Ferill fjárnáms
Þegar opinber gjöld eru ekki greidd getur komið til þess að krafa sé send í fjárnám. Hér er ferlið útskýrt og hvað hægt er að gera til að koma í veg fyrir að málið fari lengra.
Þú getur alltaf greitt – og stöðvað ferlið
Á öllum stigum fjárnámsferlisins getur þú greitt skuldirnar að fullu og þannig stöðvað áframhaldandi innheimtu.
Skattkröfur bera dráttarvexti og því nauðsynlegt að fá uppfærða stöðu á kröfunni þegar greiðsla fer fram. Þú getur séð uppfærða stöðu á Mínum síðum Ísland.is eða haft samband í síma 442-1000.
Fyrsta skref – greiðsluáskorun
Ef krafa hefur ekki verið greidd innan 15 daga frá birtingu greiðsluáskorunar, getur innheimtumaður sent fjárnámsbeiðni til sýslumanns.
Greiðsluáætlun frestar aðför
Ef þú vilt forðast að fjárnámsbeiðni fari af stað, þarftu að gera greiðsluáætlun. Það er hægt að gera:
- á Ísland.is – Upplýsingar um greiðsluáætlanir
- Hjá Skattinum í Katrínartúni 6 (fyrir fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu)
- Hjá viðkomandi sýslumanni (fyrir fólk og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins)
Ef gjöldin byggja á áætlun, getur þú komið með staðfestingu á framtalsskilum og bráðabirgðaútreikning og gera má greiðsluáætlun byggða á þeim.
Ágreiningur frestar ekki innheimtu
Ekki skiptir máli hvort um sé að ræða áætluð eða álögð gjöld – allar gjaldfallnar skuldir eru innheimtar.
Boðun til sýslumanns
Ef greiðsluáætlun hefur ekki verið gerð og krafan er ekki greidd, fer fjárnámsbeiðni til sýslumanns og þú færð boðun í fyrirtöku með stefnuvotti.
- Þú getur greitt kröfuna fyrir fyrirtöku og komið þannig í veg fyrir fjárnám.
- Ekki er hægt að gera greiðsluáætlun hjá Skattinum á meðan mál er til meðferðar hjá sýslumanni – en það er hægt eftir að fjárnámsaðgerð hefur farið fram.
- Boðun breytist ekki og fjárnám fer fram jafnvel þótt þú mætir ekki í fyrirtöku, ef boðun hefur tekist.
Hvaða eignum er hægt að gera fjárnám í?
Hægt er að gera fjárnám í:
- Fasteignum
- Lausafé, s.s. bifreiðum, bankainnistæðum o.s.frv.
Hvernig lýkur fjárnámi?
- Krafan greidd fyrir fjárnámið: Þá er beiðni afturkölluð.
- Ekkert greitt: Þá lýkur málinu annaðhvort með fjárnámi í eign eða árangurslausu fjárnámi.
Árangurslaust fjárnám skráist á vanskilaskrá Creditinfo og getur verið grundvöllur fyrir gjaldþrotaskiptum.
Eftir fjárnám – enn er hægt að bregðast við
Þú getur gert greiðsluáætlun eftir fjárnám og frestað frekari innheimtuaðgerðum, svo sem:
- Komið í veg fyrir að gjaldþrotaskiptabeiðni verði send vegna skulda fyrirtækis
- Skráningu á vanskilaskrá (ef fjárnámið var árangurslaust)
- Nauðungarsölu (ef fjárnámið var í eign)
Greiðsluáætlun er í gildi í 6 mánuði í senn og hægt að endurnýja hana einusinni – samtals í 12 mánuði.
Ef greiðslu fellur niður eða áætlun er ekki endurnýjuð, fer skráning á vanskilaskrá fram eða nauðungarsölubeiðni er send út.
Mikilvægt: Hafðu samband ef þú ætlar að greiða
Ef þú greiðir kröfuna samdægurs og fyrirtaka á að fara fram, verður þú að hafa samband við lögfræðideild innheimtu- og skráasviðs Skattsins til að tryggja að beiðnin verði dregin til baka í tæka tíð.
Einnig er mikilvægt að senda kvittun á netfangið vanskil@skatturinn.is, þar sem það getur tekið allt að tvo virka daga fyrir greiðslu að skila sér.