Um Nordic Smart Government & Business

Norrænu atvinnuvegaráðherrarnir samþykktu 1. september 2020 áætlun um að koma hreyfingu á efnahagslífið í kjölfar COVID-19 og stuðla að sjálfbærum vexti í atvinnulífi á Norðurlöndum. Því tengt voru verkefni fjármögnuð sem eiga að styðja við sjálfbærar lausnir, hringrásarhagkerfi, stafræna þróun og nýsköpun. Stuðningur við samnorræna verkefnið Nordic Smart Government & Business (NSG&B) er hluti af þessari áætlun. Ríkisstjórn Íslands samþykkti formlega stuðning við að raungera framtíðarsýn NSG&B hér á landi þann 26. júní 2020.

Samræmt og samþætt viðskiptaumhverfi á Norðurlöndunum

Nordic Smart Government & Business vinnur að því að raungera stefnu norrænu forsætisráðherranna um að Norðurlöndin verði það landsvæði í heiminum sem er hvað mest samræmt og samþætt þegar horft er til viðskiptaumhverfisins. Markmiðið er að styðja við norræna velferð með því að fækka hindrunum og auka samstarf og samræmingu fyrirtækja í milli.

Nánar tiltekið vinnur NSG&B að því að Samstarfsyfirlýsing Norðurlanda-Eystrasaltsríkja um stafvæðingu Digital North verði að veruleika. Þar eru kynnt markmið stefnunnar um að svæðið verði í fararbroddi við stafvæðingu og að yfirvöldum og samfélagi verði gert auðvelt fyrir við umskipti yfir í stafrænt umhverfi. Vinnan mun einkum beinast að því að koma á fót sameiginlegu svæði fyrir stafræna þjónustu opinberra aðila yfir landamæri, að styrkja samkeppnishæfni fyrirtækja með stafvæðingu og að efla stafræna innri markaðinn á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

Þátttakendur í NSG&B koma frá fyrirtækjaskrám, skattyfirvöldum, hagstofum og fleiri aðilum á öllum Norðurlöndunum og er hvert land með eigið landsteymi. Skatturinn stýrir vinnu íslenska landsteymisins sem skipað er fulltrúum frá Skattinum, Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Hagstofu Íslands og Fjársýslu ríkisins.

Kynningarmyndbönd

Skjáskot úr kynningarmyndbandi um Nordic Smart Government and Business
A Smoother and Safer Future for Nordic Business
(opnast á youtube.com)

Skjáskot úr kynningarmyndbandi um Nordic Smart Government and Business 
Kynningarmyndband NSG&B 
(opnast á youtube.com)Meginmarkmið að staðla stafræn gögn fyrir viðskiptakerfi

Nordic Smart Government & Business miðar að því að gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að miðla og sækja viðskiptagögn á sjálfvirkan og öruggan hátt í rauntíma.

Hugmyndin er að gera viðskiptaferla við kaup og sölu á vöru og þjónustu sjálfvirka með aðstoð stafrænnar tækni þannig að upplýsingar í keðjunni frá birgjum til fyrirtækja og frá fyrirtækjum til viðskiptavina ferðist með stafrænum hætti, bæði innanlands og á milli Norðurlandanna.

Gert er ráð fyrir að fyrirtæki geymi viðskiptagögnin í eigin viðskiptakerfum og deili þaðan upplýsingum með stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum eftir því sem við á, t.a.m. bönkum, tryggingafélögum, endurskoðunarfyrirtækjum og öðrum þjónustuaðilum. Hverju fyrirtæki verður í sjálfsvald sett hvort og þá hvaða gögnum það deilir og með hverjum.

Til að raungera þessa sýn þurfa pantanir, reikningar og kvittanir fyrirtækja og stofnana að vera hvoru tveggja, á stafrænu og stöðluðu formi. Stöðlun gagna skiptir höfuðmáli og er forsenda þess að hægt sé að vinna verk með sjálfvirkum hætti. Í slíkum tilvikum hentar hvorki að gögn séu á PDF formi né á pappír.

Margþættur ávinningur af aðgengilegum viðskiptagögnum fyrir rekstur fyrirtækja

Ávinningurinn af því að gera viðskiptagögn aðgengileg fyrirtækjum og stofnunum á sjálfvirkan og öruggan hátt í rauntíma er mikill.

Mestur er ávinningurinn í tengslum við sjálfvirkt flæði gagna, t.d. í bókhaldi og skýrslugerð. Það gerir fyrirtækjum kleift að hagræða í rekstri og auðveldar þeim fjárhags- og birgðastýringu. Þá styður aðgengi að uppfærðum viðskiptagögnum við nýsköpun á sviði stafrænnar þjónustu og auðveldar lánastofnunum sem og tryggingafélögum að vinna lánshæfis- og áhættumat og fyrirtækjum þar með fjármögnun.

Þá má einnig nefna eftirfarandi ávinning:

  • Stjórnsýsluálag á lítil og meðalstór fyrirtæki minnkar.
  • Sparar tíma við bókhald og skýrslugerð.
  • Gagnsæi í opinberri stjórnsýslu eykst sem aftur eykur traust.
  • Viðskipti milli Norðurlandanna verða einfaldari og samkeppnin því virkari.
  • Dregur úr pappírsnotkun sem styður við umhverfissjónarmið.

Vegvísir til framtíðar

Í vegvísi að stafrænu vistkerfi Nordic Smart Government & Business eru skilgreind markmið og fyrirhugaður árangur auk helstu áfanga á þeirri vegferð að gera framtíðarsýn NSG&B að veruleika. Fjölda verkefna þarf að vinna til að raungera þessa framtíðarsýn og ná fram fjárhagslegum ávinningi. NSG&B vísar veginn en innleiðing breytinganna er í höndum opinberra aðila og atvinnulífs.

Ólíkir hagsmunir leggjast á eitt um innleiðingu Nordic Smart Government & Business. Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Litla Ísland fagna verkefninu, telja stafrænu úrræðin sem þar eru kynnt löngu tímabær og hvetja eindregið til þess að verkefnið hljóti skjóta framgöngu.

Vegvísir að stafrænu vistkerfi NSG&B 
Verkefnaskrá

Verðmætasköpun með stafrænum lausnum (Glærur af opnum fundi fyrir hagaðila 27.11.2020)

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um Nordic Smart Government & Business, vegvísi á ensku og viðauka með honum, má finna á heimasíðu verkefnisins www.nordicsmartgovernment.org.

Ítarefni

Niðurstöður könnunnar gerð meðal íslenskra fyrirtækja.

Nordic Smart Government í samráðsgátt.

Vegvísir Nordic Smart Government

Verkefnaskrá

Glærur af opnum fundi fyrir hagaðila 27.11.2020: Verðmætasköpun með stafrænum lausnum


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum