Tollhúsið

Mynd af tollhúsinu Tryggvagötu 19

Í janúar 1967 gerðu hafnarstjórinn í Reykjavík og tollstjórinn í Reykjavík með sér leigusamning til 50 ára um 4.846,3m² (fermetra) lóð norðan Tryggvagötu, milli Naustanna og Pósthússtrætis, til þess að reisa á henni tollstöð. Á lóðinni höfðu staðið tvö timburhús sem höfðu verið notuð sem hafnarskemmur. Hluti af öðru húsinu var tvílyftur og hafði skipaafgreiðsla Jes Ziemsen haft þar skrifstofur sínar. Þegar lóðin var afhent hafði hafnarstjórn látið fjarlægja þessi hús.

Kvaðir á lóðinni

Kvaðir á lóðinni voru þær að á 1. hæð yrði hafnarskemma og skyldi rekstri hennar hagað sem best samræmdist á hverjum tíma vöruuppskipun og tolleftirliti á hafnarsvæðinu í heild. En þá var gert ráð fyrir að tollstjóraembættið ætti að ráða yfir slíku geymslurými við höfnina, þar sem tollstjóri gæti ákveðið að taka heilu skipsfarmana inn í geymsluhús við höfnina til skynditollskoðunar. Efri hæðir hússins skyldu svo hýsa þá starfsemi embættisins, sem eðlilegt væri að hefði aðsetur við höfnina. Þá var tekið fram að í húsinu skyldi koma fyrir þeim bifreiðastæðum, sem skipulagsyfirvöld kvæðu á um.

Sérstakar kvaðir voru um húsrými þar sem tollskoðun færi fram á farangri farþega er kæmu með farþegaskipum til landsins og að fjögurra akreina hraðbraut yrði byggð í 6,5 metra hæð yfir lóðina frá austri til vesturs, en þar átti Geirsgata að liggja frá Kalkofnsvegi að Norðurstíg. Undir hraðbrautinni mátti byggja og var kveðið á um þetta til þess að umferð gæti gengið hindrunarlaust frá skipi við hafnarbakkann og inn í vöruskemmu - án þess að farið væri yfir umferðaræð. Á lóðinni mátti reisa allt að 40.000 m² hús.

Óvenju miklar kvaðir voru á lóðinni eins og hér kemur fram. Til þess að tryggja að þær yrðu haldnar var skylt að fá samþykki hafnarstjórnar fyrir húsinu, auk skipulags- og byggingarnefndar eins og venja er að dugi. Þá varð hafnarstjóri að samþykkja allar síðari breytingar á húsinu, ef gerðar yrðu. Þessi kvöð var vegna þess að lóðin var á hafnarsvæðinu, leigusali lóðar var Reykjavíkurhöfn.

Byggingarnefnd

Sérstök byggingarnefnd fyrir húsið hafði verið skipuð árið 1963 og áttu í henni sæti: Torfi Hjartarson, tollstjóri, Páll Sæmundsson, forstjóri, og Ragnar Jónsson sölustjóri. Fyrsta verk byggingarnefndar var að ráða tæknimenn til að teikna húsið. Síðan gerði nefndin þarfagreiningu með tæknimönnum og skilgreindi því næst þá aðila sem fengju aðstöðu fyrir starfsemi sína í húsinu, umfram þá er kveðið var á um í lóðarsamningi.

Samtímis því að unnið var að þarfagreiningu, voru gerðar fyrstu tillögur að húsinu og þegar lokið var við teikningar og þær samþykktar í bygginganefnd 9. mars 1967, var stærð hússins eftirfarandi:

Kjallari hússins, sem var fyrir tækniherbergi og hafnarskemmu 680,0 m²
Farþegaafgreiðsla 420,0 m²
1. hæð, hafnarskemma og fleira 2.755,0 m²
2. hæð, hafnarskemma undir brú sem var í báðum endum 875,0 m²
3. hæð, þar eru aðeins 2 stigahús og lyftur. Auk þess opin bílastæði 120, 0 m²
4. hæð, 1.615,0 m²
5. hæð, 1.615,0 m²
Samtals 8.085,0 m²
Nýting lóðar var 8.085,0 m² : 4.846,3 m² = 1,67

Ákveðið var að eftirfarandi stofnanir hefðu aðsetur fyrir starfsemi sína í Tollhúsinu:

Embætti tollstjóra, tollgæslan, skattstofan og farþegaafgreiðsla fyrir ferðamenn, sem kæmu eða færu með farþegaskipum er sigldu milli landa. Enn fremur lögreglustöð fyrir miðborgina, en þá var verið að reisa nýja lögreglustöð við Hlemm, sem þótti of langt frá miðborginni. Þá þótti það henta vel að hafa í húsinu aðstöðu fyrir lögskráningu skipverja, þar sem hún heyrði undir tollstjóraembættið.

Bygging hússins

Nokkru áður en teikningar að byggingunni voru samþykktar fékkst leyfi til að grafa fyrir húsinu, en fyrstu skóflustunguna tók fjármálaráðherra 27. janúar 1967.

Kostnaðaráætlun hafði verið samin og hljóðaði hún upp á 125 milljónir króna. Kostnaðaráætlun var stöðugt færð í samræmi við byggingarvísitöluna og þegar verki var lokið sýndi það sig, að áætlunin stóðst, enda fylgdist byggingarnefndin vel með og lagði áherslu á að engar breytingar á húsinu yrðu gerðar, ef það raskaði kostnaðartölum að nokkru ráði.

Þegar hafist var handa við að grafa fyrir húsinu kom fram, að öll lóðin var á uppfyllingu frá því þegar Reykjavíkurhöfn var gerð. Þá kom einnig fram að austurgafl hússins stendur á hinni frægu steinbryggju er byggð var á árunum 1883 - 1885, í framhaldi af Pósthússtræti. Sjór féll inn í þessa fyllingu, þannig að nokkurt vandaverk var að byggja kjallara hússins, en gólf hans er um 4,6 m undir háflóði.

Almenna byggingarfélaginu var falið að steypa upp kjallarann í ákvæðisvinnu. Hluta hans átti að nota undir vörugeymslu, svo að tryggja varð sem frekast var unnt að komist yrði hjá vatnsleka. Botnplatan var því höfð um 90 sm þykk og kjallaraveggir 45 sm og tryggði þessi þykka steypa þá einnig að kjallarinn flyti ekki upp á flóði, áður en bygging yrði reist.

Allt húsið er reist á súlum með mestu spennivíddum sem hagkvæmt þótti þá, en húsið var steypt upp á staðnum. Útveggir neðri hæða voru steyptir, en útveggir skrifstofuhæða voru keyptir frá Danmörku, tilbúnir til uppsetningar með gluggum, einangrun og grænum glasalplötum að utan. Að öðru leyti var húsið múrhúðað að utan og málað.

Þegar kom að innréttingum á skrifstofum var ákveðið að fara nýjar leiðir, sem nokkuð var farið að nota erlendis. Gert var ráð fyrir að allt starfsfólkið ynni í einum sal, en aðeins tveir til þrír yfirmenn fengju herbergi til umráða. Vinnusalurinn var skipulagður með ákveðnum opnum vinnustöðvum, þar sem hver og einn hafði allt til síns starfa, og þeim sem unnu saman var raðað þannig að hópvinna yrði auðveld. Á milli vinnustöðva var komið fyrir skermum, hillum og blómum - starfsfólkið átti því að hafa á tilfinningunni að það ynni í blómasal. Þessi tilhögun hefur ekki ávallt þótt henta, en hjá tollstjóra hefur hún haldist og að hluta hjá skattstjóra. Húsið var tekið í notkun í ársbyrjun 1971.

Mósaíkverkið

Vegna þess að hafnarskemman náði í gegnum húsið út að Tryggvagötu myndaðist þar 250 m² gluggalaus veggflötur út að götu. Byggingarnefnd og arkitekt voru sammála um að slíkur flötur myndi hafa slæm áhrif á heildargötumyndina, ef ekki væru gerðar sérstakar ráðstafanir til að prýða útlit hússins. Aðilar urðu því sammála um að reikna með því að láta setja þarna upp varanlegt listaverk. Lengi stóð á leyfi fjármálaráðherra fyrir slíkri framkvæmd, því ljóst var að listaverk úr mósaík, 44,0 x 4,5 m að stærð, kostaði mikið fé. Til þess að allir sæju að húsið væri ekki fullgert þótt það væri komið í notkun, var veggurinn látinn standa ómúrhúðaður í nokkur ár þar til leyfi fékkst. Var það Eysteinn Jónsson, fjármálaráðherra, er veitti leyfið.

Á þessum tíma fór mikið orð af Gerði Helgadóttur, listakonu. Hafði hún unnið mikið að mósaíklistaverkum í Þýskalandi og víðar. Afráðið var að hafa fyrst samband við hana áður en ákveðið yrði hvort efnt yrði til samkeppni um verkið. Oft hafði verið rætt um að verkið þyrfti að spegla lífið við höfnina, enda hafði höfnin verið lífæð Reykjavíkur síðan hún var gerð.

Þegar rætt var við listakonuna varð hún að sjálfsögðu strax hugfangin af slíku verki og ræddi við okkur, er stóðum að smíði hússins, vítt og breitt um fyrirhugað listaverk. Varð að samkomulagi að hún fengi teikningar og aðra aðstoð áður en hún færi aftur af landi brott, þar sem hún myndi vinna við tillögurnar erlendis.

Gerður fékk þann tíma sem hún ákvað sjálf að þyrfti, og þegar hún sneri aftur heim lagði hún nokkrar tillögur fram til umræðu. Allir sem höfðu með byggingarframkvæmd hússins að gera voru strax sammála um að mikið listaverk væri í uppsiglingu hjá Gerði Helgadóttur. Samþykkt var því án tafar að biðja hana um að vinna verkið. Jafnframt var óskað eftir að gera heildarsamning við hana og hið fræga listaverkafyrirtæki í Þýskalandi, Bræðurna Oidtmann, en Gerður hafði lengi starfað með þeim að uppsetningu frægra listaverka víða um Evrópu. Samningar tókust og Gerður vann listaverkið undir uppsetningu á verkstæði þeirra bræðra, sem sáu síðan um uppsetningu á Tollhúsið. Allt verkið var einstaklega vel af hendi leyst, bæði af hálfu Gerðar Helgadóttur og Oidtmannbræðra. Hefur það staðist óblíða íslenska veðráttu í áratugi, án þess að láta á sjá, og hefur listakonan hlotið einróma lof fyrir frábært verk, sem mun prýða Reykjavík um ókomin ár. Það tók Gerði um tvö ár að vinna verkið, sem var unnið og sett upp á árunum 1972 og 1973. Sá hluti veggsins, sem listaverkið nær ekki yfir, var klæddur íslenskum steinplötum, 2 sm á þykkt úr grænu gabbrói.

Breyting á skipulagi hafnarsvæðisins

Á árinu 1986 varð mikil breyting á skipulagi við höfnina. Með tilkomu Sundahafnar var svo til búið að flytja alla vöruflutninga frá gömlu höfninni og til hinnar nýju. Jafnframt því var svo ákveðið að færa hafnarbakkann við Geirsgötu út um 20 m. Var það gert til þess að rýma til svo hægt væri að leggja Geirsgötu á jörðinni og hætta við hraðbrautina á brúnni, sem steypt hafði verið fyrir 16 árum. Þessi brúargerð var enda talin mjög dýr í framkvæmd, ef af yrði. Með þessari breytingu var húsið í raun flutt af hafnarsvæðinu. Kvaðir um hafnarskemmu, sem og aðrar kvaðir, féllu niður og nýr samningur var gerður um lóð og hús í maí 1993.

Stækkanir og breytingar

Með þessum nýja samningi, sem var gerður milli ríkis og Reykjavíkurborgar, opnuðust nýjar leiðir fyrir eigendur Tollhússins til breytinga og stækkunar á vinnuaðstöðu í húsinu. Frá því að húsið var reist hafði borgin rekið 64 bifreiðastæði, sem hún átti á brúnni, samkvæmt fyrri samningi. Með nýjum samningi urðu þessi stæði eign Tollhússins. Af þeirri ástæðu einni var hægt að byggja um 3.200 gólffermetra við húsið. Tollstjóri hafði í raun áður hafið nokkra stækkun á húsrými fyrir embættið. Þannig hagaði til að í hafnarskemmunni var lofthæð um 6,5 m, en það svarar til tveggja hæða húss. Í lok áttunda áratugarins fékk tollstjóri leyfi til að byggja 330 m² rými, sem var þá 2. hæð í skemmunni. Síðar var haldið áfram, þar sem skattstofan þurfti á verulegri stækkun að halda og farið að íhuga að byggja 3. hæðina á bifreiðastæðinu, þar sem sýnt var að brúarstæðið myndi verða eign hússins. Það varð því úr að farið var að teikna nýja hæð þarna. Var hún samþykkt á árinu 1991 og byggð 1993. Hæð þessi er 774 m² að stærð og leysti allan vanda skattstofunnar í bili.

Fleiri stækkanir hafa átt sér stað, til dæmis var eldhús fyrir mötuneyti starfsmanna stækkað um 57,3 m² árið 1981. Þá var innréttuð í vesturenda hússins ágæt fundaraðstaða með rúmgóðum fundarsal (127 m²) árið 1979. Í austurenda hússins var árið 1995 gerð ný aðstaða á 2. hæð fyrir ríkistollstjóra, 196,2 m² að stærð.

Allar þessar stækkanir eiga sér stað á þann hátt að byggð er 2. hæð inni í hafnarskemmunni. Án efa eiga slíkar stækkanir eftir að þróast áfram. Þegar hætt var að nota 1. hæð hússins sem hafnarskemmu um 1990 var húsnæðið leigt öðrum og um 1994 var Þróunarfélagi Reykjavíkur leigð fyrrverandi hafnarskemma undir starfsemi markaðstorgs Kolaportsins hf.

Á meðan gengið var út frá því að hraðbraut skyldi liggja á 3. hæð hússins, bar húsið þess nokkur merki, þar sem ekki var hægt að ganga frá brúarendum fyrr en lokið væri við brúna beggja vegna þess. Eftir samninginn 1993 var gengið í það að ljúka við þessa enda og fella þennan hluta að húsgerðinni, þannig að nú sér þessa byggingaþáttar í sögu hússins ekki lengur merki.

Eftirtaldir aðilar sáu um teikningar og byggingarframkvæmdir.

Arkitektar: Gísli Halldórsson og Teiknistofan hf.
Verkfræðingar: Almenna byggingarfélagið hf.
Yfirverkfræðingur á staðnum: Karl Guðmundsson.
Rafverkfræðingur: Sigurður Halldórsson.
Verktakar: Almenna byggingarfélagið hf.
Trésmíðameistari: Guðmundur Jóhannsson.
Múrarameistari: Einar Ólafsson.

Reykjavík í apríl 1997,
Gísli Halldórsson.

Birt með góðfúslegu leyfi Fasteigna ríkissjóðs

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum