningaþvætti með því að hafa geymt eða ráðstafað ávinningi af brotum sem framin voru í rekstri Y ehf. samkvæmt 1. og 2. tölulið A-liðar ákæru, samtals að fjárhæð 87.097.880 krónur í þágu rekstrar félagsins.

B.

fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum og lögum um bókhald og fyrir peningaþvætti: 1. Með því að hafa staðið skil á efnislega röngu skattframtali gjaldárið 2014, vegna tekjuársins 2013, og fyrir að hafa eigi staðið skil á skattframtölum gjaldárin 2015 til og með 2018, vegna tekjuáranna 2014 til og með 2017, en síðarnefndu skattframtölunum var skilað eftir að rannsókn hófst. Skattstofninn sætti því áætlun. Með framangreindum hætti vanframtaldi ákærði annars vegar tekjur frá sjálfstæðri atvinnustarfssemi sinni gjaldárin 2014 til og með 2018 um samtals 100.965.774 krónur og möguleg rekstrargjöld um 30.498.890 krónur og hins vegar tekjur frá Y ehf. gjaldárin 2017 og 2018 um 7.287.680 krónur. Tekjurnar eru skattskyldar samkvæmt B lið 7. gr. og 1. tl. A liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Með framangreindu vanframtaldi ákærði tekjuskattstofn sinn um samtals 66.101.519 krónur framangreind gjaldár og komst þannig undan greiðslu tekjuskatts og útsvars að fjárhæð 27.468.692 krónur, sem sundurliðast sem hér greinir: 


1177_31177_41177_51177_61177_71177_82. Látið undir höfuð leggjast að færa lögboðið bókhald vegna sjálfstæðrar atvinnustarfssemi sinnar í samræmi við kröfur laga nr. 145/1994 um bókhald og vanrækt að varðveita fylgiskjöl bókhalds, rekstrarárin 2013 til og með 2017.

3. Fyrir að hafa geymt eða ráðstafað ávinningi af brotum skv. 1. tölulið B liðar ákæru, samtals að fjárhæð 27.468.692 krónur, í þágu sjálfstæða atvinnurekstrarins og eftir atvikum í eigin þágu.

______________________________

     Framangreind brot samkvæmt 1. tölulið A liðar ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

     Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið A liðar ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

     Framangreind brot ákærða skv. 1. tölulið B liðar ákæru teljast varða við 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

     Framangreind brot ákærða samkvæmt 2. tölulið B liðar ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. einnig 1. og 2. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald.

     Framangreind brot samkvæmt 3. tölulið A liðar ákæru og 3. tölulið B liðar ákæru teljast varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

     Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

     Upphaflega stóð til að þingfesta málið 17. mars 2020 en vegna farsóttar og samkomubanns var því frestað utan réttar um ótiltekinn tíma og var málið þingfest 7. maí sl. Óskaði ákærði þá eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar og var málinu því frestað til 28. maí. Í þinghaldi þann dag neitaði ákærði sök og var verjanda veittur frestur til 3. september til að skila greinargerð. Þeirri fyrirtöku málsins var svo frestað ótiltekið utan réttar að beiðni verjanda ákærða. Dómari tók við málinu 4. september sl., vegna námsleyfis þess dómara sem hafði áður fengið því úthlutað, og hafði fram að þeim tíma ekki haft nein afskipti af meðferð þess. Var þá boðað til þinghalds í málinu 30. september sl. Í þinghaldi þann dag breytti ákærði afstöðu sinni og játaði skýlaust sök. Þá lagði hann fram skattframtöl vegna áranna 2013 til 2017 og afrit af tveimur kærum sem hann lagði fram hjá lögreglu, annars vegar vegna árásar og skemmdarverka, dags. 7. febrúar 2018, og hins vegar vegna fjárdráttar, fjársvika, skjalafals, skipulagðrar glæpastarfsemi o.fl., dags. 29. apríl 2018.

     Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og ef til þess kemur að fangelsisrefsing verði dæmd að hún verði þá skilorðsbundin. Þá gerir verjandi ákærða kröfu um málsvarnarþóknun er greiðist að mati dómsins með hliðsjón af framlagðri tímaskýrslu og að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

II

     Ákærði hefur skýlaust játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru. Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu en sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

III

     Ákærði er fæddur 1962. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 11. febrúar 2020, hefur hann ekki áður verið dæmdur til refsingar. Við ákvörðun refsingar ákærða er til refsimildunar litið til framangreinds, skýlausrar játningar hans fyrir dómi og þess að nokkuð er um liðið síðan ákærði framdi elstu brotin. Til þyngingar er horft til þess að brot hans námu háum fjárhæðum og náðu yfir langt tímabil. Í ljósi stöðu ákærða innan félagsins er því hafnað að litið verði til þess að hann hafi lítið komið nálægt skattskilum félagsins hluta þess tímabils er ákæra málsins tekur til. Með vísan til framangreinds þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar og Landsréttar í sambærilegum málum, sbr. t.d. dóm Landsréttar í máli nr. 69/2018, sem kveðinn var upp 21. september 2018, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

     Brot ákærða voru stórfelld, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, og verður því miðað við þrefalda fjárhæð vanskila við ákvörðun um fjárhæð sektar. Verður ákærði því jafnframt dæmdur til að greiða 343.699.716 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæta ella fangelsi í tólf mánuði.

     Ákærði greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Tryggva Agnarssonar lögmanns, 1.350.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og hefur þá einnig verið litið til vinnu lögmannsins á rannsóknarstigi. Annan sakarkostnað leiddi ekki af meðferð málsins.

     Sigríður Elsa Kjartansdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

     Ákærði, A, sæti fangelsi í tvö ár en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

     Ákærði greiði jafnframt 343.699.716 króna sekt í ríkissjóð en sæti ella fangelsi í tólf mánuði.

     Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, þar með talin er málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Tryggva Agnarssonar lögmanns, 1.350.000 krónur.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir (sign.)

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum