Viðurlög og ábyrgð á réttri skráningu
Félög bera ábyrgð á að skráning þeirra í fyrirtækjaskrá sé rétt.
Ákveðin viðurlög eru við því að láta hjá líða að veita ríkisskattstjóra upplýsingar og gögn sem nauðsynleg eru til að tryggja rétta skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.
Dagsektir
Ríkisskattstjóra er heimilt að leggja á dagsektir með úrskurði á skráningarskyldan aðila veiti hann ekki umbeðnar upplýsingar eða sinni ekki kröfum um úrbætur innan hæfilegs frests. Leggjast dagsektirnar á þar til farið hefur verið að kröfum ríkisskattstjóra.
Dagsektirnar geta numið frá 10 þús. kr. til 500 þús. kr. á dag og er heimilt að ákveða þær sem hlutfall af tilteknum stærðum í rekstri félagsins. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta er heimilt að taka tillit til eðlis vanrækslu eða brots og fjárhagslegs styrkleika viðkomandi aðila.
Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þótt aðilar verði síðar við kröfum ríkisskattstjóra nema ríkisskattstjóri samþykki lækkun eða niðurfellingu þeirra með úrskurði.
Dagsektir sem ákvarðaðar eru samkvæmt ofangreindu eru aðfararhæfar.
Stjórnvaldssektir
Ríkisskattstjóri getur lagt á stjórnvaldssektir á einstaklinga og lögaðila með úrskurði í eftirfarandi tilvikum:
- Ef ríkisskattstjóra eru ekki veittar upplýsingar eða ef veittar eru rangar eða villandi upplýsingar.
- Ef látið er hjá líða að tilkynna um breytingar sem varða skráningu félagsins í fyrirtækjaskrá.
Við ákvörðun stjórnvaldssektar skal meðal annars tekið tillit til allra atvika sem máli skipta, þar með talið eftirfarandi:
- Alvarleika brots
- Hvað brotið hefur staðið lengi.
- Ábyrgðar hins brotlega hjá lögaðilanum.
- Fjárhagsstöðu hins brotlega.
- Ávinnings af broti eða taps sem forðað er með broti.
- Hvort brot hafi leitt til taps þriðja aðila.
- Hvers konar mögulegra kerfislegra áhrifa brotsins.
- Samstarfsvilja hins brotlega.
- Fyrri brota
- Hvort um ítrekað brot sé að ræða.
Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar með úrskurði ríkisskattstjóra og eru aðfararhæfar. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun ríkisskattstjóra skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar.
Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 100 þús. kr. til 5 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 500 þús. kr. til 80 millj. kr., en geta þó verið hærri eða allt að 10% af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi lögaðilans eða 10% af síðasta samþykkta samstæðureikningi ef lögaðilinn er hluti af samstæðu og og brot er framið til hagsbóta fyrir annan lögaðila í samstæðunni eða annar lögaðili í samstæðunni hefur notið hagnaðar af brotinu.
Gera má lögaðila stjórnvaldssekt fyrir brot á lögum og reglum settum á grundvelli þeirra óháð því hvort sök verði sönnuð á tiltekinn fyrirsvarsmann lögaðilans, starfsmann hans eða annan aðila sem starfar á hans vegum. Hafi fyrirsvarsmaður lögaðilans, starfsmaður hans eða annar á hans vegum með saknæmum hætti brotið gegn lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra í starfsemi lögaðilans má gera honum refsingu, auk þess að gera lögaðilanum stjórnvaldssekt
Ef einstaklingur eða lögaðili brýtur gegn lögum um fyrirtækjaskrá eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra og fyrir liggur að hann hafi hlotið fjárhagslegan ávinning af broti er heimilt að ákvarða hinum brotlega sektarfjárhæð sem getur numið allt að tvöfaldri fjárhæð fjárhagslegs ávinnings hins brotlega.
Málshöfðunarfrestur
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar um dagsektir innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar skv. framangreindu leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Vilji aðili ekki una ákvörðun ríkisskattstjóra um stjórnvaldssektir getur hann höfðað mál til ógildingar hennar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan þriggja mánaða frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Málshöfðum frestar ekki réttaráhrifum né heimild til aðfara samkvæmt henni.
Sé mál höfðað til ógildingar ákvörðunar um stjórnvaldssektir innan 14 daga frá því að viðkomandi aðila var tilkynnt um hana og óski hann jafnframt eftir að málið hljóti flýtimeðferð er ekki heimilt að innheimta dagsektir eða stjórnvaldssektir fyrr en dómur hefur fallið. Þrátt fyrir málshöfðun til ógildingar ákvörðunar leggjast dagsektir áfram á viðkomandi aðila.
Ítarefni
Hvar finn ég reglurnar?
Lög nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá
