Álagningarseðill og forsendur 2013

Ýmsar tölulegar upplýsingar um forsendur við skattlagningu lögaðila 2013, vegna rekstrarársins 2012. Fyrir neðan töfluna er nánar fjallað um hverjir bera skattinn og af hvaða stofni hann er reiknaður.

Forsendur álagningar 

Tekjuskattur í almennu þrepi (hlutafélög, einkahlutafélög o.fl.)    20%
Tekjuskattur í efra þrepi (sameignarfélög, dánarbú, þrotabú o.fl.)   36%
Tekjuskattur félaga í efra þrepi af fengnum arði frá hlutafélögum   20%
Skattur á fjármagnstekjur óskattskyldra lögaðila   20%
     
Tryggingagjald, almennt   7,79%
Tryggingagjald vegna sjómanna við fiskveiðar   8,44%
 Búnaðargjald   1,2% 
 Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki   0,041%
 Viðbót við sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki   0,0875%
 Jöfnunargjald alþjónustu   0,10% 
 Fjársýsluskattur    5,45%
 Sérstakur fjársýsluskattur    6%
     
 Útvarpsgjald kr.   18.800 
 Hámarks gjaldfærsla á eignasamstæðum kr. 250.000
     

Tekjuskattur

Lögaðilar sem bera 20% tekjuskatt eru skráð hlutafélög og einkahlutafélög, samlagshlutafélög sem eru sjálfstæðir skattaðilar, gagnkvæm vátryggingar- og ábyrgðarfélög, kaupfélög, önnur samvinnufélög og samvinnufélagasambönd.

Lögaðilar sem bera 36% tekjuskatt eru samlagsfélög og sameignarfélög sem eru sjálfstæðir skattaðilar, samlög og samtök sem annast vinnslu eða sölu á framleiðsluvörum félagsaðila sinna og eru sjálfstæðir skattaðilar, dánarbú og þrotabú, svo og önnur félög, sjóðir og stofnanir, þ.m.t. sjálfseignarstofnanir. Þó ekki félög, sjóðir og stofnanir sem ekki reka atvinnu, lífeyrissjóðir og starfstengdir eftirlaunasjóðir sem hafa heimild til að taka á móti iðgjöldum.

Lögaðilar sem bera 36% tekjuskatt greiða þó 20% tekjuskatt af fengnum arði frá hlutafélögum.

Tryggingagjald

Þar sem talað er um tryggingagjald hér á eftir er átt við almennt tryggingagjald auk gjalda sem lögð eru á sama stofn og innheimt í einu lagi í staðgreiðslu. Gjaldstigið er samanlagt 7,79%.

Innifalin í samanlagðri prósentutölu eru eftirtalin gjöld:

  • Almennt tryggingagjald......................................... 4,99%
  • Atvinnutryggingagjald........................................... 2,45%
  • Gjald í Ábyrgðasjóð launa v/gjaldþrota................. 0,30%
  • Markaðsgjald......................................................... 0,05%
  • Samtals hundraðshluti til álagningar................... 7,79%

Á laun sjómanna við fiskveiðar reiknast 0,65% viðbót vegna slysatryggingar og er tryggingagjald af þeim launum 8,44%.

Gjaldstofn og álagning

Gjaldstofninn er öll greidd laun, reiknað endurgjald, þóknanir, hlunnindi, mótframlag í lífeyrissjóð og aðrar hliðstæðar greiðslur. Gjaldskyldir eru allir þeir sem greiða laun. Gjaldið er reiknað fyrir hvert launatímabil, sem eru almanaksmánuðirnir, nema ef gjaldstofn er lægri en 504.000 kr. á ári, þá er lagt á hann sem launagreiðslur í desember.

Staðgreiðsluskylt tryggingagjald

Á staðgreiðsluári skal greiða tryggingagjald mánaðarlega. Heimilt var þó á árinu 2012 að skila tryggingagjaldi af gjaldstofni í fyrsta sinn í þeim mánuði, sem stofninn náði 504.000 kr. og síðan mánaðarlega eftir það, ef gjaldstofn hafði til þess tíma verið lægri að meðaltali en 42.000 kr. á mánuði. Af gjaldstofni lægri en 504.000 kr. á árinu mátti hins vegar skila tryggingagjaldi í einu lagi eins og um greiðslu fyrir desember væri að ræða.

Tryggingagjald utan staðgreiðslu

Stofn til tryggingagjalds utan staðgreiðslu er sérgreindur á framtali. Gjald sem lagt er á hann er með gjalddaga 1. nóvember 2013. Þetta getur t.d. átt við um einkennisfatnað, reiknað endurgjald sem er lægra en 215.000 kr. og reiknað endurgjald barna.

Skattur á fjármagnstekjur

Óskattskyldir lögaðilar greiða 20% tekjuskatt af arði og söluhagnaði af hlutabréfum og af vaxtatekjum. Ekki er lagður fjármagnstekjuskattur á lögaðila í atvinnurekstri, enda eru fjármagnstekjur hluti af rekstrartekjum og mynda stofn til tekjuskatts.

Dæmi um óskattskyld félög: Skólar og fyrirtæki sveitarfélaga, tómstunda- og áhugamannafélög, íþróttafélög, húsfélög, stéttarfélög, styrktarsjóðir og líknarfélög. Einnig trúfélög og söfnuðir, vísinda-, menningar- og fræðslufélög, stjórnmálafélög, björgunarsveitir og dýraverndunarfélög.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki

Skattstofninn er heildarskuldir, eins og þær eru tilgreindar á skattframtali.  Gjaldhlutfallið er 0,041%. Skattinn bera félög sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, og aðrir sem hafa fengið leyfi til að taka við innlánum.

Viðbót við sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki er 0,0875%. Skattstofninn er sá sami og gjaldendur þeir sömu. Viðbótarskatturinn er lagður á við álagningu opinberra gjalda árin 2012 og 2013.

Búnaðargjald

Gjaldstofninn er virðisaukaskattsskyld velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá gjaldskyldum búvöruframleiðendum. Gjaldhlutfallið er 1,2%. Gjaldið bera búvöruframleiðendur sem falla undir landbúnað og skógrækt. Þó hvorki dýraveiðar og tengd þjónusta né þjónusta við jarðyrkju, búfjárrækt og skógrækt.

Jöfnunargjald alþjónustu

Gjaldstofninn er bókfærð velta af fjarskiptaþjónustu. Gjaldhlutfallið er 0,10%. Gjaldið bera fjarskiptafyrirtæki sem starfrækja fjarskiptanet eða þjónustu og rennur það í jöfnunarsjóð í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar.

Fjársýsluskattur

Fjármálafyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og tryggingafélög, auk Íbúðalánasjóðs, bera fjársýsluskatt. Skatturinn er 5,45% á tekjuárinu 2012, en 6,75% á tekjuárinu 2013, og stofninn eru allar tegundir launa og þóknana. Skattinum skal skila mánaðarlega í staðgreiðslu.

Sérstakur fjársýsluskattur

Þessi skattur er 6% viðbótar tekjuskattur á tekjuskattsstofn umfram 1.000 milljónir króna og er lagður á sömu aðila og bera fjársýsluskatt. Standa átti skil á mánaðarlegum fyrirframgreiðslum á tekjuárinu 2012.

Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur

Fjármagnstekjur eru hluti af rekstrartekjum lögaðila í atvinnurekstri og mynda stofn til tekjuskatts. Fjármagnstekjuskattur er því ekki lagður á skattskylda lögaðila.

Hins vegar er staðgreiðsla dregin af vaxtatekjum og arði lögaðila. Afdregin staðgreiðsla skal tilgreind á framtali og gengur til greiðslu opinberra gjalda sem lögð eru á lögaðila í atvinnurekstri.

Útvarpsgjald

Gjaldið er 18.800 kr. á ári og er lagt á skattskylda lögaðila, aðra en dánarbú og þrotabú. Lögaðilar sem undanþegnir eru skattskyldu samkvæmt 4. grein skattalaga eru einnig undanþegnir útvarpsgjaldi. Það eru t.d. ríkissjóður, sveitarfélög, alþjóðastofnanir, styrktar- og líknarfélög, lífeyrissjóðir og eftirlaunasjóðir.

Kærufrestur

Frestur til þess að kæra álagningu opinberra gjalda og tryggingagjalds er 30 dagar frá dagsetningu auglýsingar ríkisskattstjóra um að álagningu sé lokið. Unnt er að senda kæru rafrænt á þjónustusíðu http://www.skattur.is/.

Ítarefni

Hvar finn ég reglurnar?

Fjársýsluskattur – lög nr. 165/2011, um fjársýsluskatt

Gjald í Ábyrgðasjóð launa - 23. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa

Gjaldstofn búnaðargjalds - 11. og 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt

Jöfnunargjald alþjónustu - 22. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti

Markaðsgjald - 5. gr. laga nr. 38/2010, um Íslandsstofu

Sérstakur fjársýsluskattur – 3. mgr. 71. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki - lög nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki

Skattskylda lögaðila - 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt

Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur - lög nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur

Tryggingagjald - lög nr. 113/1990, um tryggingagjald

Útvarpsgjald - 14. gr. laga nr. 23/2013, um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu

Viðbót við sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki – ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki

Búnaðargjald - lög nr. 84/1997, um búnaðargjald

Annað

Ríkisskattstjóri veitir nánari upplýsingar um álagningu þinggjalda og tryggingagjalds. Upplýsingar um greiðslustöðu, útborgun inneigna og innheimtu skulda veita Tollstjóri og sýslumenn utan Reykjavíkur. Greiðslustöðu hjá innheimtumanni má einnig sjá á þjónustusíðu framteljanda á http://www.skattur.is/.



Leiðbeiningar þessar skapa hvorki rétt né skyldur umfram ákvæði laga.

Álagningarseðillinn

Álögð gjöld (þinggjöld) eru tekjuskattur, búnaðargjald, sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, jöfnunargjald alþjónustu, útvarpsgjald, tryggingagjald og gjöld því tengd og fjársýsluskattur. Skattur á fjármagnstekjur er eingöngu lagður á lögaðila sem undanþegnir eru almennri skattlagningu, sbr. það sem nefnt er í 3. mgr. 1. kafla hér að framan um arðgreiðslur.

Til frádráttar koma:

  • Fyrirframgreiðsla upp í álögð gjöld.
  • Staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.
  • Inneignarvextir að frádreginni staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.
  • Staðgreiðsla tryggingagjalds og tengdra gjalda.
  • Staðgreiðsla fjársýsluskatts.
  • Rannsóknar- og þróunarkostnaður vegna nýsköpunarverkefna sem hlotið hafa staðfestingu Rannís.

Séu þessir liðir hærri en álögð gjöld kemur mismunurinn til skuldajöfnunar og/eða endurgreiðslu. Ofgreiðslu er fyrst ráðstafað upp í eldri eftirstöðvar þinggjalda, tryggingagjalds og fjársýsluskatts, síðan á móti gjöldum ársins sem gjaldfalla 1. nóvember eða fyrr og að lokum upp í aðrar gjaldfallnar skuldir.

Gjalddagar

Gjalddagar opinberra gjalda lögaðila eru 1. dagur hvers mánaðar, nema mánuðina janúar og október.

Þar til álagning liggur fyrir skal greiða á hverjum gjalddaga ákveðinn hundraðshluta skatta er greiða bar næstliðið ár. Gjalddagar fyrirframgreiðslu á árinu 2013 voru átta. Eftirstöðvum gjalda er jafnað á tvo gjalddaga, 1. nóvember og 1. desember. Gjalddagaskipting miðast þó við að ekki sé til innheimtu lægri fjárhæð en 2.000 kr. á hverjum gjalddaga.

Staðgreiðsluskylt tryggingagjald og fjársýsluskattur er gjaldfallið fyrir 1. nóvember. Tryggingagjald og fjársýsluskattur utan staðgreiðslu gjaldfellur 1. nóv­ember.

Gjalddagi viðbótar á sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki er 1. nóvember 2012 og 2013. Greiða skal fyrirfram upp í álagðan viðbótarskatt 1. nóvember 2011 og 2012 og miðast sú greiðsla við skattstofn eins og hann var í árslok 2010 og 2011.

Vangreiðsla á hluta gjalda veldur því að öll gjöld á gjaldárinu falla í eindaga 15 dögum eftir gjalddagann, þó ekki fyrr en 15. næsta mánaðar eftir að álagningu er lokið, þ.e. 15. nóvember.

Dráttarvextir og inneignarvextir

Dráttarvextir eru reiknaðir í samræmi við ákvæði 114. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 13. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald, sbr. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Vextir á ofgreitt tryggingagjald eða fjársýsluskatt eru reiknaðir í samræmi við 2. mgr. 114. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt.

Greiðsluseðlar

Greiðsluseðlar verða sendir út vegna gjalddaga 1. nóvember og 1. desember ef fjárhæð á gjalddaga er 2.000 kr. eða hærri.

Nánari upplýsingar

Tollstjóri og sýslumenn utan Reykjavíkur veita nánari upplýsingar um greiðslustöðu, útborgun inneigna og innheimtu skulda. Greiðslustöðu hjá innheimtumanni má einnig sjá á þjónustusíðu framteljanda á www.skattur.is. Ríkisskattstjóri veitir nánari upplýsingar um álagningu þinggjalda og tryggingagjalds.

Leiðbeiningar þessar skapa hvorki rétt né skyldur umfram ákvæði laga.


Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum