Saga embættis tollstjóra

Embætti tollstjóra í Reykjavík var stofnað 1929 þegar lögreglustjóraembættinu í Reykjavík var skipt upp og tollheimta og tolleftirlit falið tollstjóraembættinu en lögreglumálefni lögreglustjóra. Frá því að Ísland öðlaðist fjárhagslegt sjálfstæði frá danska konungsveldinu 1872 hafði innheimta tolla hins vegar verið í höndum bæjarfógeta og síðar lögreglustjóraembættisins í Reykjavík.

Tollstjóraembættið hefur tekið ýmsum breytingum frá stofnun þess 1929, bæði að því er verkefni og skipulag snertir. Í upphafi lutu verkefni þess fyrst og fremst að umdæmi Reykjavíkur en stjórnsýslumörk þess áttu síðar eftir að breytast. Þannig var skipaður tollgæslustjóri við embættið 1957 sem jafnframt var yfirmaður tollgæslu utan Reykjavíkur í umboði fjármálaráðuneytisins. Það embætti var lagt niður 1996.

Árið 1987 var embætti ríkistollstjóra stofnað og tollstjórinn í Reykjavík jafnframt settur til að gegna stöðu ríkistollstjóra. Embætti ríkistollstjóra fór með yfirstjórn tollheimtu og tolleftirlits í landinu í umboði fjármálaráðherra, en meðal verkefna þess var að hafa eftirlit með tollframkvæmd og samræma hana, starfrækja og þróa tölvukerfi fyrir tollafgreiðslu og sinna alþjóðlegu samstarfi tollyfirvalda.

Árið 1998 var Gjaldheimtan í Reykjavík sameinuð tollstjóraembættinu. Við sameininguna fluttist meðal annars innheimta þing- og sveitarsjóðsgjalda til tollstjóraembættisins og umfang innheimtu skatta nær tvöfaldaðist. Embættinu var ennfremur falið eftirlits- og leiðbeiningarhlutverk með innheimtu skatta og gjalda á landsvísu.

Með breytingum á tollalögum var embætti ríkistollstjóra lagt niður árið 2001 og verkefni þess að meginhluta falin embætti tollstjórans í Reykjavík, en við öðrum tók fjármálaráðuneytið, eðli málsins samkvæmt. Fjármálaráðuneytið og tollstjórinn í Reykjavík gerðu í kjölfarið samning um útfærslu á lögbundnu hlutverki tollstjóraembættisins með hliðsjón af stöðu þess.

Frá stofnun embættis tollstjórans í Reykjavík hafa eftirtaldir menn gegnt stöðunni: Jón Hermannsson, frá 1. janúar 1929 til 1. október 1943; Torfi Hjartarson frá þeim tíma til 31. desember 1972 og Björn Hermannsson frá þeim tíma til 1997, en þá tók Snorri Olsen við embættinu og gengdi því til loka september 2018. Fjármála- og efnahagsráðherra setti Sigurð Skúla Bergsson þáverandi aðstoðartollstjóra tímabundið í embætti tollstjóra frá 1. október 2018 og gegndi hann því uns embætti tollstjóra og ríkisskattstjóra voru sameinuð, 1. janúar 2020, í nýrri stofnun sem ber nafnið Skatturinn. 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum