Eignarhald - jarðalög

.

Almennt

Samkvæmt jarðalögum ber lögaðilum sem uppfylla nánar tiltekin skilyrði að upplýsa ríkisskattstjóra um beint og óbeint eignarhald sitt, raunverulega eigendur sína og eftir atvikum stjórnarmenn og aðra stjórnendur sína fyrir 1. febrúar ár hvert.

Lögaðili er einungis upplýsingaskyldur að tveimur skilyrðum uppfylltum:

  1. Lögaðili á fasteign eða fasteignaréttindi sem falla undir 3. gr. jarðalaga, og
  2. Lögaðili uppfyllir eitthvert skilyrðanna í liðum a-c hér fyrir neðan:

  1. hefur annað hvort aðalstöðvar eða aðalstarfsemi í öðru ríki en Íslandi, hefur þar heimili samkvæmt samþykktum sínum eða um er að ræða útibú erlends félags á Íslandi,
  2. fellur undir lög um skráningu raunverulegra eigenda og er samanlagt að minnsta kosti að 1/3 hluta í beinni eða óbeinni eigu erlends/erlendra lögaðila eða er undir yfirráðum erlends/erlendra lögaðila, eða
  3. fellur undir lög um skráningu raunverulegra eigenda og er samanlagt að minnsta kosti að 1/3 hluta í beinni eða óbeinni eigu erlends fjárvörslusjóðs/erlendra fjárvörslusjóða eða sambærilegs/sambærilegra aðila eða er undir yfirráðum slíks eða slíkra aðila.

Markmiðið með upplýsingaskyldunni er m.a. að auka gagnsæi um eignarráð á fasteignum í beinni og óbeinni eigu erlendra lögaðila. Á þannig að vera unnt að greina alla beina og óbeina eigendur upplýsingaskylda lögaðilans, frá botni og upp í topp til (oftast) einstaklinganna sem eru efst í eigendakeðjunni, raunverulega eigendur hans og eftir atvikum stjórnendur.

Innsend gögn og upplýsingar

Eyðublaði RSK 17.31 ásamt fylgigögnum skal skilað til fyrirtækjaskrár fyrir 1. febrúar ár hvert. Fyrirtækjaskrá er heimilt að inna upplýsingaskylda lögaðila eftir frekari gögnum og upplýsingum ef ástæða þykir til.

Félagi, sem hefur áður greint frá upplýsingaskyldum atriðum með fullnægjandi hætti, er heimilt að skila inn yfirlýsingu þess efnis að engar breytingar hafi átt sér stað frá síðustu skilum, með vísan til áður innsendra upplýsinga og gagna. Sama gildir í tilvikum þar sem einungis minniháttar breytingar hafa átt sér stað frá síðustu skilum, en þá skal gera grein fyrir breytingunum í yfirlýsingunni og eftir atvikum skila inn frekari gögnum. Yfirlýsingin skal undirrituð prókúruhafa, stjórnarmanni eða framkvæmdastjóra upplýsingaskylda félagsins. 

Til að tryggja öryggi við miðlun gagna og upplýsinga skal skila gögnum rafrænt með Signet.

Nánari upplýsingar veitir fyrirtækjaskrá í síma 442-1250. Einnig má senda fyrirspurn á netfangið eignarhald@skatturinn.is.

.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar

Eyðublöð

Annað


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum