Um skoðunarmenn félaga

15.4.2019

Fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vill vekja athygli á að félög, sem ekki er skylt að kjósa endurskoðanda samkvæmt lögunum eða samþykktum sínum, skulu samkvæmt 3. mgr. 96. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga kjósa endurskoðanda, endurskoðunarfyrirtæki eða skoðunarmann ársreikninga á aðalfundi eða almennum fundi félagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 97. gr. skulu skoðunarmenn vera lögráða og fjár síns ráðandi. Eðli máls samkvæmt getur sú skilgreining eingöngu átt við um einstaklinga.

Algengt er að tilkynnt sé um bókhaldsfyrirtæki sem skoðunarmenn, en samkvæmt framangreindum lagaákvæðum er það ekki heimilt. Skoðunarmenn geta eingöngu verið einstaklingar. Ef félög vilja tilkynna um lögaðila sem skoðunarmenn, þarf að tilkynna endurskoðunarfyrirtæki. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið heldur skrá yfir endurskoðunarfyrirtæki og einungis er hægt að skrá félög af þeim lista sem endurskoðendur/skoðunarmenn í fyrirtækjaskrá.

Fyrirtækjaskrá hefur ákveðið að frá 1. júní 2019 verða eingöngu skráðir endurskoðendur, endurskoðunarfyrirtæki og skoðunarmenn, en ekki lögaðilar s.s. bókhaldsstofur, sem endurskoðendur/skoðunarmenn. Jafnframt beinir fyrirtækjaskrá því til félaga að þau lagfæri skráningar þar sem þess er þörf.

Listi Menningar- og viðskiptaráðuneytisins yfir endurskoðunarfyrirtæki


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum