Yfirlýsing frá ársreikningaskrá ríkisskattstjóra vegna áhrifa af COVID-19

17.3.2020

Ársreikningaskrá ríkisskattstjóra mælist til þess að félög fjalli sérstaklega um áhrif af kórónuveirunni (COVID-19) á afkomu og stöðu viðkomandi félaga í skýrslu stjórnar.

Ársreikningaskrá bendir félögum á að setja fram viðeigandi upplýsingar í skýrslu stjórnar. Félögum er gert að upplýsa um hvort COVID-19 muni hafa áhrif á efnahag, afkomu og sjóðstreymi viðkomandi félags, hvort sem áhrifin munu reynast neikvæð á sumum sviðum en jákvæð á öðrum, í samræmi við ákvæði 65. og 66. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga og reglugerðar 696/2019 um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. 

Ársreikningaskrá vill sérstaklega benda á eftirfarandi ákvæði í lögum um ársreikninga;

  1. 3. tölul. 1. mgr. 65. gr. þar sem fram kemur að í skýrslu stjórnar skal fjalla um mögulega óvissu við mat eða óvenjulegar aðstæður sem kunna að hafa áhrif á viðkomandi félag, og eftir því sem við á, tilgreina fjárhæð,
  2. 5. tölul. 1. mgr. 65. gr. þar sem greina þarf frá markverðum atburðum sem hafa gerst eftir að reikningsárinu lýkur.
  3. 8. mgr. 65. gr. þar sem fram kemur að ef vafi leikur á rekstrarhæfi skuli gera grein fyrir því í skýrslu stjórnar
  4. 3. tölul. 4. málsl. 1. mgr. 66. gr. þar sem fjalla þarf um, eftir því sem við á, áhrif ytra umhverfis á félagið og ráðstafanir sem hindra, draga úr eða bæta tjón sem það verður fyrir.

Ársreikningaskrá vill ítreka að hversu ítarlegar upplýsingar þarf að veita ræðst m.a. af umfangi rekstrar og stærð viðkomandi félags.


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum