Almenn félagasamtök
Almenn félög - samtök
Skipulagsbundin félög sem starfa í þágu ófjárhagslegs tilgangs hafa verið nefnd almenn félög. Almenn félög eru skipulagsbundin, varanleg samtök tveggja eða fleiri aðila, sem stofnað er til af fúsum og frjálsum vilja með einkaréttarlegum löggerningi í því skyni að vinna að ófjárhagslegum tilgangi. Þar sem ekki er kveðið á um skipan almennra félaga í lögum skipta ákvæði samþykkta miklu við túlkun á réttarstöðu þeirra auk þess sem meginreglur félagaréttar koma þá til skoðunar. Almenn félög verða lögaðilar þegar þau hafa verið stofnuð og er skráning ekki skilyrði fyrir rétthæfi þeirra. Unnt er að fá þau skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra skv. lögum nr. 17/2003 um fyrirtækjaskrá en þau eru ekki skráningarskyld.
Sem dæmi um almenn félög má nefna stjórnmálaflokka, íþróttafélög, skákfélög, fagfélög, stéttarfélög, samtök vinnuveitenda, mannúðarfélög og menningarfélög.
Ófjárhagslegur félagsskapur
Með mönnum getur stofnast ófjárhagslegur félagsskapur sem svipar til sameignarfélaga nema tilgangurinn er ófjárhagslegur. Sem dæmi má nefna hóp vina og kunningja sem sameinast um að spila fótbolta einu sinni í viku eða fara í ferðalög, án þess þó að settar séu sérstakar reglur um félagsskapinn eða kosin stjórn.
Sem dæmi um ófjárhagslegan félagsskap má nefna, saumaklúbba, veiðiklúbba, vinahópa o.s.frv. Ekki er hægt að sækja um skráningu slíkra félaga.
Skráning
Hægt er að sækja um skráningu félagasamtaka sem uppfylla ákveðin skilyrði og eru með þá starfsemi að ástæða sé til að hafa skráð í opinberar skrár. Almenn félagasamtök sem hafa verið skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra eru t.d. félög með opna félagsaðild, þ.e. hver sem vill leggja málefnum félagsins lið getur gengið í félagið. Almenn félög eru oftast rekin á árgjöldum og er ekki ætlað að afla félagsmönnum tekna. Gangi félagsmaður úr félaginu á hann ekki tilkall til eigna þess. Við slit slíkra félaga renna eignir þeirra til þriðja aðila, t.d. góðgerðarmála. Þessu félagsformi er ekki ætlað að stunda atvinnurekstur.
Eftir að félagasamtök hafa verið stofnuð er hægt að sækja um skráningu þeirra með að fylla út eyðublað nr. 17.01 og skila inn ásamt samþykktum félagsins og tilkynningu um raunverulega eigendur.
Í þeim félögum þar sem enginn eigandi er þá er það sá/þeir sem raunverulega stjórna starfsemi félagsins sem teljast raunverulegir eigendur. Þetta geta verið stjórnarmenn, framkvæmdastjóri eða einhver einstaklingur / einstaklingar sem teljast stjórna starfseminni. Félögin sjálf verða að meta hver eða hverjir raunverulega stjórna starfseminni, við getum ekki ráðlagt hvað eigi að skrá, sjá nánar upplýsingar um skráningu raunverulegra eigenda.
Hér er sýnishorn af samþykktum en þar eru allar þær greinar sem þurfa að vera til staðar í samþykktum félagasamtaka.
Samþykktir verða að vera dagsettar og undirritaðar af stjórn félagsins.
Hægt er að koma með umsókn í afgreiðslu okkar, senda í pósti eða skanna inn og senda í tölvupósti á fyrirtaekjaskra@skatturinn.is
Umsóknir eru teknar fyrir vikulega.