Yfirlýsing verðbréfaeftirlits Evrópu vegna áhrifa heimsfaraldurs Kórónuveiru á árshlutauppgjör

20.5.2020

Verðbréfaeftirlit Evrópu (ESMA) birti yfirlýsingu 20. maí 2020 vegna væntra áhrifa af Kórónuveirunni (COVID-19) á árshlutareikninga. Ársreikningaskrá vill ítreka að þrátt fyrir að í yfirlýsingunni sé talað um hálfsársuppgjör þá gildir efni hennar jafnt um ársfjórðungsuppgjör, í samræmi við staðalinn IAS 34, í þeim tilvikum sem félögum ber að birta ársfjórðungsleg reikningsskil.

Ljóst er að Kórónuveirufaraldurinn hefur í för með sér verulegar áskoranir fyrir fyrirtæki ásamt óvissu um mögulega þróun og áhrif á efnahagslíf og fjármálakerfi, bæði hér á landi, í Evrópu og á alþjóðavísu. Verðbréfaeftirlit Evrópu hefur í ljósi aðstæðna lagt áherslu á nauðsyn þess að tryggja gagnsæi varðandi fjárhagslega upplýsingagjöf og um leið að aðstoða fyrirtæki við þær krefjandi aðstæður sem nú eru uppi. Efni yfirlýsingarinnar frá verðbréfaeftirliti Evrópu varðar árshlutauppgjör sem gerð eru í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS) og skýrslur stjórnar sem fylgja þeim. Í yfirlýsingunni kemur fram nauðsyn þess að útgefendur verðbréfa á skipulögðum verðbréfamarkaði birti upplýsingar sem eru nytsamlegar fyrir fjárfesta svo þeir geti lagt mat á núverandi og vænt áhrif af kórónuveirufaraldrinum á fjárhagslega stöðu, frammistöðu og sjóðstreymi viðkomandi fyrirtækis. Jafnframt að veittar séu upplýsingar um helstu áhættur og óvissu sem fyrirtækið stendur frammi fyrir.

Ársreikningaskrá ríkisskattstjóra hvetur þá aðila sem að gerð framangreindra reikningsskila koma, þ.e. stjórnendur, stjórn, endurskoðunarnefnd og endurskoðendur, að kynna sér efni yfirlýsingarinnar og taka tillit til hennar við gerð og birtingu árshlutareikningsskila.

2020.05-ESMA32-67-569-Supervisory-Briefing-on-examination-procedures


Áskrift að IFRS tilkynningum

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum