Annáll tollasögu
Tollheimta og gæsla
Upphaf tollheimtu á Íslandi má rekja allt til ársins 1872 þegar í gildi gekk konungleg tilskipun um innheimtu tolls af áfengum drykkjum öðrum en áfengu öli. Þá annaðist bæjarfógetaembættið í Reykjavík tollheimtuna. Árið 1911 voru svo sett heildartollalög þar sem lagður var tollur á áfengi, öl, gosdrykki, tóbak, kaffi, te, sykur, sýróp, súkkulaði, kakó, brjóstsykur og konfekt.
Árið 1917 voru samþykkt lög frá Alþingi sem sögðu að stofna skyldi sérstaka tollgæslu fyrir Reykjavík og í apríl 1918 var fyrsti tollvörðurinn ráðinn til starfa. Embætti tollstjórans í Reykjavík var svo sett á stofn með lögum nr. 67/1928 sem tóku gildi 1. janúar 1929 og var Jón Hermannsson fyrsti tollstjórinn í Reykjavík. Síðan hafa gegnt starfinu Torfi Hjartarson, Björn Hermannsson, Snorri Olsen og nú Sigurður Skúli Bergsson.
Í upphafi var aðstaða tollgæslunnar nær engin en um mitt ár 1920 var fyrsta tollvarðstofan tekin í notkun í hafnarpakkhúsinu. 1934 var svo flutt í nýbyggt Hafnarhús og tollgæslan fékk skrifstofu, varðstofu og geymslur. Árið 1960 voru starfsmenn tollstjórans í Reykjavík orðnir 50 talsins og ljóst að bæta þyrfti aðstöðu embættisins til muna. Þá var ráðist í að byggja Tollhúsið við Tryggvagötu og var það tekið í notkun 1971.
Árið 2007 var tollumdæmum fækkað úr 26 í átta og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað. Eftir þessa breytingu náði það frá Straumsvík norður í Gilsfjörð og féllu undir það tollumdæmi sýslumannanna í Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Búðardal og tollumdæmi sýslumanns Snæfellinga.
Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra. Við gildistöku laganna tók embætti tollstjórans í Reykjavík við réttindum og skyldum gagnvart öllum tollvörðum sem voru starfandi hjá öðrum tollembættum í landinu. Jafnframt breyttist heiti embættisins frá sama tíma í Tollstjóri.
Í dag starfa hjá Tollstjóra um 180 manns og fer starfsemin fram á þremur stöðum í Reykjavík, auk starfsstöðva á Akureyri, Eskifirði, Ísafirði, Keflavíkurflugvelli, Selfossi, Seyðisfirði og Vestmannaeyjum.
1929-1969
1929
Tollstjóraembættið í Reykjavík varð til við skiptingu lögreglustjóraembættisins í Reykjavík. Fyrsti tollstjórinn var Jón Hermannsson, áður lögreglustjóri, en hann lét af embætti 1943. Hlutverk embættisins var þá eins og nú tollgæsla ásamt innheimtu á tollum og sköttum fyrir ríkissjóð.
1932
Tollgæslu var sinnt við erfiðar aðstæður fyrstu árin, en tollvörðum fjölgaði og vöruskoðunardeild, sem fylgdist með innflutningi, var stofnuð 1932.
1934
Tollgæslan fékk mun betri aðstöðu í Hafnarhúsinu sem þá var nýbyggt. Þar var póstafgreiðsla og fór tollgæslan þá líka að sinna eftirlit með póstflutningi til landsins.
1943
Torfi Hjartarson skipaður tollstjóri í Reykjavík. Torfi gegndi embættinu árin 1943 til 1972.
1967
Tollskóla fyrir tollverði og tollendurskoðendur var komið á fót í tollstjóratíð Torfa Hjartarsonar.
1970-1989
1971
Tollhúsið við Tryggvagötu var tekið í notkun. Bygging hússins var framfaraskref og hýsir enn starfsemi embættisins að talsverðu leyti.
Hér má lesa byggingarsögu Tollhússins.
1973
Björn Hermannsson skipaður tollstjóri í Reykjavík hann gegndi embættinu til ársins 1997.
1987
Ríkistollstjóraembættið var stofnað með nýjum tollalögum. Með sérstakri lagaheimild var tollstjórinn í Reykjavík, Björn Hermannsson, settur til að gegna jafnframt stöðu ríkistollstjóra.
Ríkistollstjóraembættið fór með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits í landinu í umboði fjármálaráðherra, en meðal verkefna þess var að hafa eftirlit með og samræma tollframkvæmd, starfrækja og þróa tölvukerfi fyrir tollafgreiðslu og sinna alþjóðlegu samstarfi tollyfirvalda.
Ríkistollstjóri hafði forgöngu um að rafrænni tollafgreiðslu var ýtt úr vör. Nýir tollafgreiðsluhættir höfðu í vaxandi mæli áhrif á tolleftirlit, bæði tollgæslu og tollendurskoðun, ásamt þeirri byltingu í farmflutningum sem varð þegar gámar komu til sögunnar á níunda áratugnum.
1990-1999
1990
Tollstjórinn í Reykjavík lét af stjórn ríkistollstjóraembættisins. Ríkistollstjóri varð Sigurgeir A. Jónsson.
Hætt var að tollafgreiða skip á ytri höfninni í Reykjavík og síðasti tollbáturinn seldur.
1997
Snorri Olsen skipaður tollstjóri í Reykjavík og gengdi hann embættinu þar til í október 2018.
1998
Tollstjóraembættið tók við allri innheimtu skatta í borginni þegar Gjaldheimtan í Reykjavík var lögð niður. Þá fól fjármálaráðuneytið embættinu að hafa eftirlit með innheimtu á landinu öllu og gegna leiðbeiningar- og samræmingarhlutverki hvað hana varðar.
Nokkrir tollverðir voru fluttir frá ríkistollstjóra til tollstjórans í Reykjavík og stofnuð var fíkniefna- og rannsóknardeild hjá tollstjóraembættinu sem m.a. átti að aðstoða við tollgæslu á landinu, en áður hafði sérstök leitar- og rannsóknardeild látið talsvert að sér kveða í þeim efnum.
2000-2009
2000
Tollgæslan flutti starfsemi sína að mestu í Tollmiðstöð við Héðinsgötu. Tollverðir voru ekki lengur staðsettir í vörugeymslum.
2001
Ríkistollstjóraembættið var lagt niður, m.a. til þess að auðvelda samnýtingu starfskrafta og styrkja tollgæsluna. Voru tollgæsluverkefni ríkistollstjóraembættisins að meginstefnu til falin tollstjóraembættinu í Reykjavík.
Gegnumlýsingarbifreið var keypt fyrir tollgæsluna í Reykjavík.
2002
Undirritaður var samningur við Biskupsstofu um að tollgæslan annaðist forvarnir gegn fíkniefnum meðal fermingarbarna.
2004
Tollstjóranum í Reykjavík falið að hafa umsjón með farmvernd á landsvísu, en í samræmi við alþjóðlega þróun eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum 11. september 2001 var talið nauðsynlegt að efla eftirlit með vöruflutningum milli landa, m.a. svo unnt væri að rekja feril vöru frá upphafsstað til innflutningshafnar.
2006
Ríkisstjórnin samþykkti að embætti tollstjórans í Reykjavík skyldi sjá um að leitað yrði tilboða í gámaskönnunarbifreið með það að markmiði að efla aðgerðir gegn fíkniefnasmygli og tryggja öryggi vöruflutninga.
2007
Tollumdæmum var fækkað og umdæmi tollstjórans í Reykjavík stækkað. Það nær nú frá Straumsvík norður í Gilsfjörð og féllu undir það tollumdæmi sýslumannanna í Hafnarfirði, Kópavogi, Akranesi, Borgarnesi og Búðardal og tollumdæmi sýslumanns Snæfellinga.
2008
Tollstjórinn í Reykjavík semur við kínverskt fyrirtæki um smíði gámaskönnunarbifreiðar sem kom til landsins um haustið.
2009
Landið eitt tollumdæmi
Þann 1. janúar 2009 tóku gildi lög númer 147/2008 um breytingu á tollalögunum númer 88/2005 og fleiri lögum. Eftir breytinguna er Ísland eitt tollumdæmi sem heyrir undir embætti tollstjóra. Við gildistöku laganna tók embætti tollstjórans í Reykjavík við réttindum og skyldum gagnvart öllum tollvörðum sem voru starfandi hjá öðrum tollembættum í landinu. Jafnframt breyttist heiti embættisins frá sama tíma í Tollstjóri. Eftir breytinguna eru starfsmenn embættisins tæplega 250 talsins.
Markmiðið með skipulagsbreytingunni er að einfalda skipulag tollamála, jafnt faglega, stjórnunarlega og fjárhagslega enda verður framkvæmd tollamála í landinu á hendi eins embættis í stað átta embætta áður. Gert er ráð fyrir að breytingin stuðli að aukinni skilvirkni, jafnræði og árangursríkari tollframkvæmd auk þess sem henni er ætlað að hafa í för með sér hagræði fyrir atvinnulífið, þegna landsins og þjóðfélagið í heild sinni.
Gámaskönnunarbifreið afhent
9. janúar 2009 fékk Tollstjóri afhenta gámaskönnunarbifreið af fullkomnustu gerð. Um er að ræða mjög öflugt tæki sem getur skannað 40 feta gám á minna en mínútu og birt nákvæmar myndir af innihaldi hans.
Rúmlega tveimur árum fyrr 10. nóvember 2006 samþykkti ríkisstjórnin að fela tollstjóraembættinu að leita tilboða í kaup á slíku tæki með það að markmiði að efla aðgerðir gegn fíkniefnasmygli og til að auka öryggi vöruflutninga.
2010-2020
2010
Starfsstöðvum fækkað
Starfsstöðvum embættis Tollstjóra að Héðinsgötu og á Skúlagötu var lokað á árinu en á árinu 2010 eru tollstöðvar áfram á hafnarsvæðinu við Klettagarða og á tollpóststofunni auk tollafgreiðslu við Cuxhavengötu í Hafnarfirði og í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Á Keflavíkurflugvelli var tollafgreiðslu á Blikavöllum lokað og er öll starfsemin nú á einum stað í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að auki er embætti Tollstjóra með starfsstöðvar á Akureyri, Eskifirði, Ísafirði, Selfossi, Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum.
Samfara flutningunum var lagt í heilmikla endurnýjun og breytingar á húsnæði bæði á Tryggvagötu og í Leifsstöð.
Með breytingunum er stefnt að aukinni hagræðingu í rekstri með lægri leigukostnaði og minni akstri milli starfsstöðva. Hagræðing þessi hefur í för með sér betri nýtingu á starfsmönnum og embættið verður betur í stakk búið til að sinna lögboðnum skyldum á sama tíma og fjárheimildir lækka.
Um tímamót er að ræða því að í fyrsta skipti í langan tíma er stærstur hluti stjórnsýslu Tollstjóra kominn í eitt hús, Tollhúsið við Tryggvagötu.
Samstarfssamningar
Á árinu 2010 var skrifað var undir samstarfssamninga við Varnarmálastofnun, Samtök verslunar og þjónustu og Fiskistofu.
2011
Aðildarumsókn að ESB
Vinna vegna umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu var í brennidepli hjá Tollstjóra árið 2011. Þá var ráðist í umfangsmiklar framkvæmdir í Tollhúsinu og mikið starf unnið við framkvæmd laga um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum.
Evrópuskóli Tollstjóra tók til starfa í marsmánuði 2011. Meginmarkmiðið með starfrækslu skólans er að efla þekkingu starfsfólks á samvinnu ríkja Evrópu og Evrópusambandinu.
Starfsemi Tollstjóra var í tvígang tekin út á árinu af ráðgjöfum á vegum Evrópusambandsins. Fyrri úttektin fór fram í maí og sú seinni í september. Niðurstöður þeirra mun Tollstjóri hagnýta í stefnumótun sem nú fer fram undir yfirskriftinni „Tollstjóri 2020“.
Verkefnið „Ný tollakerfi“ var gangsett með tilheyrandi stjórnskipulagi, stýrihópi og verkefnisstjórn. Megin verkefni verkefnisstjórnar á síðasta ársfjórðungi var að skrifa svokallaða fisju eða lýsingu á verkefninu vegna umsóknar um IPA styrk til Evrópusambandsins. Þeirri vinnu lauk í maí 2011.
Breytingar á Tollhúsinu
Töluverðar breytingar voru gerðar á Tollhúsinu á fyrri hluta ársins 2011. Í afgreiðslusalnum á 5. hæð var útbúin vinnuaðstaða fyrir fjóra þjónustufulltrúa og biðsalur fyrir viðskiptavini þeirra. Framlína Tollstjóra er því nú öll á sömu hæð til hægðarauka fyrir viðskiptavini. Gagngerar breytingar voru gerðar á húsnæðinu í vesturenda 4. hæðar sem áður var húsnæði Skattstjórans í Reykjavík. Þá var útbúin ný kennslustofa og bókasafn á 3. hæð.
Greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum
Stærsta verkefni innheimtusviðs á árinu 2011 var framkvæmd laga nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri. Er lögunum ætlað að veita einstaklingum og lögaðilum í atvinnurekstri tækifæri til þess að koma vanskilum á opinberum gjöldum í skil.
Hvað árangur í innheimtu skatta og gjalda varðar leiðir samanburður milli áranna 2011 og 2010 í ljós að skil hafa aukist um 2,02%.
2012
Fjölmörg umfangsmikil verkefni í tengslum við umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu voru í brennidepli hjá Tollstjóra árið 2012. Lögð voru drög að mótun upplýsingatæknistefnu og samskiptastefnu embættisins, auk þess sem hugbúnaðarverkefni voru ofarlega á baugi. Við blasir að þeim muni fjölga verulega verði af inngöngu í ESB.
Á árinu sótti embættið um svokallaðan IPA styrk til Evrópusambandsins. Sú umsókn hlaut jákvæð viðbrögð og var tæpum milljarði veitt til upptöku nýrra tollkerfa. Hvort sem af inngöngu Íslands í Evrópusambandið verður eður ei, er ljóst að þeir fjármunir og sú mikla vinna sem lögð hefur verið í undirbúning þess mun nýtast til að efla innviði embættisins til muna, til framtíðar litið.
Unnið var af krafti að upptöku nýrra tollkerfa á árinu. Ljóst var að fjölga þyrfti starfsfólki hjá embættinu, meðal annars til að manna verkefnin, en einnig til annarra starfa. Á árinu voru nýráðningar 34 talsins og nam heildarfjöldi starfsmanna í árslok 238 manns. Gerðar voru breytingar á rýminu í norðvesturhluta Tollhússins til að skapa þeim starfsmönnum, sem vinna að þessum verkefnum, starfsaðstöðu. Gekk sú vinna fljótt og vel og var endurbætt starfsstöð verkefnahópanna tekin í notkun um mitt ár 2012.
Af öðrum nýjum verkefnum sem voru í undirbúningi hjá embættinu má nefna verkefni um viðurkennda rekstraraðila. Það ber enska heitið „Authorised Economic Operator,“ (AEO). Rétt þótti að stefna að upptöku þessa kerfis með tilliti til einföldunar tollmeðferðar, öryggis og verndar.
Evrópuskóli Tollstjóra bauð til námskeiðs um tollabandalag Evrópusambandsins. Um 100 manns sóttu námskeiðið. Var þar bæði um að ræða starfsmenn Tollstjóra og starfsmenn annarra stofnana og fyrirtækja, sem sóttu sér fræðslu um þetta málefni. Af öðrum viðburðum á vegum mannauðssviðs er vert að geta árlegrar heilsuviku, sem mannauðssvið stóð fyrir síðastliðið vor og þótti heppnast mjög vel.
Starfsstöð Tollstjóra í Hafnarfirði var lokað 1. september 2012. Starfsfólki þar var boðið starf í öðrum starfsstöðvum embættisins. Viðskiptavinum, sem nýttu sér þjónustuna í Hafnarfirði, er nú þjónað af starfsfólki Tollstjóra á Tryggvagötu og í Klettagörðum.
Í desember 2011 var hlutverk Tollstjóra við innheimtu skatta og gjalda lögfest á Alþingi. Við lögfestinguna fékk Tollstjóri auknar valdheimildir til að sinna eftirlits- og samræmingarhlutverki sínu á sviði innheimtu opinberra gjalda gagnvart öðrum innheimtumönnum ríkissjóðs. Starfshópur á innheimtusviði vinnur nú að stefnumótun í þessum efnum.
Nýtt stjórnskipulag Tollstjóra leit dagsins ljós í byrjun árs 2013. Þær breytingar voru unnar í tengslum við stefnumörkun embættisins „Tollstjóri 2020“ og hófst undirbúningurinn í mars 2012. Í nýja stjórnskipulaginu er starfsemi embættisins skipt upp í tvö kjarnasvið eins og áður, það er innheimtusvið og tollasvið. Stoðsvið eru nú þrjú, í stað tveggja áður; mannauðssvið, rekstrar- og upplýsingatæknisvið og þróunarsvið. Auk þessa er um að ræða starfsemi innri endurskoðunar og skrifstofu tollstjóra.
2013
Það sem var öðru fremur einkenndi starfsemi Tollstjóra á árinu 2013 var þróttmikið starf að fjölmörgum umfangsmiklum verkefnum er varða stefnumótun og framþróun kjarnastarfsemi embættisins, það er tollamál og innheimtumál. Má þar helst nefna vinnu að mótun verkefnastjórnunar, skjalastjórnunar, gæðastjórnunar og upplýsingastjórnunar. Einnig vinnu að umhverfisstefnu, ytri þjónustugátt embættisins og verkefni um öryggismál.
Ákvörðun var tekin um að koma á fót innan embættisins vottuðu gæðastjórnkerfi samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Staða gæðastjóra var auglýst og ráðið í hana.
Þá var sérstöku verkefni, Viðurkenning rekstraraðila -Innleiðing á AEO, hleypt af stokkunum. Um er að ræða ákveðna aðferðafræði til að tryggja öryggi milliríkjaviðskipta og greiða fyrir viðskiptum. Þessi aðferðafræði felur í sér ávinning fyrir tollyfirvöld og atvinnulífið. Stefnt er að upptöku AEO-kerfisins á næsta ári.
Ofangreind verkefni eru öll undir hatti framtíðarsýnar embættisins „Tollstjóri 2020“ sem viðkemur fjármálum, þjónustu, innra starfi og mannauði. Til grundvallar eru lögð gildi Tollstjóra; traust, samvinna og framsækni. Í tengslum við þessa stefnumörkun embættisins var ákveðið að gera breytingar á stjórnskipulagi embættisins, sem kynnt var á árinu.
Í upphafi árs 2013 færðist nýtt verkefni yfir á borð Tollstjóra, í kjölfar breytingar á lögum um innlend vörugjöld nr. 97/1987. Með henni færðist álagning vörugjalda á innflutning og innlenda framleiðslu, ásamt innheimtu þeirra frá Ríkisskattstjóra til embættis Tollstjóra.
Línur varðandi breytingar á Tollhúsi skýrðust á árinu 2013. Fallið var frá hugmyndum um gerð bílastæða á þaki þess, þar sem kostnaður við þær breytingar þótti of hár. Þess í stað gerir ný tillaga ráð fyrir að Tollstjóra verði áfram úthlutað bílastæðum í nágrenni við bygginguna og að auki 500 fermetra rými á 1. hæð, sem útbúið verði fyrir tæki og bifreiðar. Þá voru hafnar framkvæmdir við breytingar í vesturenda byggingarinnar, þar sem aðstaða verður fyrir húsverði, ræstitækna, starfsmenn í póstdreifingu og hjólageymslu.
Í desember 2013 varð ljóst að svokallaðir IPA styrkir Evrópusambandsins til embættis Tollstjóra myndu ekki koma til afgreiðslu. Ástæðan er sú að samningur þess efnis hafði ekki verið undirritaður þegar vatnaskil urðu í viðræðum um inngöngu Íslands í sambandið. Verkefnum, sem verið höfðu í vinnslu innan embættisins var því lokað að sinni. Vert er að geta þess að sú vinna, sem farið hafði fram vegna þessa mun koma embættinu til góða með margvíslegum hætti til framtíðar litið.
2014
Embætti Tollstjóra tókst á við mörg, umfangsmikil og metnaðarfull verkefni á árinu 2014. Mikilvægast þeirra var áframhaldandi vinna við stefnumótunarferli embættisins undir verkefninu „Tollstjóri 2020“ og umbótaverkefni tengd því. Þar má nefna verkefnaskrá og verkefnastjórnun. Hið síðarnefnda leggur grunn að möguleikum embættisins á að ráðast í fleiri og viðameiri umbótaverkefni en áður, þrátt fyrir niðurskurð fjármuna, því góð og skilvirk verkefnastjórnun skilar betri nýtingu fjármagns.
Af öðrum viðamiklum verkefnum á sóknaráætlun embættisins, sem unnið var að, má nefna innleiðingu áhættustjórnunar sem felur meðal annars í sér skráningu áhættuþátta allra sviða embættisins, mat á þeim og viðbrögð. Unnið var að innleiðingu virks gæðastjórnkerfis samkvæmt ISO 9001 staðli. Tilgangur þess er að samræma verklag, auðvelda rýni og úrbætur, auka skilvirkni og hagkvæmni og veita góða þjónustu.
Þá var unnið að verkefni sem snýst um viðurkenningu rekstraraðila. Ávinningur af því er meðal annars öruggari vörukeðja, aukin skilvirkni við eftirlit og betri nýting á mannauði og fjárveitingum.
Síðast en ekki síst er að nefna verkefnastofn sem hefur að markmiði að styðja við upptöku rafrænnar þjónustu með því að innleiða eina rafræna þjónustugátt fyrir helstu þjónustuþætti Tollstjóra og samstarfsaðila.
Öll eiga þessi umbótaverk, svo og önnur sem unnin eru innan embættisins, það sameiginlegt að gildi Tollstjóra traust, samvinna og framsækni eru höfð að leiðarljósi.
Á árinu var unnið að innleiðingu jafnlaunastaðals hjá embættinu. Um er að ræða tilraunaverkefni og er staðallinn ætlaður sem grundvöllur fyrir vottunarkerfi sem varðar launajafnrétti kynja á vinnustöðum.
Þá var ráðist í að uppfæra vefumsjónarkerfi embættisins enda var það orðið barn síns tíma og hafði ekki yfir að ráða möguleikum til samskipta sem nútímatækni hefur upp á að bjóða.
Á árinu stóðu yfir nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir meðal annars á 4. hæð Tollhússins þar sem orðið hafði vart rakaskemmda og afleiðinga í kjölfar þeirra. Var í framhaldi ákveðið að hefja einnig lagfæringar á þaki á 3. hæð og búa jafnframt svo um hnúta að slíkum skemmdum yrði með öllu úthýst.
Starfsmannafélag starfaði af miklum þrótti og bauð upp á metnaðarfulla og þétta dagskrá. Í Heilsuviku, sem mannauðssvið embættisins stóð fyrir að venju, var lögð áhersla á heilsueflingu á vinnustað. Í tengslum Í tengslum við hana var formlega opnuð íþróttaaðstaða í Tollhúsinu fyrir starfsfólk embættisins.
Níu tollverðir voru útskrifaðir að vori úr Tollskóla ríkisins við hátíðlega athöfn sem fram fór í hátíðarsal Tollstjóra.
Með vorskipunum bárust svo þau ágætu tíðindi að sigur hefði unnist í ljósmyndakeppni WCO 2014. Var Tollstjóra afhendur verðlaunagripur af því tilefni.
Embættið fékk margar góðar heimsóknir á árinu. Meðal gesta voru fjármálaráðherra Grænlands
og fulltrúar frá finnska og norska tollinum. Þá fór fram fundur íslenskra, færeyskra og grænlenskra toll– og skattyfirvalda hjá embætti Tollstjóra. Voru fundir með ofangreindum aðilum mjög upplýsandi og gagnlegir.
2015
Mikilvægir áfangasigrar í starfi að stefnumótun embættis Tollstjóra til ársins 2020 settu svip sinn á árið 2015. Í aprílmánuði hlaut embættið viðurkenningu vottunarstofu þess efnis að Tollstjóri hefði innleitt gæðastjórnunarkerfi, ISO 9001, sem tekur til allra þátta starfseminnar. Að baki lá umfangsmikið starf starfsmanna Tollstjóra, sem allir lögðu sig fram um að vinna að þessu mikilvæga verkefni, sem tvímælalaust hefur jákvæð áhrif á innra og ytra starf embættisins. Í maí undirrituðu svo fjármála-og efnahagsráðherra og Tollstjóri árangursstjórnunarsamning embættisins sem gildir til ársins 2020. Með þeim samningi er lagður grunnur að áætlanagerð og árangursmati á sviði tolla-og innheimtumála á grundvelli stefnuskjalsins Tollstjóri 2020.
Á árinu var unnið að fjölda mikilvægra verkefna til viðbótar sem eru á sóknaráætlun embættisins og hefur þeirri vinnu að jafnaði miðað vel. Rauði þráðurinn í þessari verkefnavinnu er að færa embættið nær þeirri framtíðarsýn að vera framsækin ríkisstofnun sem leggur áherslu á að hlúa að mannauði sínum, veita góða og skilvirka þjónustu og standa vörð um hagsmuni almennings og atvinnulífs. Það mikla umbótastarf sem unnið er innan embættisins styður við lögbundin, umfangsmikil verkefni kjarnasviða embættisins, tollasviðs og innheimtusviðs, að vernda samfélagið og tryggja ríkinu tekjur.
Á árinu var lokið við nokkur þeirra verkefna er tengjast tolleftirliti. Má þar nefna greiningarskýrslu varðandi farþegalista. Í framhaldi af því var hafin vinna í fjármálaráðuneytinu við gerð nýrrar löggjafar í samráði við embættið. Um var að ræða fyrsta skref í verkefni á sóknaráætlun um aukið rafrænt upplýsingaflæði frá flugrekstraraðilum og farmflytjendum. Þá var lokið við skráningu verklagsreglna um leitarhunda Tollstjóra svo og greiningu á aðstöðumálum tollgæslu og rafrænni afgreiðslu skipa. Í lok árs var svo tekin ákvörðun um að fjölga tollvörðum á landamærum til að bregðast við aukinni áhættu.
Í ársbyrjun 2015 varð umtalsverð stækkun á innheimtuumdæmi Tollstjóra sem hafði mikil áhrif á starfsemi innheimtusviðs á árinu.
Í júnímánuði var nýr upplýsingavefur Tollstjóra opnaður eftir að umtalsverðar breytingar höfðu verið gerðar á útliti og virkni hans. Hann leysti af hólmi þrjá eldri vefi og var kappkostað að gera hann mun þjónustuvænni og aðgengilegri heldur en hina eldri.
Endurbótum við Tollhúsið var fram haldið á árinu. Af þeim sökum þurfti að færa starfsemi endurskoðunardeildar embættisins tímabundið til Hafnarfjarðar.
Í byrjun árs tók Tollstjóri þá ákvörðun að lengja til reynslu opnunartíma afgreiðslu embættisins á Tryggvagötu á fimmtudögum til kl. 18:00. Var það gert til að auka þjónustu við viðskiptavini embættisins. Þetta fyrirkomulag þótti reynast svo vel að ákveðið var að þessi háttur yrði hafður á til lengri tíma.
Verkfall starfsmanna innan vébanda SFR setti svip sinn á haustmánuði. Það hafði víðtæk áhrif á starfsemi embættisins en öll kerfi Tollstjóra voru þó aðgengileg og móttaka rafrænna gagna með venjubundnum hætti.
Starfsmannafélag starfaði sem fyrr af miklum þrótti. Á þeim bænum var starfsmönnum boðið upp á þétta og metnaðarfulla dagskrá, þar sem samvera og skemmtun voru í fyrirrúmi. Mannauðssvið stóð að venju af myndarskap fyrir sérstakri heilsueflingu á vinnustað og að þessu sinni var ákveðið að verja til þessa mánuði í stað viku áður til þess að dagskráin yrði ekki eins þétt og ella hefði orðið.
Margir góðir gestir heimsóttu embættið á árinu og kynntu sér starfsemi þess. Má þar nefna fulltrúa frá fjármála-og efnahagsráðuneytinu. Eins sóttu margir starfsmanna Tollstjóra fundi og ráðstefnur heima og erlendis til að afla sér frekari þekkingar og miðla úr sínum eigin reynslubanka.
2016
Með vaxandi færni í verkefnastjórnun er Tollstjóri að ráðast í fleiri umbótaverkefni en áður að eigin frumkvæði þrátt fyrir niðurskurð lagt er upp með að ná meiri árangri en áður með því fjármagni sem veitt er til embættisins. Þannig vilja starfsmenn Tollstjóra sýna metnað, ábyrga stjórnsýslu og samfélagslega ábyrgð í verki. Til að veita innsýn í verkefni sem eru á sóknaráætlun og lokið hefur verið við má nefna innleiðingu hins séríslenska jafnlaunastaðals ÍST 85:2012 en henni lauk hjá embættinu með úttekt og vottun í september 2016. Embætti tollstjóra var brautryðjandi í innleiðingunni, fyrsta stofnunin til að öðlast faggilta vottun á jafnlaunakerfi samkvæmt ÍST 85:2012 og því handhafi vottunarskírteinis frá Vottun hf. númer 1.
Niðurstöður viðhorfskannana meðal starfsmanna, almennings og samstarfsaðila benda til að ágætlega gangi að innleiða stefnu Tollstjóra.
Margir þættir komu ánægjulega út í viðhorfskönnun meðal starfsmanna Tollstjóra, sem Gallup annaðist að beiðni stjórnenda embættisins, í lok nóvember og desember 2016. Tilgangurinn með könnuninni var sem fyrr að afla upplýsinga um stöðu valdra þátta sem eru mikilvægir í uppbyggingu góðs vinnustaðar. Hversu vel/illa Tollstjóri framfylgir hlutverki sínu á sviði innheimtumála og fullyrðingar þess efnis að starfsmenn viti til hvers er ætlast af þeim í starfi, upplifi að vinnufélagarnir leggi sig alla fram við að skila vel unnu verki, umhyggju og starfsánægju eru þeir þættir sem Tollstjóri fékk nú hæstu meðaleinkunn á en hún liggur á bilinu 4,10 - 4,27 á kvarðanum 1 - 5. Þróunin hvað stjórnun varðar hefur verið mjög jákvæð frá fyrstu mælingu sem gerð var árið 2013 og hefur viðhorf starfsmanna í garð stjórnenda stefnt upp á við. Stjórnendur hjá Tollstjóra eru aðgengilegir og láta sér annt um velferð starfsmanna sinna. Þá treystir starfsfólk embættisins yfirmanni sínum vel. Aðgengi, umhyggja, traust og hjálpsemi eru þeir þættir sem yfirmenn fá nú hæstu meðaleinkunn á eða rúmlega 4,5 á kvarðanum 1-5. Þá hækkaði embætti Tollstjóra um nítján sæti í könnun SFR, " Stofnun ársins 2016."
Þeim sem eru jákvæðir í garð Tollstjóra fjölgar heldur milli ára samkvæmt nýrri könnun Maskínu á viðhorfi almennings til stofnunarinnar. Könnunin var gerð 21. - 31. október 2016. Samkvæmt henni eru 37.8 prósent svarenda mjög jákvæðir eða fremur jákvæðir í viðhorfi sínu til embættisins, en voru 37. 4 prósent árið áður og 24.6 prósent 2014. Þá fækkar þeim sem eru neikvæðir eða mjög neikvæðir gagnvart embættinu úr 13.7 prósentum í 11.7 milli ára 2015 og 2016. Stærsti hópurinn, þeir sem eru í meðallagi ánægðir/óánægðir mældist nú 50.5 prósent en voru 48.8 í síðustu könnun.
Samstarfsaðilar Tollstjóra álíta að embættið framfylgi mjög vel hlutverki sínu og að samstarfið sé árangursríkt. Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu sem gerð var 23. nóvember til 13. desember 2016. Könnuð voru viðhorf aðila í samskiptum við Tollstjóra. Af 129 aðilum, sem starfa hjá 47 fyrirtækjum og stofnunum, svöruðu 113 könnuninni (87,6% svarhlutfall). Eru niðurstöður í senn hvetjandi og ánægjulegar.
2017
Í ársskýrslu Tollstjóra má finna stefnu í innheimtumálum og tollamálum auk mannauðsstefnu, upplýsingatæknistefnu, rekstrar-og umhverfisstefnu og þjónustu-og gæðastefnu, sem allar stuðla að því að embættið geti framfylgt því hlutverki sínu að vernda samfélagið og tryggja ríkinu tekjur.
Fjallað er stuttlega um það sem bar hæst í rekstri og verkefnavinnu árið 2017. Hvoru tveggja, árangursríkur rekstur og verkefnavinna, stuðlar að því að framtíðarsýn embættisins, stefnu þess og markmiðum verði náð.
Þá er gerð grein fyrir markmiðum, mælikvörðum og viðmiðum sem lögð eru til grundvallar mati á árangri starfseminnar og niðurstöðum slíks mats fyrir næstliðin ár.
Áhugaverð tölfræði er birt auk rekstrarreiknings, efnahagsreiknings og sjóðstreymis. Rekstrarlegt markmið Tollstjóra er að árlegur rekstrarkostnaður verði ekki umfram samþykktar fjárheimildir í rekstraráætlun hvers árs. Var því markmiði náð á árinu 2017 líkt og undanfarin ár en rekstrarafgangur nemur 175 milljónum króna.
Þá benda niðurstöður viðhorfskannana meðal starfsmanna, almennings og samstarfsaðila til að ágætlega gangi að innleiða stefnu Tollstjóra.
Tollstjóri heldur áfram að feta upp sætastigann í könnunum SFR. Að þessu sinni hækkaði embættið um fimm sæti en í sambærilegri könnun fyrir árið 2016 hækkaði Tollstjóri um nítján sæti. Starfsandi, sveigjanleiki vinnu, sjálfstæði í starfi og jafnrétti eru þeir þættir sem skoruðu hæst hjá starfsmönnum Tollstjóra samkvæmt SFR könnuninni. Framangreindir þættir mælast allir á styrkleikabili eða yfir 4,2 á skalanum 1 -5 og teljast því til þeirra þátta sem hafa hvetjandi áhrif á starfsfólk embættisins í starfi.
Jákvæðni almennings í garð Embættis tollstjóra hefur aukist milli áranna 2016 og 2017. Traust til embættisins hefur einnig vaxið á þessu tímabili. Þá hefur þeim fjölgað sem telja þjónustu Tollstjóra góða. Þetta kom fram í niðurstöðum könnunar sem Maskína gerði fyrir embættið dagana 20. -27. október 2017. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt og með henni voru könnuð viðhorf og þekking borgaranna til Tollstjóra. Af þeim sem tóku afstöðu í könnuninni nú sögðust 47.5 prósent bera traust til embættisins á móti 40.3 prósentum í október 2016. 42.1 prósent sögðu þjónustuna góða nú á móti 35.9 prósentum 2016. Þá kváðust 39.9 prósent nú jákvæð í garð Tollstjóra en 33.2 prósent 2016. Hins vegar fækkaði þeim nokkuð milli kannana sem töldu sig hafa þekkingu á embættinu eða úr 27.1 prósenti í 15.3.
Samstarfsaðilar Tollstjóra álíta að embættið framfylgi vel hlutverki sínu og að samstarfið sé árangursríkt. Þetta eru niðurstöður könnunar Maskínu sem gerð var 13. nóvember til 4. desember 2017. Könnuð voru viðhorf aðila í samskiptum við Tollstjóra. Niðurstöður könnunarinnar eru sem fyrr hvetjandi og ánægjulegar.
2018
Nefnd um aukna skilvirkni
Í júní setti fjármála- og efnahagsráðherra á laggirnar nefnd um aukna skilvirkni í skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda.
Verkefni nefndarinnar voru eftirfarandi:
- Að fjalla um verkaskiptingu, faglegt samstarf og sameiginleg verkefni milli stofnana ráðuneytisins við skattframkvæmd, álagningu og innheimtu opinberra gjalda. Nefndin leggi mat á það hvort og þá hvaða verkþættir það eru í starfsemi stofnananna sem eiga samleið. Þar má nefna breytta og skilvirkari verkaskiptingu hjá stofnununum og möguleg tækifæri í samrekstri og nýtingu sameiginlegra innviða.
- Að taka til athugunar hvaða önnur verkefni tengjast kjarnaverkefnum stofnana ráðuneytisins á sviði skattamála og mætti tengja með betri hætti inn í málaflokkinn. Í því sambandi má nefna tillögur sem varða fyrirkomulag innheimtumála í víðara samhengi. Gæta ber að samráði við aðra aðila innan stjórnkerfisins sem vinna að tengdum málum.
- Meta hverjar aðrar breytingar kunni að vera æskilegar fyrir stofnanir ráðuneytisins á sviði skattamála. Undir þennan lið fellur víðtækari nýting sjálfvirknivæðingar, gervigreindar og áhættustjórnunar innan skattkerfisins o.s.frv.
Nefndin taldi rétt að skoða m.a. eftirfarandi atriði:
- Greiningu á hlutverkum þriggja megin eininga: RSK, innheimtuþáttarins og tollþáttarins. Greina samlegðartækifæri, hvar rétt sé að skipa verkefnum saman þannig að þau vinnist betur í heild.
- Skilgreina markmið. Finna bestu aðstæður og hvernig þeim verður náð. Skoða kosti og galla þess að flytja innheimtuna frá tollstjóra til RSK.
- Þegar markmið hafa verið sett ákvarða þá skipulagið til að ná þeim fram.
Niðurstaða nefndarinnar var að margt mælti með því að flytja innheimtu opinberra gjalda frá tollstjóra til ríkisskattstjóra og lagði til við ráðherra að innheimtumál flytjist frá tollstjóra til ríkisskattstjóra. Var frumvarp þess efnis samþykkt á Alþingi í október.
Tollstjóraskipti
Í október urðu tollstjóraskipti Snorri Olsen sem gegnt hefur starfi tollstjóra allt frá árinu 1997 lét af störfum hjá embættinu í lok september og tók við embætti ríkisskattstjóra frá og með 1. október 2018. Fjármála- og efnahagsráðherra setti Sigurð Skúla Bergsson, aðstoðartollstjóra, tímabundið í embætti tollstjóra frá sama degi.
Heimsókn frá WCO
Kunio Mikuriya aðalritari WCO var í desember staddur á Íslandi í einkaerindum. Hann notaði tækifærið til að líta við á Tryggvagötunni og heimsækja embætti tollstjóra.
Á ljósmyndinni sem tekin var við þetta tækifæri eru frá vinstri Snorri Olsen ríkisskattstjóri og fyrrverandi tollstjóri, Sigfríður Gunnlaugsdóttir alþjóðafulltrúi, Kunio Mikuriya og Sigurður Skúli Bergsson tollstjóri.
2019
Innheimta flutt til ríkisskattstjóra
Þann 1. maí 2019 fluttist innheimta opinberra gjalda á höfuðborgarsvæðinu til Ríkisskattstjóra. Sameiginleg afgreiðsla innheimtusviðs Ríkisskattstjóra og Tollstjóra er í Tollhúsinu Tryggvagötu 19.
2020
Þann 11. desember 2019 var samþykkt á Alþingi að sameina embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra með það að markmiði að bæta þjónustu og hafa að leiðarljósi sjálfvirknivæðingu og stafræna opinbera þjónustu í starfsemi skatt- og tollyfirvalda. Í framhaldi þessarar ákvörðunar voru embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra sameinuð undir nafninu Skatturinn þann 1. janúar 2020.