Yfir fjögur þúsund félög sektuð vegna vanskila á ársreikningum

4.10.2023

Ársreikningaskrá hefur tilkynnt forsvarsfólki yfir fjögur þúsund félaga um álagningu 600.000 króna stjórnvaldssektar vegna vanskila á ársreikningi til birtingar í Ársreikningaskrá.

Síðasti skiladagur ársreiknings til Ársreikningaskrár var 31. ágúst síðastliðinn. Framangreindar sektir hafa verið lagðar á og mun fjárhæðin birtast í netbanka viðkomandi fyrirtækja.

Sekt lækkar sé ársreikningi skilað inn

Fjárhæð stjórnvaldssektarinnar er 600.000 kr. Verði fullnægjandi ársreikningi skilað innan 30 daga lækkar sektin um 90%, eða niður í 60.000 kr.

Sé ársreikningi skilað innan tveggja mánaða nemur lækkunin 60% og berist ársreikningur innan þriggja mánaða lækkar sektin um 40%.

Lækkun kemur til framkvæmdar í lok hvers tímabils. Þau sem skila ársreikningi snemma innan hvers tímabils geta greitt lægri sektarfjárhæð strax en bíða þarf til loka tímabils til að sjá sekt lækka og kröfu hverfa úr netbanka.

Engin starfsemi í félagi

Ársreikningi skal skilað inn einu sinni á ári og skiptir þar ekki máli hvort starfsemi var í félaginu eða ekki.

Rétt er að benda á að heimilt er að fá ársreikningasekt fellda niður ef forsvarafólk gengst fyrir það að slíta félaginu.

Athugið að þetta gildir aðeins fyrir sektir ársreikningaskrár. Aðrar skuldir s.s. útistandandi útvarpsgjald og önnur opinber gjöld ásamt sektum vegna raunverulegs eiganda þarf að gera upp.

Kæruheimild

Álagningu sektar vegna vanskila á Ársreikningi má kæra til Menningar- og viðskiptaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá dagsetningu sektarákvörðunar.

Nánari upplýsingar um ársreikningaskil

Nánari upplýsingar um sektir vegna vanskila


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum