Greiðsluerfiðleikar

Gjaldfallnir skattar eru aðfararhæfir og er því hægt að krefjast fjárnáms hjá þeim sem skuldar til að tryggja greiðslu þeirra eftir að greiðsluáskorun hefur verið birt í dagblöðum og aðfararfrestur sem þar er gefinn upp er liðinn.

Með því að gera greiðsluáætlun um ógreidd gjöld er hægt að komast hjá þeim óþægindum og kostnaði sem fylgja innheimtuaðgerðum eins og til dæmis boðun í fjárnám. Hægt er að gera greiðsluáætlun um skatta og gjöld hjá þjónustufulltrúum lögfræðideildar innheimtu- og skráasviðs ríkisskattstjóra Skattsins, Katrínartúni 6.

Ef fjárnámsbeiðni hefur þegar verið send út er ekki hægt að gera greiðsluáætlun fyrr en búið er að ljúka fyrirtöku beiðninnar hjá sýslumanni.

Það frestar ekki sjálfkrafa innheimtu þó gjaldandi hafi kært skattáætlun eða þó ágreiningur sé um réttmæti álagningar. Alltaf þarf að hafa samband við innheimtumann ríkissjóðs til að fá frest á innheimtu. Þá þarf að hafa með sér móttökukvittun fyrir skilum skattframtals og bráðabirgðaútreikninginn sem hægt er að prenta út þegar skilað er rafrænt, en annars er hægt að fá staðfest afrit af framtali hjá ríkisskattstjóra til að sýna fram á væntanlega leiðréttingu.

Krafa er send til launagreiðanda um að halda eftir af kaupi launamanns vegna ógreiddra þing- og sveitarsjóðsgjalda. Hægt er að semja um lækkun á launaafdrætti vegna skattskulda með því að gera greiðsluáætlun. 

Lög og reglur 

Lög nr. 150/2019 um innheimtu opinberra skatta og gjalda

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum