Tilkynning um árleg skyldubundin skil ársreikninga og álagningu stjórnvaldssekta vegna vanskila

7.4.2022

Áréttað er við forráðamenn félaga að skila ber ársreikningi eigi síðar en mánuði eftir að reikningurinn var samþykktur á aðalfundi viðkomandi félags, þó eigi síðar en átta mánuðum eftir lok reikningsárs.

Í reynd þýðir þetta, svo dæmi sé tekið, að stjórnendum félags sem heldur aðalfund 1. mars ber að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar fyrir 1. apríl, en sé aðalfundur t.d. haldinn 20. ágúst ber stjórnendum félagsins í því tilviki að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar í síðasta lagi 31. ágúst.

Athygli skal vakin á því að félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) hafa aðeins fjóra mánuði frá lokum reikningsárs til að halda aðalfund og stjórnendum þeirra ber að standa skil á ársreikningi til opinberrar birtingar strax eftir aðalfund.

Ársreikningaskrá ber samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 120. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, að leggja stjórnvaldssekt á þau félög sem vanrækja skyldu sína til að standa skil á ársreikningi eða samstæðureikningi til opinberrar birtingar innan þeirra fresta sem kveðið er á um í 109. gr. laganna og mun álagning stjórnvaldssekta fara fram að liðnum framangreindum frestum.


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum